- Ég segi nú ekki margt og smart, jahahá.
Afi minn, Auðunn Gestsson, segir þetta víst ekki aftur um leið og hann trommar með fingrunum á eldhúsborðið. Hann hefur lokið sinni lífsgöngu. Lífsgöngu sem hann naut, lífsgöngu sem margir hafa lært mikið af og margir hafa fengið að njóta með honum. Síðustu sporin sem við áttum saman voru þegar hann fylgdi okkur til dyra á Kumbaravogi, þar sem hann bjó síðustu árin og kvaddi þá Auðun alnafna sinn með sínu blíða brosi, sæll og glaður í bragði.
Ég var svo heppinn að hafa hann ekki bara sem móðurafa, heldur líka sem mikinn og náinn vin. Ég bjó hjá honum og ömmu í Fossheiðinni á Selfossi í 4 ár meðan ég var í framhaldsskóla og tvö sumur að auki. Á sumrin smíðuðum við saman hjá Samtak hf sem var hinum megin við götuna þannig að við gátum farið heim í mat í hádeginu og sofnað yfir fréttunum.
Við afi áttum sérstaklega gott skap saman, skröfuðum margt og brölluðum ýmislegt. Það var alltaf gaman þegar afi var í nánd og verður áfram þegar sögur tengdar honum verða rifjaðar upp.
Þau hjónin brugðu búi á Kálfhóli á Skeiðum og fluttust á Selfoss þegar afi var 66 ára. Það var voguð ákvörðun að skipta um starfsvettvang á þeim aldri, en það var eins og með allt hans lífshlaup, hann hafði yfirsýn og stjórn á hlutunum og var ófeiminn við að taka ákvarðanir þegar tími þeirra kom. Sama var uppi á teningnum þegar amma dó og hann hafði ekkert að gera við húsið á Fossheiðinni. Hann seldi og keypti íbúðina á Grænumörk án þess að börnin hefðu nokkuð um það að segja. Maður gat alveg greint smá gremju í þeim að fá ekkert að ráðskast með gamla manninn, en hann fór sínu fram og hafði stjórn á hlutunum.
Það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig hann tók breytingum. Hann hafði oftast stjórn á hraða þeirra og stefnu, en brást á jákvæðan hátt við þeim breytingum sem hann fékk ekki ráðið við. Hann hafði sinn þjóðlega grunn að byggja á, mikla manngæsku, ást á landinu og dýrunum og áhuga á öllu mannlegu. Það er grunnur sem nýttist honum vel og aflaði honum mikillar virðingar.
Virðing er ekki eitthvað sem maður getur krafist, heldur nokkuð sem maður öðlast. Með fasi sínu og lífsviðhorfi ávann afi sér virðingar þeirra sem hann komst í kynni við og veit ég lærðu margt af honum um það hvernig á að lifa lífinu. Hann kenndi það ekki með predikunum, heldur með því að vera eins og hann átti að sér að vera.
Fyrir það vil ég þakka og óska að heimurinn eignist sem flesta hans líka.