Gestur Guðjónsson

18 janúar 2006

Markvissar forvarnir

Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið tækifæri til að sitja nokkra fundi Áfengis- og vímuvarnaráðs, en ég er varamaður þar. Á fundum þess hef ég fengið enn frekari staðfestingu á þeirri trú minni að besta leiðin til að unglingurinn þroskist til heilbrigðs einstaklings, sem segir nei við eyðileggingu vímuefna, löglegra sem ólöglegra, rati ekki í glæpi og aðra óáran, er að efla sjálfsmynd og sjálfstraust hvers og eins.

Það er auðvitað ekki til ein formúla sem tryggir að allir sleppi við þessa vágesti, en víst er að iðjuleysi og rótleysi eru meðal bestu vina þeirra. Markvisst tómstundastarf með börnum og unglingum hefur margsannað gildi sitt sem eitt af mikilvægustu þáttum í uppbyggingu sjálfsmyndar og sjálfstrausts.

Ekki er allir jafn góðir í öllu eða hafa sama áhuga á öllu og verður því að tryggja fjölbreytni í því úrvali sem í boði er, gildir einu hvort um er að ræða íþróttir, tónlistariðkun, skátastarf, leiklist, hestamennsku, björgunarsveitastarf og útivist, dans, kirkjustarf, söng eða hvað eina annað sem ég er að gleyma hér, allt eru þetta þroskandi tómstundir sem hver og einn býr að um alla ævi.

Sveitarfélögin eiga að leyfa öllum þessum tegundum tómstunda að fá að njóta jafnræðis, því þær eiga í innbyrðis samkeppni um fólk og fjármagn, gildir einu hvort um sprikl sé að ræða, listsköpun eða annað, ramminn þarf að vera skýr og aðgengilegur.

Íþróttir eru afar mikilvægur þáttur sem sífellt er sinnt og á að sinna, ekki bara vegna forvarnargildis þeirra, heldur einnig vegna gildis þeirra fyrir almennt heilbrigði. Sem betur fer hefur orðið almenn vitundarvakning um gildi hreyfingar og á að halda áfram á þeirri braut að tryggja öllum aðgengi að heilbrigðri hreyfingu og trimmi við sitt hæfi. Reykjavíkurborg hefur lyft Grettistaki í byggingu íþróttamannvirkja og er ekki líku saman að jafna miðað við það sem áður var. Helst er að skórinn kreppi þegar kemur að þeim sem ekki hefur hug á að stunda íþróttir með keppni í huga og ætti að skoða hvaða leiðir eru færar til úrbóta í þeim efnum og veita almenningi greiðari aðgang að hinum ýmsu leikfimisölum borgarinnar. Hugsanlega hangir hluti lausnar á því máli saman við þann ásetning sem birtist í höfuðborgarstefnu flokksins að ljúka tómstundastarfi skólabarna fyrr á daginn. Þá eru salirnir lausir fyrr á daginn og þar með komast fleiri að til að stunda þá hreyfingu sem hugurinn girnist og kynna betur hvernig almenningur getur pantað slíka sali.

Um alla list á tómstundastigi, hvort sem það er tónlist, leiklist, dans eða allra handa myndlist, þarf að setja ramma sem er sanngjarn og gagnsær. Borgin á að gera þjónustusamninga við þau félög og einkaaðila sem standa fyrir slíkri starfsemi, tilsvarandi og gert er við íþróttafélögin, eða standa sjálf í þeim rekstri þegar það á við. Skólana á að opna fyrir þessari starfsemi eins og kostur er og nýta þar með betur þessi frábæru mannvirki sem skólarnir eru fyrir íbúana í viðkomandi hverfi. Ekki ósvipað og félagsheimilin úti á landi. Þar sem það er ekki mögulegt eða æskilegt að nýta skólana þarf að styrkja viðkomandi starfsemi sérstaklega umfram það sem annars væri, t.d. með niðurfellingu fasteignagjalda. Öll starfsemi sem kæmi undir þennan hatt þarf að sjálfsögðu að uppfylla stefnumótun og kröfur borgarinnar til að framlögin og stuðningurinn skili tilætluðum árangri. Það eru raunverulegar forvarnir, en slökkvistarfið má ekki gleymast, en meðferðarúrræðum hefur fjölgað mikið undanfarið og er það vel, en betur má ef duga skal

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home