Gestur Guðjónsson

10 janúar 2006

Verndum Þjórsárverin


Ljósmynd RAX
Reykjavíkurborg á 45% hlut í Landsvirkjun. Borgin á að beita sínum áhrifum innan stjórnar hennar til að vernda þá perlu íslenskrar náttúru sem Þjórsárverin eru.

Þjórsárverin hafa mikla alþjóðlega þýðingu, bæði hvað gróðurfar varðar sem og vegna dýralífs. Öll röskun á þessu svæði hefur mikil áhrif á þetta viðkvæma vistkerfi og má ekki gera neitt sem rýrir það eða gæti rýrt það. Gildir einu um hvort svæði sé innan einhverrar línu á korti eður ei.

Stóru fjallasvæðin sem hafa verið mest nýtt fram að þessu, Þórsmörk og Landmannalaugasvæðið eru orðin afar ásetin og mega varla við meiri ágangi frá okkur útivistarfólkinu. Er því eðlilegt að horft verði til Kerlingarfjalla og svæðisins sunnan Hofsjökuls þegar leitað er leiða til að draga úr því álagi og taka við þeirri aukningu í ferðamennsku sem fyrirsjáanleg er. Þar gegna Þjórsárverin lykilhlutverki.

Er því ljóst að þetta svæði kemur til með að hafa sífellt meira gildi í náttúruvernd og útivist. Það fer ekki saman við virkjun svæðisins, því miður.

Fara verður löglegar leiðir í þessu máli og verður að taka hattinn ofan af fyrir heimamönnum, Skeiða- og Gnúpverjum í baráttu þeirra, enda þekkja þeir svæðið manna best. Er sjálfur þaðan og er stoltur af mínum mönnum.

Besta leiðin er að fyrirtækið sjálft, Landsvirkjun, sem hefur haft aðgang að helstu auðlindum þjóðarinnar án mikils endurgjalds og ómetanlegt aðgengi að landi undir línur og mannvirki í nafni almannahagsmuna, sýni að þeim er alvara með stefnumótun sinni í umhverfismálum og hætti við þessa framkvæmd, enda nægir virkjanakostir fyrirliggjandi í neðrihluta Þjórsár og á háhitasvæðum landsins. Ef fara þarf í millifærslu peninga innan opinbera kerfisins vegna þessa, í formi skaðabóta, verður bara að hafa það. Við eigum hvort eð er Landsvirkjun sem tæki við peningunum svo það er enginn skaði skeður hvað það varðar, þeir myndu verða til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Reykjavíkurborg á að beita sínum áhrifum í stjórn Landsvirkjunnar, beina fyrirtækinu á rétta braut og sýna náttúruvernd í verki og að sjálfsögðu á Alþingi að breyta raforkulögum, taka Norðlingaölduveitu út úr þeim og vernda Þjórsárverin.

3 Comments:

At 17 janúar, 2006 22:13, Anonymous Nafnlaus said...

Sæll Gestur
Nú lítur út fyrir að þeim sem barist hafa gegn Norðlingaölduveitu, sama hvaða útfærslu sem um er að ræða, sé að verða að ósk sinni. Þó svo að verkefninu hafi verið breytt úr 62 km2 stöðuvatni með breytilegri vatnshæð í 9 km2 stöðvatn með fastri vatnshæð langt utan friðlands og þó svo að nú sé rætt um að 1 km2 af gróðri og ekkert hreiðurstæði fari undir vatn (86% í árfarveginum) í stað 17 km2 virðist sem landsfeðurnir hafi gugnað á að styðja verkefnið áfram. Andstæðingar Norðlingaöldu og ný síðast oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík hafa hvatt Landsvirkjun til að huga að jarðvarmavirkjunum í staðin. Þau háhitasvæði sunnanlands sem enn á eftir að virkja eru væntanlega Trölladyngja, Brennisteinsfjöll, Grændalur, Torfajökulssvæðið og Hágöngusvæðið (þá væntanlega með hálendislínu).
- Mig langar mig að spyrja um álit þitt á því hvort Framsóknarflokkurinn í Reykjavík muni styðja virkjanir á þessum jarðhitasvæðum?

Í yfirlýsingu sinni í síðustu viku snérist þingflokkur Samfylkingarinnar gegn Norðlingaölduveitu og vísaði þá helst til niðurstöðu 1. áfanga Rammaáætlunar (þar sem að vísu er fjallað um 62 km2 stöðuvatn sem nær inn í friðland en ekki 9 km2 stöðuvatn í árfarveginum eins og í raun er verið að ræða um nú). Verði ekki farið í Norðlingaöldu liggur beint að horfa til Skaftárveitu, sem kom mikið betur út úr Rammaáætlun, enda hefur hún engin áhrif á lífríki eða gróður, aðeins lítilsháttar áhrif á lit Langasjós.
- Mig langar mig að spyrja um álit þitt á því hvort Framsóknarflokkurinn í Reykjavík muni styðja framkvæmdir við Skaftárveitu?

 
At 18 janúar, 2006 00:52, Blogger Gestur Guðjónsson said...

Sæll kæri lesandi fyrir góðar spurningar.

Ég er náttúrulega ekki Framsóknarflokkurinn í Reykjavík. Með stuðningi við mig í 3. sætið verður rödd mín innan flokksins í Reykjavík og á landsvísu sterkari, en auðvitað er flokkurinn lýðræðisleg stofnun, sem ég hvet sem flesta til að ganga í og taka þátt í og dýpka þá góðu umræðu sem þar fer fram. Þessar spurningar lúta frekar að landsmálunum, en Reykjavík á 45% í Landsvirkjun og kemur því málinu við og skal ég með glöðu geði svara þér með minni skoðun á þessu máli.

Að hluta til hef ég þegar svarað þessu með grein sem ég birti áður en ég tók eftir þessari færslu frá þér.

Ég tel að rammaáætlunin eigi að vera lykilverkfærið ásamt umhverfismatsferlinu í ákvarðanatöku í þessum málum. Frekari rannsókna er þörf og finnst mér að það eigi að fara í að framkvæma þær, valdi rannsóknirnar sjálfar ekki óafturkræfum náttúruspjöllum. Bendi á atriði sem ég kom inn í umhverfisstefnu flokksins á síðasta flokksþingi, en ég átti mikinn þátt í að skrifa þá stefnu alla í málefnastarfinu fyrir flokksþingið, en það starf sem og flokksþingið sjálft er öllum framsóknarmönnum opið.
http://www.framsokn.is/stefnan/alyktanir%5Fflokksthings%5F2005/?ew_news_onlyarea=Content2&ew_news_onlyposition=6&cat_id=25898&ew_6_a_id=126914

Ég er fyrirfram ekki á móti því að fara eigi í Hágönguvirkjun. Umhverfismat hefur ekki farið fram, svo ég vil ekki að taka afstöðu til þess að svo komnu máli. Ofanjarðarlínur eru virkilegt lýti á landslaginu og mér finnst það vera sá þáttur sem horfa þarf mest til og skoða gaumgæfilega kosti þess að grafa línuna í jörð. Sjálft virkjanasvæðið við Hágöngur er þegar "skemmt", svo það hefur ekki úrslitaáhrif að mínu mati.

Hvað hin svæðin varðar þarf að fara virkilega varlega í þau. Þú nefnir ekki Þeistareyki og Bjarnarflag sem mér finnast upplagðir virkjanastaðir. Mér fróðari menn hafa tjáð mér að virkjun háhitasvæða hafi ekki teljandi áhrif á hveravirkni á þeim. Byggi ég skoðun mína á því að það sé rétt. Þannig að ef hægt er að fara í þessar framkvæmdir án óásættanlegra náttúruspjalla tel ég vel skoðandi að fara í háhitavirkjanir. Spurningin er hins vegar hversu mikil þau náttúruspjöll mega vera. Mér er til efs að hægt sé að réttlæta virkjanaáform á Torfajökulssvæðinu, en Grændal við Hveragerði væri hugsanlega hægt að virkja án mannvirkja í dalnum sjálfum með stefnuvirkri borun. Trölladyngja hljómar fáránlega í mínum eyrum og Brennisteinsfjöllin þekki ég ekki nógu vel. Ég veit að ég svara loðið, en án umhverfismatsins er ekki hægt að taka endanlega afstöðu að mínu mati og eins og ég segi, þá á Rammaáætlunin að vera stefnumótandi.

Helst sæi ég að djúpboranir myndu losa þrýstingin af frekari landvinningum á háhitasvæðum og vonandi verður gæfan okkur hliðholl þar.

Eðlilegt er að sjónum manna verði næst beint að Skaftárveitu eins og þú bendir á. Langisjór er ótrúleg perla, sem fara þarf um með silkihönskum. Ég tel óásættanlegt að menga Langasjó með jökulvatni, jafnvel þótt hann hafi einhverntíma verið jökullitaður. Það eru rök í svipuðum klassa og ef vísað yrði til þess að Ísland hafi einu sinni verið auðn eins og Surtsey og því sé í lagi að eyða öllum þeim gróðri sem mönnum sýndist. Þar með er ekki sagt að það þurfi endilega að vera óhugsandi að veita Skaftá í Tungná. Skoða þarf áhrif þess að veita henni eða hluta hennar með göngum undir Langasjó yfir í Tungná, virkjun Skaftár í eigin farvegi eða óbreytt ástand. Sérstaklega þarf að skoða ásýnd landsins við hugsanlegt stíflustæði uppfrá og áhrif vatnaflutninganna á grunnvatn í Skaftártungu og árnar og lækina sem koma undan hrauninu. Ég veit að það er verið að skoða grunnvatnið þarna en þekki þær niðurstöður og vill kynna mér þær áður en ég tek afstöðu. Veit ekki til þess að vatnaflutningar með göngum undir Langasjó hafi verið skoðaðir, amk hafa þær niðurstöður ekki komið fyrir mín augu.

En grunnurinn að skynsamlegum niðurstöðum er að fyrst og fremst sé borin virðing fyrir landinu, nauðsynlegar rannsóknir séu framkvæmdar löngu áður en framkvæmdapressa er komin á og náttúran verði látin njóta vafans, þannig að umræðan fái að þróast með eðlilegum hætti á yfirvegaðan og skynsaman hátt.

 
At 18 janúar, 2006 09:14, Blogger Gestur Guðjónsson said...

Kæri lesandi
Ég var greinilega orðinn of þreyttur til að kveikja á Brennisteinsöldu í nótt, þegar ég svaraði þér. Datt ekki einu sinni í hug að tengja Landmannalaugasvæðið við virkjanir. Eins og í Langasjó, hringja allar viðvörunarbjöllur gagnvart hugmyndum um framkvæmdir þar.
ps ég er með ritskoðun á innsendum athugasemdum áður en þær birtast til að koma í veg fyrir dónaskap. Var á fundi frameftir í gærkvöldi svo ég komst ekki í að samþykkja athugasemd þína fyrr. Svo þætti mér vænt um að fólk skrifaði undir nafni, ef það sér sér það fært.

 

Skrifa ummæli

<< Home