
Nú er boltinn hjá Alþingi að fella heimildina úr gildi, stækka friðlandið og gefa þessu undri frið um aldur og ævi. Samtök útivistarfólks og viðkomandi yfirvöld eiga í framhaldinu að hefja undirbúning að uppbyggingu á útivistaraðstöðu á þessu svæði og sunnan Hofsjökuls, með vegum, stígagerð og gistimöguleikum þannig að hægt sé að umgangast þetta land án þess að valda náttúruspjöllum.
Landsvirkjun á tvo virkjunarkosti tilbúna, Núpsvirkjun og Urriðafossvirkjun, báða í byggð og er þetta sama sveitarfélag aðili að þeim báðum og fylgjandi þeirri framkvæmd sem og meginþorri íbúa þess, þannig að niðurstaðan hefur ekki teljandi áhrif á möguleika Landsvirkjunnar til að skaffa orku í nánustu framtíð, sem er lögbundið hlutverk hennar.
Afi minn bjó á Kálfhóli á Skeiðum, sem mun fara að hluta til undir vatn vegna Urriðafossvirkjunnar og ætti því að vera á móti þeirri framkvæmd að maður hefði haldið. Hann er það aldeilis ekki og sagðist myndi sjá mikið meira eftir Þjórsárverunum en þessari flís af úthögunum. Það sé hægt að bæta þá. Hann var fjallkóngur í eftirsafni á afrétti Skeiðamanna í mörg ár og ber því sterkar taugar til Þjórsárveranna. Svo því sé til haga haldið á hann eða fjölskyldan ekki það land sem hann yrkti í dag og veit ég ekki um afstöðu núverandi eigenda þess.
Nú er lag að fara með ró og yfirvegun í virkjunarmálum, leyfa Rammaáætlun um nýtingu jarðvarma og vatnsafls virka sem því góða tæki sem hún er, hafa hana í sífelldri endurskoðun og láta hana stýra umræðunni ásamt umhverfismatsferlinu. Þannig fæst best niðurstaða.
En frábær dagur í dag. Til hamingju Íslendingar.