Þjórsárverin hafa mikla alþjóðlega þýðingu, bæði hvað gróðurfar varðar sem og vegna dýralífs. Öll röskun á þessu svæði hefur mikil áhrif á þetta viðkvæma vistkerfi og má ekki gera neitt sem rýrir það eða gæti rýrt það. Gildir einu um hvort svæði sé innan einhverrar línu á korti eður ei.
Stóru fjallasvæðin sem hafa verið mest nýtt fram að þessu, Þórsmörk og Landmannalaugasvæðið eru orðin afar ásetin og mega varla við meiri ágangi frá okkur útivistarfólkinu. Er því eðlilegt að horft verði til Kerlingarfjalla og svæðisins sunnan Hofsjökuls þegar leitað er leiða til að draga úr því álagi og taka við þeirri aukningu í ferðamennsku sem fyrirsjáanleg er. Þar gegna Þjórsárverin lykilhlutverki.
Er því ljóst að þetta svæði kemur til með að hafa sífellt meira gildi í náttúruvernd og útivist. Það fer ekki saman við virkjun svæðisins, því miður.
Fara verður löglegar leiðir í þessu máli og verður að taka hattinn ofan af fyrir heimamönnum, Skeiða- og Gnúpverjum í baráttu þeirra, enda þekkja þeir svæðið manna best. Er sjálfur þaðan og er stoltur af mínum mönnum.
Besta leiðin er að fyrirtækið sjálft, Landsvirkjun, sem hefur haft aðgang að helstu auðlindum þjóðarinnar án mikils endurgjalds og ómetanlegt aðgengi að landi undir línur og mannvirki í nafni almannahagsmuna, sýni að þeim er alvara með stefnumótun sinni í umhverfismálum og hætti við þessa framkvæmd, enda nægir virkjanakostir fyrirliggjandi í neðrihluta Þjórsár og á háhitasvæðum landsins. Ef fara þarf í millifærslu peninga innan opinbera kerfisins vegna þessa, í formi skaðabóta, verður bara að hafa það. Við eigum hvort eð er Landsvirkjun sem tæki við peningunum svo það er enginn skaði skeður hvað það varðar, þeir myndu verða til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins.
Reykjavíkurborg á að beita sínum áhrifum í stjórn Landsvirkjunnar, beina fyrirtækinu á rétta braut og sýna náttúruvernd í verki og að sjálfsögðu á Alþingi að breyta raforkulögum, taka Norðlingaölduveitu út úr þeim og vernda Þjórsárverin.