Í dag hefst skylduskólanám við 6 ára aldur og því lýkur 10 árum síðar. Fyrir þann tíma eru börn annaðhvort í leikskóla, hjá heimavinnandi foreldri eða í pössun. Engin regla er á því og þau börn sem kannski hafa helst þörf á því að fara á leikskóla til að kynnast samfélaginu og öðlast félagsþroska til að takast á við grunnskólann eru ekki send í hann. Er það enn ein röksemdin fyrir því að hafa síðasta árið í leikskólanum gjaldfrjálst.
Hér áður fyrr hófst skólaganga seinna og var styttri, en víða í Evrópu hefst skólaganga um fjögurra ára aldur. Þetta er því spurning um skilgreiningar og er 6 ára aldurinn því ekki endilega lögmál. Dóttir mín sem er 5 ára og margir jafnaldrar hennar eru tilbúnir til að takast á við skólanám, amk að einhverjum hluta, og iða í skinninu að byrja. Önnur eru það alls ekki og hafa ekki áhuga.
Mér finnst upplagt að halda áfram á þeirri braut að nýta þennan áhuga hjá þeim sem hann hafa og "hleypa" grunnskólunum inn í leikskólana, þannig að börnin fái að læra eins og þroski þeirra segir til um, en dagsetningin á fæðingarvottorðinu stjórni ekki öllu.
Sama á við um skiptin milli grunnskóla og framhaldsskóla. Margir unglingar komast yfir mun meira námsefni en námsskráin segir til um í dag og er eðlilegt að þeim sé gefinn kostur á að fara hraðar yfir námsefnið, t.d. með áfangaskiptingu á síðustu 3 árum grunnskólans. Áfangaskiptingin þarf ekki að vera einhlít, þannig að nemandi sem er góður í dönsku og getur farið í hraðferð í þeirri grein, þarf kannski á hægferð að halda í stærðfræði sem dæmi.
Í 10. bekk gæti þessi nemandi tekið fyrstu framhaldsskólaáfanga í dönsku og flýtt þannig fyrir sér án þess að riðla sínum tengslum við skólafélagana.
Þeir nemendur sem hafa sérþarfir, t.d. vegna fötlunar, þurfa á sértækum úrræðum að halda. Hægt er að fara þrjár leiðir, að láta þá stunda nám í sérskólum, skólum sem hafa sérhæft sig í einhverri fötlun, eins og t.d. blindu, heyrnarleysi, athyglisbrest, geðrænum villum o.s.frv eða að blanda þeim inn í bekkina, þá með sérkennara eða stuðningsfulltrúa. Hefur stefna borgarinnar verið að auka hið síðastnefnda og fjöldi stuðningsfulltrúa hefur verið ráðinn, reyndar með misjöfnum árangri.
Þetta starfsfólk á að sinna þessum nemendum með sérþarfir og er hugsunin góð, en raunveruleikinn er því miður sá að peningarnir sem eru til skiptana eru skornir við nögl. Því verður sú þjónusta sem þessir nemendur þurfa og eiga rétt á stopul og þar með ómarkviss. Einnig gengur ekki vel að ráða hæfa stuðningsfulltrúa. Því er hver skóli að rembast við að gera eins vel og hann getur en það er í fæstum tilfellum fullnægjandi. Verður því að íhuga hvaða stefnu sé best að taka í þessum málum, hvort halda eigi blint áfram á braut skóla án aðgreiningar, hvort senda eigi börn í sérskóla eða hvort hver skóli eigi að sérhæfa sig í ákveðnum úrlausnum, þannig að allir nemendur séu í "venjulegum" skóla og fái notið samvista við þau börn og gagnkvæmt, en sé jafnframt veitt nauðsynleg sérhæfð úrræði með öðrum nemendum með sömu þarfir, þannig að hagkvæmni heildarinnar sé einnig höfð að leiðarljósi.