Gestur Guðjónsson

08 janúar 2006

Orkuveitubyltingin

Stjórnarandstaða íhaldsins í borginni síðustu ár hefur meira og minna verið einskorðuð við einn hlut, Orkuveitu Reykjavíkur. Málflutningur þess hefur verið með ólíkindum og ber hann vitni um annaðhvort ótrúlegan skort á framsýni, lítinn skilning á fjárfestingum og rekstri eða einfaldlega öfund. Mér er næst að halla mér að seinustu skýringunni og tel víst að það vildi sjálft Lilju kveðið hafa.

Sú aðgerð að sameina hitaveitu, rafmagnsveitu, vatnsveitu og nú fráveitu borgarinnar í eitt fyrirtæki um leið og nýrri veitu, gagnaveitunni, hefur verið komið á fót, er stórkostlegt framfaraspor. Sameiningin er framkvæmd af þvílíkri framsýni að í dag skilur maður ekki af hverju þetta var ekki löngu búið og gert.

Stjórnendur Orkuveitunnar, undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar oddvita framsóknarmanna í borginni, báru gæfu til að ganga rösklega fram í sameiningunni, gera nauðsynlegar skipulagsbreytingar fljótt og sameina starfsemina undir eitt þak eins fljótt og auðið var í glæsihýsi sem við getum verið stolt af.

Hálfkák eða seinagangur við sameiningu gamalgróinna fyrirtækja kostar mikla fjármuni vegna óhagræðis í rekstri meðan á breytingunum stendur og veldur óöryggi meðal starfsmanna. Starfsmenn hvers fyrirtækis og þekking þeirra eru aðaleign þess og því afar mikils virði að vel takist til við að halda starfsfólki ánægðu og öruggu í sínu starfi, enda lagnirnar, dælurnar og tankarnir lítils virði ef enginn kann að stýra þeim.

Eitt er víst. Orkuveitu Reykjavíkur á alls ekki að selja einkaaðilum, eins og áreiðanlega verður fái íhaldið öllu ráðið í borginni.

Engin rök mæla með því að einkavæða fyrirtæki sem eru að stórum hluta í einokunaraðstöðu eins og ávallt verður með rekstur vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu. Þar sem raforkukerfi hafa verið einkavædd, eins og t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi, hefur afhendingaröryggi verið gersamlega óásættanlegt og er skemmst að minnast langvarandi rafmagnsleysis í Kaliforníu fyrir nokkrum misserum, sem stafaði af því að fyrirtækjum var skipt upp, hlutar starfseminnar seldir út úr fyrirtækjunum eða þeim skipt upp með þeim afleiðingum að samhæfing hrundi og ábyrgðarskipting varð óljós.

Orkuveitan á áfram að vera sterkur bakhjarl í atvinnuuppbyggingu í borginni, sem ber ríka samfélagslega ábyrgð. Öflugt fyrirtæki sem veitir góða þjónustu á bestu kjörum og afhendingaröryggi sem stenst ýtrustu kröfur. Jafnframt á hún að skila góðum arði til borgarbúa af skynsamlegum fjárfestingum, sem farið er í með hagkvæmum lántökum þar sem styrkur sameinaðs fyrirtækisins er nýttur. Nýjasti vitnisburðurinn um hagkvæmnina í rekstri fyrirtækisins er sá að án þess að lækka gjaldskrá sína stenst Orkuveitan öðrum veitum landsins snúning á raforkumarkaði, eftir að hann er nú orðin frjáls.

Geta framsóknarmenn því verið stoltir af Orkuveitu Reykjavíkur og okkar þætti í uppbyggingu hennar, sem sagan mun dæma með mun meiri sanngirni en dægurþrasandi íhaldsmenn virðast geta gert.

Birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2006

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home