Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 23. janúar
Margir Reykvíkingar hafa látið að sér kveða í umhverfisverndarmálum og er það vel. Flest mál af því tagi, sem ber hátt í umræðunni, varða önnur landsvæði en þau sem eru innan borgarmarkanna. En er það endilega vegna þess að ekki þurfi að hafa áhyggjur af umhverfismálum í Reykjavík? Ég tel að svo sé alls ekki.
Lágmörkum skaðann
Öll byggð hefur í för með sér umhverfisáhrif, bæði vegna þess að ósnortinni og oft blómlegri náttúru, móum, hrauni, vallendi, strandsvæðum eða heiðum er breytt í borgarbyggð, með malbiki, trjám, ábornu grasi og mannvirkjum og ekki síður vegna atferlis íbúanna, t.d. með bílum, vatnsnotkun, úrgangsframleiðslu og með truflun á búsvæðum dýra og plantna. Þessi áhrif hafa almennt verið talin ásættanleg vegna þess að við teljum það vera mikilvægari hagsmuni að uppfylla þarfir okkar um íbúðir og pláss undir atvinnustarfsemi. En okkur ber einnig skylda til að gera það sem við getum til að lágmarka þann skaða sem við völdum umhverfinu með atferli okkar. Náttúran hefur gefið okkur svo mikið að við skuldum henni það.
Reykjavíkurborg hefur mótað sér umhverfisstefnu og verður að fylgja þeirri stefnu eftir og endurskoða hana reglulega og taka tillit til framfara í tækniþróun, breyttra krafna, nýjustu rannsókna og viðhorfs borgarbúa sjálfra til umhverfisins.
Þetta hljómar kannski hástemmt, en raunin er sú, sem betur fer, að okkur hefur auðnast að ganga þannig um umhverfið að við eigum t.d. tvær gjöfular laxveiðiár, Elliðaárnar og Úlfarsá innan borgarmarkanna. Mér er til efs að nokkur höfuðborg sé svo auðug. Eins og með öll djásn, ber okkur að gæta þeirra vel og sífellt verður að leita leiða til að lágmarka neikvæð áhrif okkar á umhverfið. Ánægjulegt er að fylgjast með áætlunum R-listans um verndun ánna komast í framkvæmd, en hreinsun ofanvatns er málaflokkur sem er mikið til umræðu í Evrópu og Ameríku þessi misserin, enda er búið að ná að mestu utan um vandamálin í tengslum við skólphreinsunina.
En það er samt ekki allt jafn gott og verður að horfa lengra til framtíðar í sumum málaflokkum.
Brennsla í stað urðunar?
Í sorpmálum hefur verið unnið eftir þeirri stefnu að urða þann úrgang sem ekki fer í endurvinnslu. Urðun er síðasta stig sorpmeðhöndlunar, á eftir endurnýtingu og endurvinnslu, og sú sem hvað mest umhverfisáhrif hefur. Til þess að auka hlutfall endurnýtingar og endurvinnslu þarf að stórbæta aðgengi borgaranna að flokkunarstöðvum með því að staðsetja gáma þar sem fólk á helst erindi dags daglega, t.d. við verslanir.
Ég er þeirrar skoðunar að hefja eigi undirbúning að uppsetningu brennslustöðvar fyrir sorp hið fyrsta og tryggja að hægt sé að nýta þá orku sem frá brennslunni kemur í formi rafmagns eða hita nema hvort tveggja sé. Við brunann verður til koltvísýringur en ekki metan sem myndast við niðurbrot í venjulegum sorphaugum, sem hefur 3-4 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif en koltvísýringur, sem þó er reynt að stemma stigu við með metnaðarfullu söfnunarkerfi í dag. En það sem skiptir þó ekki síður máli er að við bruna minnkar rúmmál sorpsins um 90%, þannig að landnotkun undir sorphauga snarminnkar, en áætlað er að núverandi land í Álfsnesi verði fullnýtt árið 2014, eða eftir 8 ár. Land er að verða sífellt verðmætari auðlind og hefur hingað til verið vanmetið. Ef sorp væri brennt myndi tífaldast nýting þess lands sem fer undir urðunina og óáran eins og rottur og vargur heyrir sögunni til, svo auðveldara ætti að vera að finna nýja urðunarstaði í sátt við nágranna. Með staðsetningu brennslustöðvar nær borginni minnka einnig flutningarnir, sem er ótvíræður kostur.
Öll eggin í sömu körfu
Annað stórmál sem lítt hefur verið hugað að er framtíðarvatnstaka borgarinnar. Í dag er allt vatn borgarinnar tekið undan Heiðmörk. Er það svæði frábært og vatnið til mikillar fyrirmyndar. En hættulegt er að hafa öll eggin í sömu körfunni og þar sem svæðið er virkt, bæði gagnvart jarðskjálftum og eldsumbrotum, og mengunaróhöpp geta jú alltaf gerst, vofir sú hætta ávallt yfir að svæðið spillist til lengri eða skemmri tíma. Þarf Reykjavíkurborg því að tryggja það að hugsanleg vatnstökusvæði í nágrenni borgarinnar verði vernduð og hugað að nýtingu þeirra. Á ég þá við svæði í Henglinum en þó sérstaklega vatnasvæðið norðan Þingvallavatns. Þar streymir gnægð tandurhreins vatns sem hægt er að nýta án þess að það hafi nein teljanleg áhrif á umhverfið. Ætti borgin því að fara hið fyrsta í samningaviðræður við Bláskógabyggð um þetta vatn og þrýsta á Alþingi að tryggja verndun svæðisins með friðlýsingu.