Gestur Guðjónsson

31 janúar 2006

Þau sköpuðu velmegunina

Morgunblaðið 28. janúar 2006
Málefni eldri borgara hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarin misseri. Aðbúnaður og kjör þeirra hafa verið gagnrýnd og er ýmislegt í þeirri gagnrýni réttmætt og nauðsynlegt er að skoða hvað hægt sé að gera til úrbóta. Margt af því er vegna þess að viðmiðin hafa breyst. Er það vel og greinilegt að við, þessi ríka þjóð, höfum vilja til að gera vel við þá kynslóð sem fremur öðrum lögðu grunninn að þeirri velmegun sem við búum við í dag.

Flest þessara atriða snúa reyndar að ríkinu, enda stærstur hluti málaflokksins þar, lífeyrir, hjúkrunarheimili o.s.frv. Margt snýr samt einnig að sveitarfélögunum og í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga þarf að huga vel að þeim þáttum sem að borginni snúa.

Breytinga er þörf á verkaskiptingu
Hluti af þessum vanda stafar af því að sveitarfélögin og ríkið eru bæði að vasast í málaflokknum sem veldur skorti á samþættingu og samhæfingu. Í grófum dráttum sér sveitarfélagið um heimaþjónustu en ríkið um stofnanaþjónustu. Það er freistandi fyrir sveitarfélögin að spara í heimaþjónustunni, en það verður til þess að fólk þarf fyrr á að halda þyngri og dýrari valkostum eins og hjúkrunarheimilum, sem kostuð eru af ríkinu. Til að koma í veg fyrir slíka stöðu er nauðsynlegt að fela málaflokkinn einum aðila og væri heppilegast að sveitarfélögin tækju við honum hið fyrsta. Reykjavíkurborg ætti að ganga á undan og gera þjónustusamning við ríkið um úrræði fyrir Reykvíkinga, þar til málaflokkurinn verður færður í heild sinni til sveitarfélaganna. Fyrr er ekki hægt að tala um aðbúnað á hjúkrunarheimilum á vettvangi sveitarstjórnarmála og ætla ég ekki að gera það hér.

Höldum í sjálfstæðið – aukin heimaþjónusta
Það er margsannað mál að vellíðan og heilsa haldast í hendur og ljóst að vellíðan hvers og eins byggist á jákvæðu sjálfsmati sem hrynur hjá mörgum þegar þeir þurfa að flytjast af eigin heimili á hjúkrunarheimili. Er því algert forgangsmál að leggja áherslu á að lengja þann tíma sem hver og einn getur búið með reisn á eigin heimili, hvort sem það er sérbyggt fyrir aldraða eður ei. Margt er hægt að gera á vegum sveitarfélagsins í því sambandi.
Má þar nefna aukna heimaþjónustu, sem er algert lykilatriði í því að auka öryggi fólks, bættar almenningssamgöngur, með strætisvögnum sem miðaðir eru við þarfir eldra fólks, auk betri þjónustu á gönguleiðum. Einnig þarf að styðja og styrkja sjálfboðaliðasamtök sem sinna samfélagsþjónustu, enda er það líklega ein besta nýting opinbers fjár að virkja náungakærleikann.

Það er sem sagt talsvert sem borgin getur gert fyrir eldri borgarana og ekki mun ég liggja á liði mínu í þeirri vinnu, þeir eiga það skilið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home