Gestur Guðjónsson

25 janúar 2006

Öflugt grunnskólastarf

Morgunblaðið 24. janúar 2006
Mikil breyting hefur orðið á starfi skólanna á síðasta áratug. Rekstur grunnskólans var fluttur frá ríki til sveitarfélaganna skömmu eftir að R-listinn tók við völdum um leið og kröfur til skólastarfsins voru stórauknar, sérstaklega kröfur um einsetinn skóla.

Miklar framkvæmdir að baki
Vitaskuld gátu sveitarfélögin, ekki einu sinni Reykjavík, farið í þær byggingaframkvæmdir sem til þurfti án þess að taka fyrir þeim lán. Til þess nægðu tekjustofnar sveitarfélaganna ekki og eru þau mörg hver afar skuldsett vegna þessa, mismikið þó. Var vel að þessum málum staðið hjá borginni, enda sýnir það sig endurtekið að með því að taka af festu á málum og ljúka þeim fljótt eins og gert var undir styrkri stjórn Sigrúnar Magnúsdóttur, verður minnst rask á starfinu um leið og afraksturinn af uppbyggingunni og fjármunum fer fyrr að skila sér.

Annað framfaramál sem hrint hefur verið í framkvæmd er að gefa nemendum kost á skólamáltíðum. Nauðsynlegt er að ljúka því átaki hið fyrsta svo að allir nemendur eigi kost á heitri og hollri máltíð í skólanum og þarf borgin að setja skýra stefnu í þeim málum.

Innra starf skólanna
En það sem þó skiptir mestu máli er skólastarfið sjálft. Þar hafa orðið miklar breytingar og ýmsar stefnur og sjónarmið tekist á við grunnmótun skólastarfsins.

Mörg sjónarmið eru vel samrýmanleg eins og markmiðið um einstaklingsmiðað nám. Börn taka mishratt út þroska og eiga einnig misauðvelt með hinar ýmsu námsgreinar. Er því eðlilegt að geta þeirra til að tileinka sér efnið sé mismikil og útheimti mismikinn tíma og vinnu.

Tíminn getur nýtist mjög illa ef hafa á nemendur með mismiklinn námshraða saman í kennslu og brot á réttindum nemenda að fá ekki kennslu og námsefni við hæfi. Þau sem afkasta mestu í viðkomandi grein þurfa að bíða eftir hinum, sem getur leitt af sér námsleiða og agavandamál. Ef hin börnin fá ekki þann tíma sem þau þurfa getur það leitt til minnimáttarkenndar og haft slæm áhrif á sjálfsmyndina sem mótast mikið á þessum árum.

Tillit til getu hvers og eins
Hægt er að koma til móts við þennan vanda með getuskiptingu. Þar sem sum börn eiga misauðvelt með sumar greinar en ekki aðrar. Ekki er víst að hrein getuskipting í fasta bekki eigi við í öllum tilfellum, frekar að skipta í bekki eða námshópa eftir færni hvers barns í því fagi sem um ræðir hverju sinni.

Væri eðlilegt að horft verði til þess að skipuleggja skólastarfið í anda fjölbrautaskólanna, sérstaklega í unglingadeildum í þeim fögum sem það á við, þannig að nemendur taki ákveðna áfanga og þeir sem þurfa lengstan tíma, nýti hann í að læra kjarnafögin. Þau börn sem hafa tíma aflögu geti nýtt hann í val, annaðhvort með því að breikka námið með fleiri greinum eða með því að flýta fyrir sér í framhaldsskólanámi eins og þegar er byrjað að gera.

Grunnskólalögin setja sveitarfélögum reyndar takmörk í stefnumörkun í þessa átt, en sveitarfélög ættu að beita sér fyrir því að þeim verði breytt svo borginni og öðrum verði gert kleift að móta slíka stefnu.

Skóli án aðgreiningar?
Önnur sjónarmið eru illsamrýmanleg og gildir þá að miðla málum þannig að sem best fari fyrir heildina og einstaklingana. Sem dæmi má nefna stefnuna „skóli án aðgreiningar“. Skóli án aðgreiningar eða skóli fyrir alla er oftast skilgreindur á Íslandi sem almennur skóli sem tekur við öllum nemendum í sínu skólahverfi og sinnir námsþörfum þeirra í almennum bekkjardeildum á áhrifaríkan hátt. Samkvæmt þeirri stefnu skal nemendum blandað í bekki óháð atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegs og tilfinningalegs ásigkomulags eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðargreind og greindarskert og allt þar á milli.

Þetta reynir óneitanlega mikið á kennsluna, kennarana og nemendurna sem þurfa að samræma mörg sjónarmið, sem oft virðast ósamrýmanleg. Samkvæmt könnun Gallups er mikil andstaða meðal starfsfólks grunnskóla við stefnu Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar. Tæplega 60% líst illa eða frekar illa á hana, rúmum 22% vel eða frekar vel og 18% taka ekki afstöðu.

Rétt er að hlusta á kennarana, fagmennina, í þessu máli. Í ákveðnum námsgreinum á vel við að blanda fullkomlega, brjóta bekki upp og vinna í öðrum hópum, enda nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hvers konar fordóma. En það er afar erfitt og óframkvæmanlegt án mikillar útgjaldaaukningar að vinna algerlega eftir hugsuninni um skóla án aðgreiningar um leið og tryggja jafnframt öllum nemendum nám við hæfi, sem hlýtur að vera frumtilgangur grunnskólans.

Er því alveg ljóst að margt þarf að skoða og margt er hægt að bæta í grunnskólum borgarinnar, sem er afar spennandi og mikilvægt verkefni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home