Gestur Guðjónsson

01 janúar 2006

Af jafnréttisstýrum og jafnréttisráðherrum

Nú er genginn dómur í máli Valgerðar H Bjarnadóttur gegn Árna Magnússyni félagsmálaráðherra. Hefur dómurinn eðlilega vakið mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem stofnun fer í mál við sinn eigin framkvæmdastjóra vegna meintra brota á lögum sem stofnunin á að hafa eftirlit með, vinnur það mál í kærunefnd og héraðsdómi, en Hæstiréttur snýr því. Ekki er síður áhugavert að framkvæmdastjórinn fari í skaðabótamál vegna starfsloka sinna í framhaldinu, tapi því í héraðsdómi, en Hæstiréttur snýr þeim dómi einnig á grundvelli nýrrar túlkunar á lögum. Þetta er atburðarás hægt væri að selja til handritshöfunda Law and Order.

Uppi hafa verið háværar raddir um afsögn ráðherra, en rétt er að skoða stöðu hans nánar og hafa í huga að sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Þegar framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu óskar eftir fundi ráðherra eftir úrskurð úrskurðarnefndar jafnréttismála um að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hafi brotið jafnréttislög við störf sín sem stjórnarformaður Leikfélags Akureyrar, segir Páll Pétursson þv. félagsmálaráðherra að málið sé ekki til skoðunar í ráðuneytinu, sagt á mannamáli, ráðherrann ætlar að horfa í gegnum fingur sér meðan málið gengur sinn gang inn í dómskerfið. Hafa ber í huga að úrskurðarnefndin starfar undir Félagsmálaráðuneyti og er úrskurður hennar stjórnsýsluúrskurður, ekki dómsúrskurður.

Við staðfestingu héraðsdóms á úrskurði úrskurðarnefndarinnar, óskar framkvæmdastjórinn aftur eftir fundi ráðherra til að ræða stöðu sína. Fram hefur komið að hún hafi óskað eftir stuðningi hans.

En hver er staða ráðherra þegar dómstóll hefur kveðið upp úrskurð?

Á ráðherra í ríkisstjórn að véfengja héraðsdóm? Á einn af handhöfum framkvæmdavalds að kveða upp þann úrskurð um að dómsvaldið hafi ekki rétt fyrir sér í dómsmáli? Það getur ekki samræmst hugmyndum um þrískiptingu valds. Rétt er að dómar héraðsdóms hafa almennt ekki réttaráhrif fyrr en ljóst er að ekki verði áfrýjað, en af öllum á ráðherra ekki að kveða upp úr um hvort dómstóll hafi rétt fyrir sér eður ei. Verður hann því að ganga út frá dómi héraðsdóms í málinu þegar hann er beðinn um að taka afstöðu.

Ráðherra hafði því ekki um góða kosti að velja þegar framkvæmdastjórinn kemur að eigin ósk á fund ráðherra og biður um stuðning. Stuðning sem honum er ófært að veita, ekki bara stöðu sinnar vegna sem hluta framkvæmdavaldsins, heldur einnig pólitískt.

Það er alveg ljóst að stuðningsyfirlýsing við framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu sem búið að úrskurða og dómstóll aftur búinn að staðfesta að hafi brotið jafnréttislög, væri ekkert annað en skilaboð um að jafnréttismálin væru skör lægra en önnur mál, eða eins og þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar Karl Birgisson komst að orði í grein í Fréttablaðinu 16. júlí 2003, nokkrum dögum eftir dóm héraðsdóms en fyrir fund Árna og Valgerðar:

“Hvað segir okkar ungi félagsmálaráðherra? Þykir honum eðlilegt að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hljóti dóm fyrir brot á jafnréttislögum án þess að það hafi áhrif á embættið? Telur hann að athugasemdir Jafnréttisstofu vegna meintra brota á jafnréttislögum muni hafa sama vægi eftir og áður en framkvæmdastjórinn hlaut dóminn? Eða getur verið að félagsmálaráðherranum og framkvæmdastjóranum þyki jafnréttislögin og brot á þeim ómerkilegri en brot á öðrum lögum í landinu?”
.
Hollt er að íhuga hvað hefði gerst ef ráðherra hefði gefið út yfirlýsingu um stuðning og Hæstiréttur hefði síðan staðfest dóm héraðsdóms. Þá er alveg ljóst að ábyrgð ráðherra væri mikil ef ekki alger, að veita framkvæmdastjóranum umboð til að starfa áfram, véfengja með því dómstóla landsins og hafa dóma þeirra að engu meðan stætt væri.

Af þessu er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að ráðherra hafi tekið rétta ákvörðun miðað við þær forsendur sem voru í málinu þegar hann var krafinn afstöðu.

Hvað starfslokin áhrærir er ljóst að hún hafði ekki brotið af sér í starfi fyrir ríkið og er greinilegt af gögnum málsins að ráðherra taldi því ekki fært að hún viki tímabundið á grundvelli laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, heldur hafi bein uppsögn eða samkomulag um að hún segði upp verið einu möguleikarnir í stöðunni. Ríkislögmaður var sammála því mati þegar eftir áliti hans var leitað. Að fundi þeirra loknum lýstu bæði því yfir í fjölmiðlum að þau væru sátt við niðurstöðuna miðað við aðstæður, þótt annað hafi svo komið á daginn. Hæstiréttur hefur nú dæmt að þetta mat ráðherra og ríkislögmanns hafi ekki verið rétt og því eigi Valgerður rétt á skaðabótum.

Er því komin ný túlkun á þessum lögum sem ekki var fyrirséð. Hægt verður að taka mið af þessari túlkun í framtíðinni, sem er gott, en engu að síður er ljóst að Árni Magnússon tók rétta ákvörðun miðað við þær forsendur sem hann hafði. Því er ekki nokkur leið að taka undir þær raddir sem kalla á afsögn hans, heldur verður að hrósa þeim báðum fyrir hug þeirra til jafnréttismála sem ávallt voru látin njóta forgangs.

Birtist í Morgunblaðinu 23.12.2005

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home