Gestur Guðjónsson

02 maí 2005

Forgangsröðun í samgöngumálum

15. apríl 2005
Nú liggur fyrir hinu háa Alþingi tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Það má kalla harla kúnstugt að um leið og stöðugt er verið að kalla eftir meiri þrískiptingu valdsins í löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald, skuli málum þannig fyrir komið að stóru framkvæmdaratriðin skuli ákveðin af löggjafarvaldinu.

Ekki að það sé klókt að fram fari opin umræða um hvernig fara skuli með skattfé borgaranna, en það er í hæsta máta umhugsunarefni að málum skuli vera þannig fyrirkomið að hlutirnir séu meira og minna komnir á haus, löggjafinn að ákveða framkvæmdafé um leið og framkvæmdavaldið sér um að semja og hafa frumkvæði að nánast allri löggjöf þjóðarinnar.

Það er ekki meginefni þessarar greinar, um það hefur verið fjallað áður og verður eflaust gert aftur, en væri ekki eðlilegra að Alþingi tæki ákvörðun eftir hvaða meginlínum ætti að ráðstafa fénu? Er ekki eðlilegra að Alþingi ákveði hvaða lágmarksþjónustustig borgarar landsins eigi að búa við og svo væri það framkvæmdavaldsins að forgangsraða þeim verkefnum á þann veg að þau verkefni sem brýnust væru fengju forgang í stað þess að á Alþingi sé verið að karpa um hvort þessi eða hinn vegspottinn eigi að vera malbikaður?

Í umræðum síðustu daga hefur nánast ekkert heyrst um meginstefnumið samgönguáætlunarinnar. Það er að það sé í mesta lagi 1 klst ferðalag í næsta stóra þjónustukjarna og í mesta lagi 4 klst ferðalag til Höfuðborgarinnar, hvaðan af landinu sem er. Reyndar er ekkert kveðið á um hver hámarkskostnaður við þetta ferðalag mætti vera. Það væri réttlætismál að gera það.

Það hlýtur að vera fyrsta forgangsmál yfirvalda að ná þessu markmiði og að það ferðalag uppfylli lágmarkskröfur nútímans; Öruggar og þægilegar flugvélar, öruggar ferjur sem fara vel í sjó og öruggir og malbikaðir vegir. Fjárveitingar til annarra leiða ættu að sitja á hakanum, nema að annaðhvort sé um að ræða skilgreinda slysagildrur, svokallaða svartbletti, sem einbreiðu brýrnar eru oft eða að hinsvegar sé að um ræða samgöngubót sem sé svo þjóðhagslega hagkvæm að ekki sé forsvaranlegt annað en að ráðast í hana. Er óeðlilegt annað en að þeim framkvæmdum sé forgangsraðað eftir slysatíðni annars vegar og arðsemi hinsvegar, sem mæld er sem innri vextir fjárfestingarinnar, þar sem tekið er tillit til fjárfestingar, slysakostnaðar, tímanotkunnar ökumanna, eldsneytiseyðslu, sliti á vegum, sliti á bílum, viðhaldi á vegum, o.s.frv.

Fjárveitingar til annarra framkvæmda hlýtur að þurfa að gaumgæfa á réttum forsendum. Ef verið er að fara í samgöngubætur vegna byggðasjónarmiða hlýtur að verða að taka upplýsta ákvörðun um það. Upplýsta ákvörðun, þar sem sá kostnaður sem lagt er til að farið sé út í sé borinn saman við þau byggðamarkmið sem nást af viðkomandi framkvæmd. En um leið og það er gert er nauðsynlegt að innri vextir, arðsemin af viðkomandi framkvæmd sé uppi á borðinu þegar ákvörðunin er tekin. Ekki má skilja orð mín þannig að ég sé á móti því að farið sé í samgöngubætur til að styrkja byggðir landsins, en það er nauðsynlegt að menn taki um það upplýsta ákvörðun, þannig að öllum megi ljóst vera hvaða ákvörðun sé verið að taka. Reyndar má alveg spyrja sig hvort eðlilegt sé að fé til slíkra framkvæmda sé tekið af mörkuðum tekjustofnum samgangna, hvort ekki sé eðlilegra að slíkar fjárveitingar séu nefndar sínu rétta nafni og teknar af fé til byggðamála. En þrátt fyrir það hlýtur það að vera sjálfsögð krafa að í samgönguáætlun sé gert arðsemismat á hverja einustu framkvæmd sem lagt er til að farið sé í, svo Alþingismenn eigi nokkurn möguleika á að taka upplýstar ákvarðanir í þessum málaflokki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home