Þar sem ég ólst upp var kosið til sveitarstjórnar með óhlutbundinni kosningu, þar til í síðustu kosningum. Í stað þess að velja á milli framboðslista átti hver kjósandi að velja þá einstaklinga sem hann treysti best til að fara með sveitarstjórnarmálin á komandi kjörtímabili, jafn marga og sæti var fyrir í sveitarstjórn. Þeir einstaklingar sem flest atkvæði fengu töldust réttkjörnir í sveitarstjórn. Tel ég að með þessum hætti veljist öðruvísi fólk til þessara ábyrgðastarfa og störfin snúist síður upp í karp, karpsins vegna.
Í íslenskri kosningalöggjöf er þetta þó víkjandi form kosninga, þannig að ef fram kemur listi með frambjóðendum sem uppfyllir skilyrði er hann sjálfkjörinn, en ef fleiri listar koma fram veljast menn til sveitastjórnar í hlutfalli við fjölda atkvæða greiddum viðkomandi lista í þeirri röð sem viðkomandi flokkur raðar þeim á listann, svona einfaldað sagt.
Með tilkomu misopinna prófkjara sem virðist vera að verða ríkjandi aðferð við val á framboðslista, má segja að þróunin sé að fara meira í átt til óhlutbundinna kosninga, þar sem almenningur hefur bein áhrif á það hvaða einstaklingar veljast til trúnaðarstarfa fyrir sína hönd, en ekki bara hvaða flokkur er við völd.
Í framhaldi af því má alveg velta því fyrir sér hvort ekki sé réttara að ganga alla leið og gefa íbúum sveitarfélaganna kost á að gera óhlutbundnar kosningar að ríkjandi kosningaformi í sínu sveitarfélagi. Væri til dæmis hægt að leyfa kjósendum að ákvarða kosningaformið með almennum kosningum og gilti það form þar til ákveðið hlutfall íbúa óskuðu eftir nýjum kosningum um formið.
Óhlutbundnar kosningar hafa ýmsa kosti. Þannig skiptir uppröðun þeirra sem lýsa yfir áhuga sínum á setu í sveitarstjórn á lista viðkomandi flokks ekki máli, heldur þyrfti hver og einn frambjóðandi að sýna fram á ágæti sitt fyrir kjósendum. Ekki ósvipað og gert er í prófkjörunum. Kjósendur væru heldur ekki múlbundnir til að styðja einungis fulltrúa eins flokks, heldur gætu þeir valið þá einstaklinga sem þeir treystu best. Ég hef grun um að fólk sé almennt ekki síður að kjósa einstaklinga í dag en flokkspólitíska stefnu, enda viðfangsefni sveitarstjórnanna oft frekar tæknileg afgreiðslumál án þess að djúpar pólitískar hugsjónir fái miklu ráðið, þótt á því séu að sjálfsögðu undantekningar.
Hugsanlega gæti verið erfiðara að mynda starfhæfan meirihluta, en á móti kemur að sveitarstjórnarmenn væru heldur ekki eins bundnir af því að vera á móti bara til að vera á móti og með málum bara til að vera í liði, heldur fengju frekar að fylgja sinni sannfæringu.
Ég hef ekki endanlegt svar við því hvort þetta sé besta leiðin til vals fulltrúa í sveitarstjórn, en gaman væri að fram færi frjó og opin umræða um þetta mál. En eitt er víst, með þátttöku í opnu prófkjöri eins og því sem fram fer þann 28. janúar nk, er hver og einn kjósandi að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í anda beins lýðræðis um það hvernig framboð Framsóknarflokksins í Reykjavík ætti að vera í vor, hvaða áherslur eigi að hafa mest vægi og hvaða einstaklingar eiga að vera fulltrúar og andlit flokksins í borginni á næsta kjörtímabili. Það hlýtur að vera skylda hvers manns sem á einhvern hátt getur aðhyllst grundvallarstefnu flokksins að gefa sína skoðun til kynna með því að kjósa þann 28. janúar í Laugardalshöllinni og gera þar með það besta úr því kosningafyrirkomulagi sem við höfum í dag.