Þótt þetta sé ekki í rauninni neytendamál í þrengsta skilningi þess hugtaks, þá er þessi grein á heimasíðu neytendasamtakanna virkilega góð og rétt
"Margir foreldrar hafa haft samband við Neytendasamtökin og lýst yfir hneykslun sinni á því að myndir af aftöku Saddams Husseins hafi verið birtar í sjónvarpsfréttum en myndbrotið hefur verið sýnt víða. Í frétt í Berlingske Tidende segir frá því að þrjú börn hafi látist eftir að hafa hermt eftir aftökunni, eitt í Texas, annað á Indlandi og það þriðja í Pakistan. Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á að börn eru virkir sjónvarpsáhorfendur og þau og foreldrar þeirra eiga að geta treyst því að óhugnanlegt efni birtist ekki á skjánum snemma kvölds. Slíkt er enda brot á útvarpslögum. Vel má vera að fullorðið fólk kippi sér ekki upp við upptökuna af Saddam en efni sem þetta á ekkert erindi til barna. Myndbrotið hefði frekar átt að sýna í fréttum kl 22:00 ef það þótti ástæða til að sýna það á annað borð og það sama á við um fréttir af stríðsátökum, gíslatökum, fuglaflensu og öðrum hörmungum."