Í gær bárust fregnir að vestan um hörmulegt bílslys á Hnífsdalsvegi. Þar var ung stúlka hrifin á braut í enn einu banaslysinu í umferðinni.
Þessi mynd á ekkert skylt við það atvik.
Ég á erfitt með að skilja hvernig vegafé er varið. Hef nú skrifað nokkrar greinar um það og set tengla inn á þær hérna undir greininni, en ég skil samt ekki af hverju þeir sem stjórna þessum málaflokki skuli hafa samvisku í sér að fara í nýframkvæmdir bara af því að þær eru í réttu héraði meðan svörtum blettum í vegakerfinu hefur enn ekki verið útrýmt.
Líklegast er þetta afleiðing af því að þá skortir pólitískt þor til að skilgreina hvaða áhætta er ásættanleg í samfélaginu og verðleggja slys og mannslíf rétt. Það var gert þegar Ofanflóðasjóður var settur á stofn til að byggja upp snjóflóðavarnir landsins og ég er stjórnarmaður í, og hefur verið góð sátt um þá framkvæmd. Er ég sannfærður um að það sé einmitt vegna þess að yfirvöld þorðu að setja sér skýrar leikreglur. Sama á að gera víðar í samfélaginu, þar á meðal í umferðinni. Að missa 20-30 mannslíf á ári í umferðinni er ekki ásættanlegt, svo mikið er víst.
Þegar búið er að útrýma þekktum svörtum blettum á að láta hagkvæmiútreikninga ráða meiru þegar verkefnum er forgangsraðað. Þær tölur eiga að koma inn í hagkvæmiútreikninga sem eiga að fylgja vegaáætlun og birtast í henni, þannig að þegar vegaáætlun er samþykkt, liggur fyrir arðsemi viðkomandi framkvæmdar, áhættuminnkun vegna hennar og svo önnur sjónarmið, eins og byggðasjónarmið.
Fyrr er ekki hægt að segja að alþingismenn geti tekið upplýsta ákvörðun þegar vegafé er úthlutað.
Grein um forgangsröðun í samgöngumálum
Grein um Sundabraut
Grein um takmörkun hraða