Það eru skrítin viðbrögðin við þessum óhugnalegu fréttum af mannslátum í umferðinni.
Menn ræða um vegi og aftur vegi, en það virðist lítill áhugi vera á orsökum slysanna. Orsakirnar eru einfaldar. Menn eru ekki að haga akstri eftir aðstæðum.
Þrátt fyrir að vera þessarar skoðunar, tel ég mun réttara að gera 2+1 veg austur fyrir fjall. Breiðari en þennan sem settur var í Svínahraunið, en það væri framkvæmd sem væri hægt að klára á næsta kjörtímabili. Öryggisaukningin milli 2+1 og 2+2 réttlætir ekki þann kostnaðarauka sem af því hlýst að fara í 2+2. Ef menn ætluðu að fara í 2+2 veg, væri eingöngu í tengslum við þá sjálfsögðu framkvæmd að klára veginn yfir Sprengisand, sem er jú þegar malbikaður að Þórisvatni, niður í Bárðardal sem er auðvelt vegstæði, gegnum Vaðlaheiði og til Akureyrar og Húsavíkur annars vegar, en yfir Ódáðahraun til Kárahnjúka og eftir þeim vegi sem þegar er til þaðan á Egilsstaði hins vegar.
Samfélagið gæti á móti sparað sér breikkun vegarins um Vesturland og byggingarland höfuðborgarsvæðisins ykist sem nemur Árnessýslu og vegtengingar NA lands við SV hornið yrðu ásættanlegar.