Gestur Guðjónsson

31 janúar 2006

Þau sköpuðu velmegunina

Morgunblaðið 28. janúar 2006
Málefni eldri borgara hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarin misseri. Aðbúnaður og kjör þeirra hafa verið gagnrýnd og er ýmislegt í þeirri gagnrýni réttmætt og nauðsynlegt er að skoða hvað hægt sé að gera til úrbóta. Margt af því er vegna þess að viðmiðin hafa breyst. Er það vel og greinilegt að við, þessi ríka þjóð, höfum vilja til að gera vel við þá kynslóð sem fremur öðrum lögðu grunninn að þeirri velmegun sem við búum við í dag.

Flest þessara atriða snúa reyndar að ríkinu, enda stærstur hluti málaflokksins þar, lífeyrir, hjúkrunarheimili o.s.frv. Margt snýr samt einnig að sveitarfélögunum og í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga þarf að huga vel að þeim þáttum sem að borginni snúa.

Breytinga er þörf á verkaskiptingu
Hluti af þessum vanda stafar af því að sveitarfélögin og ríkið eru bæði að vasast í málaflokknum sem veldur skorti á samþættingu og samhæfingu. Í grófum dráttum sér sveitarfélagið um heimaþjónustu en ríkið um stofnanaþjónustu. Það er freistandi fyrir sveitarfélögin að spara í heimaþjónustunni, en það verður til þess að fólk þarf fyrr á að halda þyngri og dýrari valkostum eins og hjúkrunarheimilum, sem kostuð eru af ríkinu. Til að koma í veg fyrir slíka stöðu er nauðsynlegt að fela málaflokkinn einum aðila og væri heppilegast að sveitarfélögin tækju við honum hið fyrsta. Reykjavíkurborg ætti að ganga á undan og gera þjónustusamning við ríkið um úrræði fyrir Reykvíkinga, þar til málaflokkurinn verður færður í heild sinni til sveitarfélaganna. Fyrr er ekki hægt að tala um aðbúnað á hjúkrunarheimilum á vettvangi sveitarstjórnarmála og ætla ég ekki að gera það hér.

Höldum í sjálfstæðið – aukin heimaþjónusta
Það er margsannað mál að vellíðan og heilsa haldast í hendur og ljóst að vellíðan hvers og eins byggist á jákvæðu sjálfsmati sem hrynur hjá mörgum þegar þeir þurfa að flytjast af eigin heimili á hjúkrunarheimili. Er því algert forgangsmál að leggja áherslu á að lengja þann tíma sem hver og einn getur búið með reisn á eigin heimili, hvort sem það er sérbyggt fyrir aldraða eður ei. Margt er hægt að gera á vegum sveitarfélagsins í því sambandi.
Má þar nefna aukna heimaþjónustu, sem er algert lykilatriði í því að auka öryggi fólks, bættar almenningssamgöngur, með strætisvögnum sem miðaðir eru við þarfir eldra fólks, auk betri þjónustu á gönguleiðum. Einnig þarf að styðja og styrkja sjálfboðaliðasamtök sem sinna samfélagsþjónustu, enda er það líklega ein besta nýting opinbers fjár að virkja náungakærleikann.

Það er sem sagt talsvert sem borgin getur gert fyrir eldri borgarana og ekki mun ég liggja á liði mínu í þeirri vinnu, þeir eiga það skilið.

30 janúar 2006

Nú er valdið þitt

Nú líður að prófkjörinu sem haldið verður á morgun, 28. janúar 2005 og inni í kjörklefanum er vald þitt algert. Listinn sem þú velur þarf að vera sigurstranglegur, skipaður öflugum einstaklingum með víðtæka skírskotun, reynslu og menntun sem getur nýst okkur öllum til þess að gera borgina enn betri. Ég óska að sjálfsögðu eftir því að þú setjir mig í 3. sætið, en þitt er valdið.

29 janúar 2006

Góður stuðningur

Vinkona mín Ella Þóra Jónsdóttir sá ástæðu til að mæla með mér í Mogganum. Skoðið greinina hér. Maður er hálf skrítinn að lesa svona lagað um sig.

28 janúar 2006

Góður stuðningur úr Borgarfirðinum

Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum stuðningi. Stjórn framsóknarfélagsins á Bifröst hvetur til þess að ég verði settur í 3. sætið. Takk fyrir það. Heimasíða félagsins er www.framsokn.tk

27 janúar 2006

Sigurjón úr stólnum galar

Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins taldi ástæðu til að koma í pontu og úthrópa prófkjörsbaráttu okkar framsóknarmanna í Reykjavík sem einhverja þá dýrustu sem um getur, hún eigi sér ekki fordæmi í Íslandssögunni og spyr hvaðan peningarnir komi. Honum líkt.

Mér sýnist af þeim upplýsingum sem ég hef, að prófkjörsbarátta allra frambjóðendanna samanlagt sé lægri ef ekki mun lægri en prófkjörsbarátta hvors forystukandidata íhaldsins í borginni fyrir sig. Ég er að eyða að hámarki 150 þúsund í baráttuna, aðrir meira, fyrir utan vinnu mína og vina minna sem er mikil og ómetanleg. Sú athygli sem við erum að fá fyrir það fé sem sett er í baráttuna og gremur Sigurjón greinilega sýnir svart á hvítu að framsóknarmenn kunna að sýna ráðdeild í rekstri og er greinilega betur treystandi til að fara með fjármuni en öðrum. Sigurjón þorir kannski ekki að minnast á íhaldið vegna þess að hann ætlar sér að fara þangað innan skamms?

26 janúar 2006

Barnafjölskyldur og launajafnrétti

Fréttablaðið 25. janúar 2005
Börn eru hverju samfélagi nauðsyn. Því getur raunveruleg ógn stafað af barnafæð og einnig af því að börn fái ekki notið þess uppeldis sem nauðsynlegt er til að þau verði nýtir þjóðfélagsþegnar í sífellt flóknara samfélagi sem krefst meira af einstaklingnum.

Það er því nauðsynlegt að samfélagið verndi og bæti rammann um barneignir og uppeldi og tel ég að styrking fjölskyldunnar sé besta leiðin til þess.

Fæðingarorlofslögin voru bylting
Með setningu laga um fæðingarorlof var stigið stórt framfaraskref í styrkingu rammans um uppeldi barna. Báðir foreldrar geta nú notið samvista við barnið á fyrstu mánuðum ævi þess án þess að leggja fjárhag heimilisins í rúst. Er ljóst að þátttaka karla í uppeldi barna mun aukast til muna vegna þessa.

Nauðsynlegt er að haldið verði áfram að tryggja framtíð kerfisins, enda er hér um að ræða fjölskylduvænstu aðgerð sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt.

Af sömu ástæðu er það skylda samfélagsins að taka fjárhagslegan þátt í uppeldi barna og fyrsta skrefið í því hlýtur að vera að innheimta í það minnsta ekki skatt af þeim fjármunum sem renna til uppeldis. Er því eðlilegt að barnabætur verði ótekjutengdar og taki mið af raunverulegum kostnaði við barnauppeldið.

Bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þarf að brúa
Almenn sátt virðist vera um að brúa eigi bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Flestir leggja til styrkingu dagmæðrakerfisins eða styrki til þeirra sem vilja vera heima hjá börnum sínum eða barnabörnum. Ég tel að skoða eigi lengingu fæðingarorlofsins til að létta á þessari þörf.

Vinnutími Íslendinga er langur
Íslendingar vinna lengstan vinnudag Norður-Evrópuþjóða. Langur vinnudagur fækkar samverustundum fjölskyldna og leggur uppeldi barna í ríkari mæli á herðar stofnana, sem aldrei geta komið í stað heilbrigðrar fjölskyldu, hversu góðar sem stofnanirnar eru. Er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins eiga stóran hlut að máli með þeirri samsetningu launa sem hefur tíðkast hérlendis, þar sem greitt er 60-70% yfirvinnuálag.
Fólk er sem sagt verðlaunað til að vera fjarri fjölskyldum sínum og vinna langan vinnudag, en hagtölur sýna að atvinnurekendur eru ekki að fá tilsvarandi framleiðniaukningu, enda er starfsorka manna takmörkuð.

Launajafnrétti
Fleiri atriði tengjast yfirvinnuálaginu og ber launajafnrétti þar hæst. Einstæðir foreldrar og annar makinn hafa ekki möguleika á að vinna yfirvinnu meðan börn eru á leikskólaaldri og í yngri bekkjum skóla, enda vistunartíminn sem betur fer takmarkaður. Hinn aðilinn, ef honum er til að dreifa og fólk barnlaust, hefur möguleika á að vinna yfirvinnu, gerir það í ríkum mæli og nýtur ríkulega fyrir. Ef marka má fréttafluting af kjaraviðræðum virðist lítið tillit vera tekið til þessa og yfirleitt rætt um heildarlaun. Hafa aðilar vinnumarkaðarins brugðist hvað þetta áhrærir og skilið barnafólk og þá oftast konur og einstæða foreldra eftir með mun minni heildartekjur þrátt fyrir mikið vinnuframlag. Þessu þarf að breyta og er næsta stóra skrefið í jafnréttisbaráttunni.

25 janúar 2006

Öflugt grunnskólastarf

Morgunblaðið 24. janúar 2006
Mikil breyting hefur orðið á starfi skólanna á síðasta áratug. Rekstur grunnskólans var fluttur frá ríki til sveitarfélaganna skömmu eftir að R-listinn tók við völdum um leið og kröfur til skólastarfsins voru stórauknar, sérstaklega kröfur um einsetinn skóla.

Miklar framkvæmdir að baki
Vitaskuld gátu sveitarfélögin, ekki einu sinni Reykjavík, farið í þær byggingaframkvæmdir sem til þurfti án þess að taka fyrir þeim lán. Til þess nægðu tekjustofnar sveitarfélaganna ekki og eru þau mörg hver afar skuldsett vegna þessa, mismikið þó. Var vel að þessum málum staðið hjá borginni, enda sýnir það sig endurtekið að með því að taka af festu á málum og ljúka þeim fljótt eins og gert var undir styrkri stjórn Sigrúnar Magnúsdóttur, verður minnst rask á starfinu um leið og afraksturinn af uppbyggingunni og fjármunum fer fyrr að skila sér.

Annað framfaramál sem hrint hefur verið í framkvæmd er að gefa nemendum kost á skólamáltíðum. Nauðsynlegt er að ljúka því átaki hið fyrsta svo að allir nemendur eigi kost á heitri og hollri máltíð í skólanum og þarf borgin að setja skýra stefnu í þeim málum.

Innra starf skólanna
En það sem þó skiptir mestu máli er skólastarfið sjálft. Þar hafa orðið miklar breytingar og ýmsar stefnur og sjónarmið tekist á við grunnmótun skólastarfsins.

Mörg sjónarmið eru vel samrýmanleg eins og markmiðið um einstaklingsmiðað nám. Börn taka mishratt út þroska og eiga einnig misauðvelt með hinar ýmsu námsgreinar. Er því eðlilegt að geta þeirra til að tileinka sér efnið sé mismikil og útheimti mismikinn tíma og vinnu.

Tíminn getur nýtist mjög illa ef hafa á nemendur með mismiklinn námshraða saman í kennslu og brot á réttindum nemenda að fá ekki kennslu og námsefni við hæfi. Þau sem afkasta mestu í viðkomandi grein þurfa að bíða eftir hinum, sem getur leitt af sér námsleiða og agavandamál. Ef hin börnin fá ekki þann tíma sem þau þurfa getur það leitt til minnimáttarkenndar og haft slæm áhrif á sjálfsmyndina sem mótast mikið á þessum árum.

Tillit til getu hvers og eins
Hægt er að koma til móts við þennan vanda með getuskiptingu. Þar sem sum börn eiga misauðvelt með sumar greinar en ekki aðrar. Ekki er víst að hrein getuskipting í fasta bekki eigi við í öllum tilfellum, frekar að skipta í bekki eða námshópa eftir færni hvers barns í því fagi sem um ræðir hverju sinni.

Væri eðlilegt að horft verði til þess að skipuleggja skólastarfið í anda fjölbrautaskólanna, sérstaklega í unglingadeildum í þeim fögum sem það á við, þannig að nemendur taki ákveðna áfanga og þeir sem þurfa lengstan tíma, nýti hann í að læra kjarnafögin. Þau börn sem hafa tíma aflögu geti nýtt hann í val, annaðhvort með því að breikka námið með fleiri greinum eða með því að flýta fyrir sér í framhaldsskólanámi eins og þegar er byrjað að gera.

Grunnskólalögin setja sveitarfélögum reyndar takmörk í stefnumörkun í þessa átt, en sveitarfélög ættu að beita sér fyrir því að þeim verði breytt svo borginni og öðrum verði gert kleift að móta slíka stefnu.

Skóli án aðgreiningar?
Önnur sjónarmið eru illsamrýmanleg og gildir þá að miðla málum þannig að sem best fari fyrir heildina og einstaklingana. Sem dæmi má nefna stefnuna „skóli án aðgreiningar“. Skóli án aðgreiningar eða skóli fyrir alla er oftast skilgreindur á Íslandi sem almennur skóli sem tekur við öllum nemendum í sínu skólahverfi og sinnir námsþörfum þeirra í almennum bekkjardeildum á áhrifaríkan hátt. Samkvæmt þeirri stefnu skal nemendum blandað í bekki óháð atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegs og tilfinningalegs ásigkomulags eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðargreind og greindarskert og allt þar á milli.

Þetta reynir óneitanlega mikið á kennsluna, kennarana og nemendurna sem þurfa að samræma mörg sjónarmið, sem oft virðast ósamrýmanleg. Samkvæmt könnun Gallups er mikil andstaða meðal starfsfólks grunnskóla við stefnu Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar. Tæplega 60% líst illa eða frekar illa á hana, rúmum 22% vel eða frekar vel og 18% taka ekki afstöðu.

Rétt er að hlusta á kennarana, fagmennina, í þessu máli. Í ákveðnum námsgreinum á vel við að blanda fullkomlega, brjóta bekki upp og vinna í öðrum hópum, enda nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hvers konar fordóma. En það er afar erfitt og óframkvæmanlegt án mikillar útgjaldaaukningar að vinna algerlega eftir hugsuninni um skóla án aðgreiningar um leið og tryggja jafnframt öllum nemendum nám við hæfi, sem hlýtur að vera frumtilgangur grunnskólans.

Er því alveg ljóst að margt þarf að skoða og margt er hægt að bæta í grunnskólum borgarinnar, sem er afar spennandi og mikilvægt verkefni.

24 janúar 2006

Drengilega baráttu takk

Forsíða DV í dag var undirlögð umfjöllun um einn frambjóðandann í prófkjörinu, en stuðningsmenn hans munu hafa verið að gera sér glaðan dag í fyrrakvöld. Lögreglan hefur sagt að sér hafi borist ábending um að verið væri að veita unglingum undir aldri áfengi. Auðvitað varð lögreglan við þeirri ábendingu, mætti á staðinn og eftir könnun á staðnum var ekki talin ástæða til að aðhafast neitt. Engu að síður varð þetta að frétt vegna ábendingar eins flokksmanns okkar. Fréttin skaðar viðkomandi frambjóðanda, en ekki síður flokkinn.

Þetta mál verður að vera okkur áminning um að við erum í prófkjöri, sem er keppni, ekki bardagi og verðum við öll að sýna hvort öðru virðingu og viðhafa heiðarleg vinnubrögð og hana nú.

23 janúar 2006

Umhverfisvernd innan borgarmarkanna

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 23. janúar
Margir Reykvíkingar hafa látið að sér kveða í umhverfisverndarmálum og er það vel. Flest mál af því tagi, sem ber hátt í umræðunni, varða önnur landsvæði en þau sem eru innan borgarmarkanna. En er það endilega vegna þess að ekki þurfi að hafa áhyggjur af umhverfismálum í Reykjavík? Ég tel að svo sé alls ekki.

Lágmörkum skaðann
Öll byggð hefur í för með sér umhverfisáhrif, bæði vegna þess að ósnortinni og oft blómlegri náttúru, móum, hrauni, vallendi, strandsvæðum eða heiðum er breytt í borgarbyggð, með malbiki, trjám, ábornu grasi og mannvirkjum og ekki síður vegna atferlis íbúanna, t.d. með bílum, vatnsnotkun, úrgangsframleiðslu og með truflun á búsvæðum dýra og plantna. Þessi áhrif hafa almennt verið talin ásættanleg vegna þess að við teljum það vera mikilvægari hagsmuni að uppfylla þarfir okkar um íbúðir og pláss undir atvinnustarfsemi. En okkur ber einnig skylda til að gera það sem við getum til að lágmarka þann skaða sem við völdum umhverfinu með atferli okkar. Náttúran hefur gefið okkur svo mikið að við skuldum henni það.

Reykjavíkurborg hefur mótað sér umhverfisstefnu og verður að fylgja þeirri stefnu eftir og endurskoða hana reglulega og taka tillit til framfara í tækniþróun, breyttra krafna, nýjustu rannsókna og viðhorfs borgarbúa sjálfra til umhverfisins.

Þetta hljómar kannski hástemmt, en raunin er sú, sem betur fer, að okkur hefur auðnast að ganga þannig um umhverfið að við eigum t.d. tvær gjöfular laxveiðiár, Elliðaárnar og Úlfarsá innan borgarmarkanna. Mér er til efs að nokkur höfuðborg sé svo auðug. Eins og með öll djásn, ber okkur að gæta þeirra vel og sífellt verður að leita leiða til að lágmarka neikvæð áhrif okkar á umhverfið. Ánægjulegt er að fylgjast með áætlunum R-listans um verndun ánna komast í framkvæmd, en hreinsun ofanvatns er málaflokkur sem er mikið til umræðu í Evrópu og Ameríku þessi misserin, enda er búið að ná að mestu utan um vandamálin í tengslum við skólphreinsunina.

En það er samt ekki allt jafn gott og verður að horfa lengra til framtíðar í sumum málaflokkum.

Brennsla í stað urðunar?
Í sorpmálum hefur verið unnið eftir þeirri stefnu að urða þann úrgang sem ekki fer í endurvinnslu. Urðun er síðasta stig sorpmeðhöndlunar, á eftir endurnýtingu og endurvinnslu, og sú sem hvað mest umhverfisáhrif hefur. Til þess að auka hlutfall endurnýtingar og endurvinnslu þarf að stórbæta aðgengi borgaranna að flokkunarstöðvum með því að staðsetja gáma þar sem fólk á helst erindi dags daglega, t.d. við verslanir.

Ég er þeirrar skoðunar að hefja eigi undirbúning að uppsetningu brennslustöðvar fyrir sorp hið fyrsta og tryggja að hægt sé að nýta þá orku sem frá brennslunni kemur í formi rafmagns eða hita nema hvort tveggja sé. Við brunann verður til koltvísýringur en ekki metan sem myndast við niðurbrot í venjulegum sorphaugum, sem hefur 3-4 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif en koltvísýringur, sem þó er reynt að stemma stigu við með metnaðarfullu söfnunarkerfi í dag. En það sem skiptir þó ekki síður máli er að við bruna minnkar rúmmál sorpsins um 90%, þannig að landnotkun undir sorphauga snarminnkar, en áætlað er að núverandi land í Álfsnesi verði fullnýtt árið 2014, eða eftir 8 ár. Land er að verða sífellt verðmætari auðlind og hefur hingað til verið vanmetið. Ef sorp væri brennt myndi tífaldast nýting þess lands sem fer undir urðunina og óáran eins og rottur og vargur heyrir sögunni til, svo auðveldara ætti að vera að finna nýja urðunarstaði í sátt við nágranna. Með staðsetningu brennslustöðvar nær borginni minnka einnig flutningarnir, sem er ótvíræður kostur.

Öll eggin í sömu körfu
Annað stórmál sem lítt hefur verið hugað að er framtíðarvatnstaka borgarinnar. Í dag er allt vatn borgarinnar tekið undan Heiðmörk. Er það svæði frábært og vatnið til mikillar fyrirmyndar. En hættulegt er að hafa öll eggin í sömu körfunni og þar sem svæðið er virkt, bæði gagnvart jarðskjálftum og eldsumbrotum, og mengunaróhöpp geta jú alltaf gerst, vofir sú hætta ávallt yfir að svæðið spillist til lengri eða skemmri tíma. Þarf Reykjavíkurborg því að tryggja það að hugsanleg vatnstökusvæði í nágrenni borgarinnar verði vernduð og hugað að nýtingu þeirra. Á ég þá við svæði í Henglinum en þó sérstaklega vatnasvæðið norðan Þingvallavatns. Þar streymir gnægð tandurhreins vatns sem hægt er að nýta án þess að það hafi nein teljanleg áhrif á umhverfið. Ætti borgin því að fara hið fyrsta í samningaviðræður við Bláskógabyggð um þetta vatn og þrýsta á Alþingi að tryggja verndun svæðisins með friðlýsingu.

22 janúar 2006

Matvælaverð - hlutverk borgarinnar

Mikil umræða er um verðlag á Íslandi og er almennt viðhorf að það sé of hátt. Neytendamál heyra ekki undir sveitarstjórnarmál nema að takmörkuðu leyti, en rétt er þó að spyrja, hvort borgin geti eitthvað gert í þessu máli.

Í skýrslu samkeppnisstofnana Norðurlandanna voru mörg atriði nefnd til sögunnar. Eitt þeirra snýr beint að sveitarfélögunum, en það er að ávallt skuli vera til staðar nægt húsnæði eða lóðir undir verslanir fyrir samkeppnisaðlia, þannig að ef einn aðili á viðkomandi markaðssvæði misnotar markaðsráðandi stöðu, hafi annar aðili möguleika á því að komast inn á svæðið. Bara það að sá möguleiki sé fyrir hendi verður til þess að sá sem fyrir er gætir að sér.

Með því að tryggja þetta hefur borgin amk gert það sem hún getur í þessu máli.

21 janúar 2006

Samvinna í skólakerfinu

Í dag hefst skylduskólanám við 6 ára aldur og því lýkur 10 árum síðar. Fyrir þann tíma eru börn annaðhvort í leikskóla, hjá heimavinnandi foreldri eða í pössun. Engin regla er á því og þau börn sem kannski hafa helst þörf á því að fara á leikskóla til að kynnast samfélaginu og öðlast félagsþroska til að takast á við grunnskólann eru ekki send í hann. Er það enn ein röksemdin fyrir því að hafa síðasta árið í leikskólanum gjaldfrjálst.

Hér áður fyrr hófst skólaganga seinna og var styttri, en víða í Evrópu hefst skólaganga um fjögurra ára aldur. Þetta er því spurning um skilgreiningar og er 6 ára aldurinn því ekki endilega lögmál. Dóttir mín sem er 5 ára og margir jafnaldrar hennar eru tilbúnir til að takast á við skólanám, amk að einhverjum hluta, og iða í skinninu að byrja. Önnur eru það alls ekki og hafa ekki áhuga.

Mér finnst upplagt að halda áfram á þeirri braut að nýta þennan áhuga hjá þeim sem hann hafa og "hleypa" grunnskólunum inn í leikskólana, þannig að börnin fái að læra eins og þroski þeirra segir til um, en dagsetningin á fæðingarvottorðinu stjórni ekki öllu.

Sama á við um skiptin milli grunnskóla og framhaldsskóla. Margir unglingar komast yfir mun meira námsefni en námsskráin segir til um í dag og er eðlilegt að þeim sé gefinn kostur á að fara hraðar yfir námsefnið, t.d. með áfangaskiptingu á síðustu 3 árum grunnskólans. Áfangaskiptingin þarf ekki að vera einhlít, þannig að nemandi sem er góður í dönsku og getur farið í hraðferð í þeirri grein, þarf kannski á hægferð að halda í stærðfræði sem dæmi.

Í 10. bekk gæti þessi nemandi tekið fyrstu framhaldsskólaáfanga í dönsku og flýtt þannig fyrir sér án þess að riðla sínum tengslum við skólafélagana.

Þeir nemendur sem hafa sérþarfir, t.d. vegna fötlunar, þurfa á sértækum úrræðum að halda. Hægt er að fara þrjár leiðir, að láta þá stunda nám í sérskólum, skólum sem hafa sérhæft sig í einhverri fötlun, eins og t.d. blindu, heyrnarleysi, athyglisbrest, geðrænum villum o.s.frv eða að blanda þeim inn í bekkina, þá með sérkennara eða stuðningsfulltrúa. Hefur stefna borgarinnar verið að auka hið síðastnefnda og fjöldi stuðningsfulltrúa hefur verið ráðinn, reyndar með misjöfnum árangri.

Þetta starfsfólk á að sinna þessum nemendum með sérþarfir og er hugsunin góð, en raunveruleikinn er því miður sá að peningarnir sem eru til skiptana eru skornir við nögl. Því verður sú þjónusta sem þessir nemendur þurfa og eiga rétt á stopul og þar með ómarkviss. Einnig gengur ekki vel að ráða hæfa stuðningsfulltrúa. Því er hver skóli að rembast við að gera eins vel og hann getur en það er í fæstum tilfellum fullnægjandi. Verður því að íhuga hvaða stefnu sé best að taka í þessum málum, hvort halda eigi blint áfram á braut skóla án aðgreiningar, hvort senda eigi börn í sérskóla eða hvort hver skóli eigi að sérhæfa sig í ákveðnum úrlausnum, þannig að allir nemendur séu í "venjulegum" skóla og fái notið samvista við þau börn og gagnkvæmt, en sé jafnframt veitt nauðsynleg sérhæfð úrræði með öðrum nemendum með sömu þarfir, þannig að hagkvæmni heildarinnar sé einnig höfð að leiðarljósi.

20 janúar 2006

Æfingaaðstaða tónlistarmanna

Ég ætlaði einu sinni að slá í gegn sem söngvari í hljómsveit. Enginn man eftir því, enda gekk það ekki, hvorki á Selfossi né í Álaborg í Danmörku þar sem ég bjó um tíma meðan ég var í háskóla. Það sem var helsta vandamál við þetta brambolt á Selfossi var aðstöðuleysi. Hljómsveitin fékk reyndar inni í félagsheimili fyrir utan bæinn fyrir kunningsskap, en aðrir sem höfðu áhuga voru ekki svo heppnir. Þegar ég flutti til Álaborgar komst ég fljótlega í grúppu en þar var ramminn í kringum æfingaaðstöðuna allt annar.
Sveitarfélagið lagði til hentugt æfingahúsnæði, gamlan skóla sem var innréttaður þannig að 2-3 hljómsveitir deildu með sér herbergi og við gátum æft án vandræða vegna nágranna enda húsið vel hljóðeinangrað. Var þetta alveg frábært, mikil og góð stemming, ákveðnar umgengnisreglur, samvinna milli hljómsveita og mikil gróska. Hafði ég mikinn hug á því að koma þessari hugmynd á framfæri þegar ég kom heim, en aðrir hlutir tóku tíma minn svo ekkert varð af því.

Það var mér því mikið ánægjuefni að sjá að áhugasamir einstaklingar eru búnir að koma slíkri aðstöðu á fót hér í borg, kaupa húsnæði og innrétta á glæsilegan hátt. Hljómsveitir geta leigt sér aðstöðu hjá þeim, iðkað list sína án þess að ergja nágranna og verið í sátt við menn og mýs, en um leið að undirgangast strangar umgengnisreglur, ekkert áfengi og engin bílskúrspartý.

Þótt þetta sé stórkostlegt fyrir hljómsveitirnar sem hafa tryggt húsnæði til að iðka sína tónlist og verða þar með til þess gróskan í tónlistinni aukist enn meira, er gildi þessarar starfsemi ekki síður og enn frekar mikils virði sem forvarnir. Í stað þess að hljómsveitir æfi eftirlitslaust í einhverjum bílskúrum hér og þar um bæinn, þar sem hægt er að djamma í friði, fer þessi starfsemi fram undir mun betri formerkjum í þessari aðstöðu.

Sú staðreynd ein og sér réttlætir að borgin á að tryggja starfsemi eins og þessi fái að vaxa og dafna. Verður borgin að sjá sóma sinn í því að láta það gerast og koma með öflugri hætti að málum gagnvart þeim, eins reyndar allri annarri mannbætandi tómstundastarfsemi, með þjónustusamningi þar sem niðurgreiðsla þátttökugjalda með unglingum er skilgreind auk annarrar sanngjarnrar fyrirgreiðslu. Það má ekki gerast að þessi rekstur stöðvist vegna fjármagnsskorts.

Það eru markvissar forvarnir sem gefa auk þess af sér frábæra aukaafurð, tónlist.

19 janúar 2006

Segjum nei við bílslysum

Í gær bárust fregnir að vestan um hörmulegt bílslys á Hnífsdalsvegi. Þar var ung stúlka hrifin á braut í enn einu banaslysinu í umferðinni.

Þessi mynd á ekkert skylt við það atvik.

Ég á erfitt með að skilja hvernig vegafé er varið. Hef nú skrifað nokkrar greinar um það og set tengla inn á þær hérna undir greininni, en ég skil samt ekki af hverju þeir sem stjórna þessum málaflokki skuli hafa samvisku í sér að fara í nýframkvæmdir bara af því að þær eru í réttu héraði meðan svörtum blettum í vegakerfinu hefur enn ekki verið útrýmt.

Líklegast er þetta afleiðing af því að þá skortir pólitískt þor til að skilgreina hvaða áhætta er ásættanleg í samfélaginu og verðleggja slys og mannslíf rétt. Það var gert þegar Ofanflóðasjóður var settur á stofn til að byggja upp snjóflóðavarnir landsins og ég er stjórnarmaður í, og hefur verið góð sátt um þá framkvæmd. Er ég sannfærður um að það sé einmitt vegna þess að yfirvöld þorðu að setja sér skýrar leikreglur. Sama á að gera víðar í samfélaginu, þar á meðal í umferðinni. Að missa 20-30 mannslíf á ári í umferðinni er ekki ásættanlegt, svo mikið er víst.

Þegar búið er að útrýma þekktum svörtum blettum á að láta hagkvæmiútreikninga ráða meiru þegar verkefnum er forgangsraðað. Þær tölur eiga að koma inn í hagkvæmiútreikninga sem eiga að fylgja vegaáætlun og birtast í henni, þannig að þegar vegaáætlun er samþykkt, liggur fyrir arðsemi viðkomandi framkvæmdar, áhættuminnkun vegna hennar og svo önnur sjónarmið, eins og byggðasjónarmið.

Fyrr er ekki hægt að segja að alþingismenn geti tekið upplýsta ákvörðun þegar vegafé er úthlutað.

Grein um forgangsröðun í samgöngumálum
Grein um Sundabraut
Grein um takmörkun hraða

18 janúar 2006

Markvissar forvarnir

Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið tækifæri til að sitja nokkra fundi Áfengis- og vímuvarnaráðs, en ég er varamaður þar. Á fundum þess hef ég fengið enn frekari staðfestingu á þeirri trú minni að besta leiðin til að unglingurinn þroskist til heilbrigðs einstaklings, sem segir nei við eyðileggingu vímuefna, löglegra sem ólöglegra, rati ekki í glæpi og aðra óáran, er að efla sjálfsmynd og sjálfstraust hvers og eins.

Það er auðvitað ekki til ein formúla sem tryggir að allir sleppi við þessa vágesti, en víst er að iðjuleysi og rótleysi eru meðal bestu vina þeirra. Markvisst tómstundastarf með börnum og unglingum hefur margsannað gildi sitt sem eitt af mikilvægustu þáttum í uppbyggingu sjálfsmyndar og sjálfstrausts.

Ekki er allir jafn góðir í öllu eða hafa sama áhuga á öllu og verður því að tryggja fjölbreytni í því úrvali sem í boði er, gildir einu hvort um er að ræða íþróttir, tónlistariðkun, skátastarf, leiklist, hestamennsku, björgunarsveitastarf og útivist, dans, kirkjustarf, söng eða hvað eina annað sem ég er að gleyma hér, allt eru þetta þroskandi tómstundir sem hver og einn býr að um alla ævi.

Sveitarfélögin eiga að leyfa öllum þessum tegundum tómstunda að fá að njóta jafnræðis, því þær eiga í innbyrðis samkeppni um fólk og fjármagn, gildir einu hvort um sprikl sé að ræða, listsköpun eða annað, ramminn þarf að vera skýr og aðgengilegur.

Íþróttir eru afar mikilvægur þáttur sem sífellt er sinnt og á að sinna, ekki bara vegna forvarnargildis þeirra, heldur einnig vegna gildis þeirra fyrir almennt heilbrigði. Sem betur fer hefur orðið almenn vitundarvakning um gildi hreyfingar og á að halda áfram á þeirri braut að tryggja öllum aðgengi að heilbrigðri hreyfingu og trimmi við sitt hæfi. Reykjavíkurborg hefur lyft Grettistaki í byggingu íþróttamannvirkja og er ekki líku saman að jafna miðað við það sem áður var. Helst er að skórinn kreppi þegar kemur að þeim sem ekki hefur hug á að stunda íþróttir með keppni í huga og ætti að skoða hvaða leiðir eru færar til úrbóta í þeim efnum og veita almenningi greiðari aðgang að hinum ýmsu leikfimisölum borgarinnar. Hugsanlega hangir hluti lausnar á því máli saman við þann ásetning sem birtist í höfuðborgarstefnu flokksins að ljúka tómstundastarfi skólabarna fyrr á daginn. Þá eru salirnir lausir fyrr á daginn og þar með komast fleiri að til að stunda þá hreyfingu sem hugurinn girnist og kynna betur hvernig almenningur getur pantað slíka sali.

Um alla list á tómstundastigi, hvort sem það er tónlist, leiklist, dans eða allra handa myndlist, þarf að setja ramma sem er sanngjarn og gagnsær. Borgin á að gera þjónustusamninga við þau félög og einkaaðila sem standa fyrir slíkri starfsemi, tilsvarandi og gert er við íþróttafélögin, eða standa sjálf í þeim rekstri þegar það á við. Skólana á að opna fyrir þessari starfsemi eins og kostur er og nýta þar með betur þessi frábæru mannvirki sem skólarnir eru fyrir íbúana í viðkomandi hverfi. Ekki ósvipað og félagsheimilin úti á landi. Þar sem það er ekki mögulegt eða æskilegt að nýta skólana þarf að styrkja viðkomandi starfsemi sérstaklega umfram það sem annars væri, t.d. með niðurfellingu fasteignagjalda. Öll starfsemi sem kæmi undir þennan hatt þarf að sjálfsögðu að uppfylla stefnumótun og kröfur borgarinnar til að framlögin og stuðningurinn skili tilætluðum árangri. Það eru raunverulegar forvarnir, en slökkvistarfið má ekki gleymast, en meðferðarúrræðum hefur fjölgað mikið undanfarið og er það vel, en betur má ef duga skal

17 janúar 2006

Glæsileg niðurstaða í virkjanamálum

Í dag er gleðidagur. Borgarráð ákvað á fundi sínum að beita áhrifum sínum sem 45% eigandi að Landsvirkjun til að setja Norðlingaöldu á ís. Skeiða og Gnúpverjar náðu einnig fram frábærri niðurstöðu í kvöld, en á fundi forstjóra Landsvirkjunar með hreppsnefndum þeirra sveitarfélaga sem eiga land að Þjórsá í kvöld var ákveðið að skjóta á frest frekari áformum um Norðlingaölduveitu og huga þess í stað að virkjunum neðarlega í Þjórsá. Niðurstaða sveitarfélagsins og framkvæmdaraðila er í raun og veru hin endanlega niðurstaða í málinu í bili, enda hefur sveitarfélagið framkvæmdaleyfisvaldið.

Nú er boltinn hjá Alþingi að fella heimildina úr gildi, stækka friðlandið og gefa þessu undri frið um aldur og ævi. Samtök útivistarfólks og viðkomandi yfirvöld eiga í framhaldinu að hefja undirbúning að uppbyggingu á útivistaraðstöðu á þessu svæði og sunnan Hofsjökuls, með vegum, stígagerð og gistimöguleikum þannig að hægt sé að umgangast þetta land án þess að valda náttúruspjöllum.

Landsvirkjun á tvo virkjunarkosti tilbúna, Núpsvirkjun og Urriðafossvirkjun, báða í byggð og er þetta sama sveitarfélag aðili að þeim báðum og fylgjandi þeirri framkvæmd sem og meginþorri íbúa þess, þannig að niðurstaðan hefur ekki teljandi áhrif á möguleika Landsvirkjunnar til að skaffa orku í nánustu framtíð, sem er lögbundið hlutverk hennar.

Afi minn bjó á Kálfhóli á Skeiðum, sem mun fara að hluta til undir vatn vegna Urriðafossvirkjunnar og ætti því að vera á móti þeirri framkvæmd að maður hefði haldið. Hann er það aldeilis ekki og sagðist myndi sjá mikið meira eftir Þjórsárverunum en þessari flís af úthögunum. Það sé hægt að bæta þá. Hann var fjallkóngur í eftirsafni á afrétti Skeiðamanna í mörg ár og ber því sterkar taugar til Þjórsárveranna. Svo því sé til haga haldið á hann eða fjölskyldan ekki það land sem hann yrkti í dag og veit ég ekki um afstöðu núverandi eigenda þess.

Nú er lag að fara með ró og yfirvegun í virkjunarmálum, leyfa Rammaáætlun um nýtingu jarðvarma og vatnsafls virka sem því góða tæki sem hún er, hafa hana í sífelldri endurskoðun og láta hana stýra umræðunni ásamt umhverfismatsferlinu. Þannig fæst best niðurstaða.

En frábær dagur í dag. Til hamingju Íslendingar.

16 janúar 2006

Opin prófkjör - beint lýðræði

Þar sem ég ólst upp var kosið til sveitarstjórnar með óhlutbundinni kosningu, þar til í síðustu kosningum. Í stað þess að velja á milli framboðslista átti hver kjósandi að velja þá einstaklinga sem hann treysti best til að fara með sveitarstjórnarmálin á komandi kjörtímabili, jafn marga og sæti var fyrir í sveitarstjórn. Þeir einstaklingar sem flest atkvæði fengu töldust réttkjörnir í sveitarstjórn. Tel ég að með þessum hætti veljist öðruvísi fólk til þessara ábyrgðastarfa og störfin snúist síður upp í karp, karpsins vegna.

Í íslenskri kosningalöggjöf er þetta þó víkjandi form kosninga, þannig að ef fram kemur listi með frambjóðendum sem uppfyllir skilyrði er hann sjálfkjörinn, en ef fleiri listar koma fram veljast menn til sveitastjórnar í hlutfalli við fjölda atkvæða greiddum viðkomandi lista í þeirri röð sem viðkomandi flokkur raðar þeim á listann, svona einfaldað sagt.

Með tilkomu misopinna prófkjara sem virðist vera að verða ríkjandi aðferð við val á framboðslista, má segja að þróunin sé að fara meira í átt til óhlutbundinna kosninga, þar sem almenningur hefur bein áhrif á það hvaða einstaklingar veljast til trúnaðarstarfa fyrir sína hönd, en ekki bara hvaða flokkur er við völd.

Í framhaldi af því má alveg velta því fyrir sér hvort ekki sé réttara að ganga alla leið og gefa íbúum sveitarfélaganna kost á að gera óhlutbundnar kosningar að ríkjandi kosningaformi í sínu sveitarfélagi. Væri til dæmis hægt að leyfa kjósendum að ákvarða kosningaformið með almennum kosningum og gilti það form þar til ákveðið hlutfall íbúa óskuðu eftir nýjum kosningum um formið.

Óhlutbundnar kosningar hafa ýmsa kosti. Þannig skiptir uppröðun þeirra sem lýsa yfir áhuga sínum á setu í sveitarstjórn á lista viðkomandi flokks ekki máli, heldur þyrfti hver og einn frambjóðandi að sýna fram á ágæti sitt fyrir kjósendum. Ekki ósvipað og gert er í prófkjörunum. Kjósendur væru heldur ekki múlbundnir til að styðja einungis fulltrúa eins flokks, heldur gætu þeir valið þá einstaklinga sem þeir treystu best. Ég hef grun um að fólk sé almennt ekki síður að kjósa einstaklinga í dag en flokkspólitíska stefnu, enda viðfangsefni sveitarstjórnanna oft frekar tæknileg afgreiðslumál án þess að djúpar pólitískar hugsjónir fái miklu ráðið, þótt á því séu að sjálfsögðu undantekningar.

Hugsanlega gæti verið erfiðara að mynda starfhæfan meirihluta, en á móti kemur að sveitarstjórnarmenn væru heldur ekki eins bundnir af því að vera á móti bara til að vera á móti og með málum bara til að vera í liði, heldur fengju frekar að fylgja sinni sannfæringu.

Ég hef ekki endanlegt svar við því hvort þetta sé besta leiðin til vals fulltrúa í sveitarstjórn, en gaman væri að fram færi frjó og opin umræða um þetta mál. En eitt er víst, með þátttöku í opnu prófkjöri eins og því sem fram fer þann 28. janúar nk, er hver og einn kjósandi að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í anda beins lýðræðis um það hvernig framboð Framsóknarflokksins í Reykjavík ætti að vera í vor, hvaða áherslur eigi að hafa mest vægi og hvaða einstaklingar eiga að vera fulltrúar og andlit flokksins í borginni á næsta kjörtímabili. Það hlýtur að vera skylda hvers manns sem á einhvern hátt getur aðhyllst grundvallarstefnu flokksins að gefa sína skoðun til kynna með því að kjósa þann 28. janúar í Laugardalshöllinni og gera þar með það besta úr því kosningafyrirkomulagi sem við höfum í dag.

14 janúar 2006

Hvaða Gestur?

Í Fréttablaðinu var á laugardaginn fjallað um grein sem ég skrifaði hér á heimasíðuna um verndun Þjórsárveranna og er hér neðar á skjánum. Gott mál hjá blaðinu að vekja athygli á góðum málstað, en því miður virðist það gerast sem maður óttaðist, að okkur nöfnunum sem erum að bjóða okkur fram í prófkjörinu er ruglað saman. Greinaskrifin eru nefnilega eignuð Gesti Kr Gestssyni og myndin sem birtist með greininni er einnig af honum. Spurning hvort þeim hafi þótt ég svona óásjálegur?

Fréttablaðið er búið að leiðrétta mistökin núna og er það vel.

10 janúar 2006

Verndum Þjórsárverin


Ljósmynd RAX
Reykjavíkurborg á 45% hlut í Landsvirkjun. Borgin á að beita sínum áhrifum innan stjórnar hennar til að vernda þá perlu íslenskrar náttúru sem Þjórsárverin eru.

Þjórsárverin hafa mikla alþjóðlega þýðingu, bæði hvað gróðurfar varðar sem og vegna dýralífs. Öll röskun á þessu svæði hefur mikil áhrif á þetta viðkvæma vistkerfi og má ekki gera neitt sem rýrir það eða gæti rýrt það. Gildir einu um hvort svæði sé innan einhverrar línu á korti eður ei.

Stóru fjallasvæðin sem hafa verið mest nýtt fram að þessu, Þórsmörk og Landmannalaugasvæðið eru orðin afar ásetin og mega varla við meiri ágangi frá okkur útivistarfólkinu. Er því eðlilegt að horft verði til Kerlingarfjalla og svæðisins sunnan Hofsjökuls þegar leitað er leiða til að draga úr því álagi og taka við þeirri aukningu í ferðamennsku sem fyrirsjáanleg er. Þar gegna Þjórsárverin lykilhlutverki.

Er því ljóst að þetta svæði kemur til með að hafa sífellt meira gildi í náttúruvernd og útivist. Það fer ekki saman við virkjun svæðisins, því miður.

Fara verður löglegar leiðir í þessu máli og verður að taka hattinn ofan af fyrir heimamönnum, Skeiða- og Gnúpverjum í baráttu þeirra, enda þekkja þeir svæðið manna best. Er sjálfur þaðan og er stoltur af mínum mönnum.

Besta leiðin er að fyrirtækið sjálft, Landsvirkjun, sem hefur haft aðgang að helstu auðlindum þjóðarinnar án mikils endurgjalds og ómetanlegt aðgengi að landi undir línur og mannvirki í nafni almannahagsmuna, sýni að þeim er alvara með stefnumótun sinni í umhverfismálum og hætti við þessa framkvæmd, enda nægir virkjanakostir fyrirliggjandi í neðrihluta Þjórsár og á háhitasvæðum landsins. Ef fara þarf í millifærslu peninga innan opinbera kerfisins vegna þessa, í formi skaðabóta, verður bara að hafa það. Við eigum hvort eð er Landsvirkjun sem tæki við peningunum svo það er enginn skaði skeður hvað það varðar, þeir myndu verða til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Reykjavíkurborg á að beita sínum áhrifum í stjórn Landsvirkjunnar, beina fyrirtækinu á rétta braut og sýna náttúruvernd í verki og að sjálfsögðu á Alþingi að breyta raforkulögum, taka Norðlingaölduveitu út úr þeim og vernda Þjórsárverin.

09 janúar 2006

Kynningarfundur

Félag framsóknarkvenna heldur fund með þátttakendum í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar að vori. Fundurinn verður haldinn í húsi Framsóknarflokksins, Hverfisgötu 33, þriðjudaginn 17. janúar nk., kl. 20.00.

Frambjóðendur kynna sig og helstu stefnumál sín í borgarmálum á þrem til fjórum mínútum, en sitja síðan fyrir svörum við spurningum úr sal.

08 janúar 2006

Orkuveitubyltingin

Stjórnarandstaða íhaldsins í borginni síðustu ár hefur meira og minna verið einskorðuð við einn hlut, Orkuveitu Reykjavíkur. Málflutningur þess hefur verið með ólíkindum og ber hann vitni um annaðhvort ótrúlegan skort á framsýni, lítinn skilning á fjárfestingum og rekstri eða einfaldlega öfund. Mér er næst að halla mér að seinustu skýringunni og tel víst að það vildi sjálft Lilju kveðið hafa.

Sú aðgerð að sameina hitaveitu, rafmagnsveitu, vatnsveitu og nú fráveitu borgarinnar í eitt fyrirtæki um leið og nýrri veitu, gagnaveitunni, hefur verið komið á fót, er stórkostlegt framfaraspor. Sameiningin er framkvæmd af þvílíkri framsýni að í dag skilur maður ekki af hverju þetta var ekki löngu búið og gert.

Stjórnendur Orkuveitunnar, undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar oddvita framsóknarmanna í borginni, báru gæfu til að ganga rösklega fram í sameiningunni, gera nauðsynlegar skipulagsbreytingar fljótt og sameina starfsemina undir eitt þak eins fljótt og auðið var í glæsihýsi sem við getum verið stolt af.

Hálfkák eða seinagangur við sameiningu gamalgróinna fyrirtækja kostar mikla fjármuni vegna óhagræðis í rekstri meðan á breytingunum stendur og veldur óöryggi meðal starfsmanna. Starfsmenn hvers fyrirtækis og þekking þeirra eru aðaleign þess og því afar mikils virði að vel takist til við að halda starfsfólki ánægðu og öruggu í sínu starfi, enda lagnirnar, dælurnar og tankarnir lítils virði ef enginn kann að stýra þeim.

Eitt er víst. Orkuveitu Reykjavíkur á alls ekki að selja einkaaðilum, eins og áreiðanlega verður fái íhaldið öllu ráðið í borginni.

Engin rök mæla með því að einkavæða fyrirtæki sem eru að stórum hluta í einokunaraðstöðu eins og ávallt verður með rekstur vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu. Þar sem raforkukerfi hafa verið einkavædd, eins og t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi, hefur afhendingaröryggi verið gersamlega óásættanlegt og er skemmst að minnast langvarandi rafmagnsleysis í Kaliforníu fyrir nokkrum misserum, sem stafaði af því að fyrirtækjum var skipt upp, hlutar starfseminnar seldir út úr fyrirtækjunum eða þeim skipt upp með þeim afleiðingum að samhæfing hrundi og ábyrgðarskipting varð óljós.

Orkuveitan á áfram að vera sterkur bakhjarl í atvinnuuppbyggingu í borginni, sem ber ríka samfélagslega ábyrgð. Öflugt fyrirtæki sem veitir góða þjónustu á bestu kjörum og afhendingaröryggi sem stenst ýtrustu kröfur. Jafnframt á hún að skila góðum arði til borgarbúa af skynsamlegum fjárfestingum, sem farið er í með hagkvæmum lántökum þar sem styrkur sameinaðs fyrirtækisins er nýttur. Nýjasti vitnisburðurinn um hagkvæmnina í rekstri fyrirtækisins er sá að án þess að lækka gjaldskrá sína stenst Orkuveitan öðrum veitum landsins snúning á raforkumarkaði, eftir að hann er nú orðin frjáls.

Geta framsóknarmenn því verið stoltir af Orkuveitu Reykjavíkur og okkar þætti í uppbyggingu hennar, sem sagan mun dæma með mun meiri sanngirni en dægurþrasandi íhaldsmenn virðast geta gert.

Birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2006

04 janúar 2006

DV

Á fundi stjórnar SUF á þriðjudagskvöldið tók ég þátt í að samþykkja sameiginlegt átak margra aðila, þám ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, um mótmæli gegn skrifum DV, sem höfðu svona hrikalegar afleiðingar. Þetta er örugglega ekki í eina skiptið sem DV er meðvirkt í voðaatburðum með umfjöllun sinni um þá sem minna mega sín. Vonandi axla eigendur blaðisins ábyrgð, því ekki virðast ritstjórar blaðsins ætla að gera það.

Hvet alla til að taka þátt í mótmælunum sem eru á slóðinni www.deiglan.com/askorun og sýna þannig hug sinn í verki. Sömuleiðis þurfa auglýsendur og kaupendur blaðsins að hugsa sinn gang.

Var í sjónvarpsviðtali á NFS í dag um málið ásamt fulltrúum VG og UJ. Borgar Þór Einarsson formaður SUS á hrós skilið fyrir frumkvæði sitt.

Í gærkvöldi var hringt í mig og mér boðin frí mánaðaráskrift að blaðinu. Ég átti bara ekki til orð. Vonandi voru þetta eigendur blaðsins að kanna hversu mikil óánægja fólks er, en ekki raunveruleg sölumennska.

Nú er prófkjörsbaráttan öll að komast í gang. Auglýsingar frambjóðenda farnar að birtast um alla borg og í öllum blöðum. Þetta er afar ánægjulegt að sjá og vonandi verður þetta til að vekja áhuga sem flestra á prófkjörinu.

Var ánægður að sjá þau ummæli sem formaður Reykjavíkurráðs Framsóknarflokksins, Guðjón Ólafur Jónsson, hefur um framboð mitt í vikulegu mánudagsmeðali sínu á www.hrifla.is. Við Guðjón Ólafur höfum ásamt öðrum unnið saman í málefnastarfi félaganna í Reykjavík undanfarin misseri og hefur það verið ánægjulegt samstarf sem á eftir að skila flokknum miklu.

03 janúar 2006

Ljósmyndir

Góður vinur minn Boris Verseghy var svo indæll að leyfa mér að nota nokkrar af þeim frábæru myndum sem hann tekur.


Þetta er ekki nema brot af safni hans og er hægt að sjá þær meðal annars á síðunni www.thagnarbarn.fotopic.net. Hann hefur næmt auga fyrir Íslandi og íslensku mannlífi og sannar að glöggt er gests augað.

02 janúar 2006

Gleðilegt nýtt ár

Takk kærlega fyrir þau gömlu. Vonandi ber hið nýja ár gæfu í skauti sér fyrir okkur öll

01 janúar 2006

Af jafnréttisstýrum og jafnréttisráðherrum

Nú er genginn dómur í máli Valgerðar H Bjarnadóttur gegn Árna Magnússyni félagsmálaráðherra. Hefur dómurinn eðlilega vakið mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem stofnun fer í mál við sinn eigin framkvæmdastjóra vegna meintra brota á lögum sem stofnunin á að hafa eftirlit með, vinnur það mál í kærunefnd og héraðsdómi, en Hæstiréttur snýr því. Ekki er síður áhugavert að framkvæmdastjórinn fari í skaðabótamál vegna starfsloka sinna í framhaldinu, tapi því í héraðsdómi, en Hæstiréttur snýr þeim dómi einnig á grundvelli nýrrar túlkunar á lögum. Þetta er atburðarás hægt væri að selja til handritshöfunda Law and Order.

Uppi hafa verið háværar raddir um afsögn ráðherra, en rétt er að skoða stöðu hans nánar og hafa í huga að sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Þegar framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu óskar eftir fundi ráðherra eftir úrskurð úrskurðarnefndar jafnréttismála um að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hafi brotið jafnréttislög við störf sín sem stjórnarformaður Leikfélags Akureyrar, segir Páll Pétursson þv. félagsmálaráðherra að málið sé ekki til skoðunar í ráðuneytinu, sagt á mannamáli, ráðherrann ætlar að horfa í gegnum fingur sér meðan málið gengur sinn gang inn í dómskerfið. Hafa ber í huga að úrskurðarnefndin starfar undir Félagsmálaráðuneyti og er úrskurður hennar stjórnsýsluúrskurður, ekki dómsúrskurður.

Við staðfestingu héraðsdóms á úrskurði úrskurðarnefndarinnar, óskar framkvæmdastjórinn aftur eftir fundi ráðherra til að ræða stöðu sína. Fram hefur komið að hún hafi óskað eftir stuðningi hans.

En hver er staða ráðherra þegar dómstóll hefur kveðið upp úrskurð?

Á ráðherra í ríkisstjórn að véfengja héraðsdóm? Á einn af handhöfum framkvæmdavalds að kveða upp þann úrskurð um að dómsvaldið hafi ekki rétt fyrir sér í dómsmáli? Það getur ekki samræmst hugmyndum um þrískiptingu valds. Rétt er að dómar héraðsdóms hafa almennt ekki réttaráhrif fyrr en ljóst er að ekki verði áfrýjað, en af öllum á ráðherra ekki að kveða upp úr um hvort dómstóll hafi rétt fyrir sér eður ei. Verður hann því að ganga út frá dómi héraðsdóms í málinu þegar hann er beðinn um að taka afstöðu.

Ráðherra hafði því ekki um góða kosti að velja þegar framkvæmdastjórinn kemur að eigin ósk á fund ráðherra og biður um stuðning. Stuðning sem honum er ófært að veita, ekki bara stöðu sinnar vegna sem hluta framkvæmdavaldsins, heldur einnig pólitískt.

Það er alveg ljóst að stuðningsyfirlýsing við framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu sem búið að úrskurða og dómstóll aftur búinn að staðfesta að hafi brotið jafnréttislög, væri ekkert annað en skilaboð um að jafnréttismálin væru skör lægra en önnur mál, eða eins og þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar Karl Birgisson komst að orði í grein í Fréttablaðinu 16. júlí 2003, nokkrum dögum eftir dóm héraðsdóms en fyrir fund Árna og Valgerðar:

“Hvað segir okkar ungi félagsmálaráðherra? Þykir honum eðlilegt að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hljóti dóm fyrir brot á jafnréttislögum án þess að það hafi áhrif á embættið? Telur hann að athugasemdir Jafnréttisstofu vegna meintra brota á jafnréttislögum muni hafa sama vægi eftir og áður en framkvæmdastjórinn hlaut dóminn? Eða getur verið að félagsmálaráðherranum og framkvæmdastjóranum þyki jafnréttislögin og brot á þeim ómerkilegri en brot á öðrum lögum í landinu?”
.
Hollt er að íhuga hvað hefði gerst ef ráðherra hefði gefið út yfirlýsingu um stuðning og Hæstiréttur hefði síðan staðfest dóm héraðsdóms. Þá er alveg ljóst að ábyrgð ráðherra væri mikil ef ekki alger, að veita framkvæmdastjóranum umboð til að starfa áfram, véfengja með því dómstóla landsins og hafa dóma þeirra að engu meðan stætt væri.

Af þessu er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að ráðherra hafi tekið rétta ákvörðun miðað við þær forsendur sem voru í málinu þegar hann var krafinn afstöðu.

Hvað starfslokin áhrærir er ljóst að hún hafði ekki brotið af sér í starfi fyrir ríkið og er greinilegt af gögnum málsins að ráðherra taldi því ekki fært að hún viki tímabundið á grundvelli laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, heldur hafi bein uppsögn eða samkomulag um að hún segði upp verið einu möguleikarnir í stöðunni. Ríkislögmaður var sammála því mati þegar eftir áliti hans var leitað. Að fundi þeirra loknum lýstu bæði því yfir í fjölmiðlum að þau væru sátt við niðurstöðuna miðað við aðstæður, þótt annað hafi svo komið á daginn. Hæstiréttur hefur nú dæmt að þetta mat ráðherra og ríkislögmanns hafi ekki verið rétt og því eigi Valgerður rétt á skaðabótum.

Er því komin ný túlkun á þessum lögum sem ekki var fyrirséð. Hægt verður að taka mið af þessari túlkun í framtíðinni, sem er gott, en engu að síður er ljóst að Árni Magnússon tók rétta ákvörðun miðað við þær forsendur sem hann hafði. Því er ekki nokkur leið að taka undir þær raddir sem kalla á afsögn hans, heldur verður að hrósa þeim báðum fyrir hug þeirra til jafnréttismála sem ávallt voru látin njóta forgangs.

Birtist í Morgunblaðinu 23.12.2005