Gestur Guðjónsson

15 janúar 2007

Fréttir bannaðar börnum

Ég var að borða kvöldmatinn í kvöld með fjölskyldu minni, þám 6 ára gamalli dóttur. Þegar í viðtækinu glymur "Ekki tókst betur til en að höfuðið slitnaði af al Tikriti, hálfbróður Saddams, við henginguna".

Ég hringdi í fréttastofu RUV og fékk samband við fréttamanninn sem vann fréttina, í umboði fréttastjórans Boga Ágústssonar. "Svona er heimurinn, við sýnum hann bara eins og hann er" var svarið. Sagðist fréttamaðurinn aðspurður eiga börn og fannst eðlilegt að börn heyrðu þetta. Þar er ég ekki sammála

Það eru framin mörg voðaverk á hverjum degi í heiminum, þótt þau séu ekki sýnd og þeim ekki lýst í fréttum. Vonandi er það vegna þess að fréttamönnum finnst það ekki við hæfi, sem ber vott um ákveðið siðferðismat. Mér finnst þessar lýsingar á hengingunni og reyndar einnig myndbirtingarnar af aftöku Saddams og nákvæmar lýsingar á kynferðislegu ofbeldi gagnvart heyrnarlausum eiga jafn lítið samleið með kvöldmatnum eins og nákvæmar lýsingum á nauðgunum, drápum og limlestingum á börnum.

Kjarninn í þessu er líka, hvað í veröldinni koma þessar lýsingar okkur við? Það er frétt að þeir hafi verið teknir af lífi. Ekki að hausinn hafi dottið af og ekki að þeir hafi skitið á sig og átt sáðlát eins og yfirleitt gerist víst við þennan voðaverknað. Það kemur okkur einfaldlega ekkert við og allra síst börnunum okkar, þannig að ef fréttamenn hafa þær annarlegu hvatir að vilja sýna almenningi þetta eiga þeir að gera það í tíufréttunum.

Þegar fréttatímar eru orðnir þannig að það er í rauninni barnaverndarmál að láta þau fylgjast með þeim er eitthvað mikið að...

1 Comments:

At 18 janúar, 2007 16:39, Anonymous Nafnlaus said...

hvernig nennirðu að hringja niðrá fréttastofu að kvarta kverúlantinn þinn!

 

Skrifa ummæli

<< Home