Ég ætlaði einu sinni að slá í gegn sem söngvari í hljómsveit. Enginn man eftir því, enda gekk það ekki, hvorki á Selfossi né í Álaborg í Danmörku þar sem ég bjó um tíma meðan ég var í háskóla. Það sem var helsta vandamál við þetta brambolt á Selfossi var aðstöðuleysi. Hljómsveitin fékk reyndar inni í félagsheimili fyrir utan bæinn fyrir kunningsskap, en aðrir sem höfðu áhuga voru ekki svo heppnir. Þegar ég flutti til Álaborgar komst ég fljótlega í grúppu en þar var ramminn í kringum æfingaaðstöðuna allt annar.
Sveitarfélagið lagði til hentugt æfingahúsnæði, gamlan skóla sem var innréttaður þannig að 2-3 hljómsveitir deildu með sér herbergi og við gátum æft án vandræða vegna nágranna enda húsið vel hljóðeinangrað. Var þetta alveg frábært, mikil og góð stemming, ákveðnar umgengnisreglur, samvinna milli hljómsveita og mikil gróska. Hafði ég mikinn hug á því að koma þessari hugmynd á framfæri þegar ég kom heim, en aðrir hlutir tóku tíma minn svo ekkert varð af því.
Það var mér því mikið ánægjuefni að sjá að áhugasamir einstaklingar eru búnir að koma slíkri aðstöðu á fót hér í borg, kaupa húsnæði og innrétta á glæsilegan hátt. Hljómsveitir geta leigt sér aðstöðu hjá þeim, iðkað list sína án þess að ergja nágranna og verið í sátt við menn og mýs, en um leið að undirgangast strangar umgengnisreglur, ekkert áfengi og engin bílskúrspartý.
Þótt þetta sé stórkostlegt fyrir hljómsveitirnar sem hafa tryggt húsnæði til að iðka sína tónlist og verða þar með til þess gróskan í tónlistinni aukist enn meira, er gildi þessarar starfsemi ekki síður og enn frekar mikils virði sem forvarnir. Í stað þess að hljómsveitir æfi eftirlitslaust í einhverjum bílskúrum hér og þar um bæinn, þar sem hægt er að djamma í friði, fer þessi starfsemi fram undir mun betri formerkjum í þessari aðstöðu.
Sú staðreynd ein og sér réttlætir að borgin á að tryggja starfsemi eins og þessi fái að vaxa og dafna. Verður borgin að sjá sóma sinn í því að láta það gerast og koma með öflugri hætti að málum gagnvart þeim, eins reyndar allri annarri mannbætandi tómstundastarfsemi, með þjónustusamningi þar sem niðurgreiðsla þátttökugjalda með unglingum er skilgreind auk annarrar sanngjarnrar fyrirgreiðslu. Það má ekki gerast að þessi rekstur stöðvist vegna fjármagnsskorts.
Það eru markvissar forvarnir sem gefa auk þess af sér frábæra aukaafurð, tónlist.