Við sem höfum fengið að njóta þeirrar Guðs blessunar að eignast börn áttum okkur á því að þau eru tilgangur lífsins. Ábyrgð okkar sem foreldra er mikil og sama hversu góð stuðningskerfin eru getum við aldrei hlaupið undan þeirri ábyrgð og er rétt að hafa það í huga í umræðunni.
Fyrstu árin
Fæðingarorlofslögin voru alger bylting í mörgu tilliti og marka leiðina fyrir það sem á eftir kemur, en beina þarf sjónum að næsta tímabili í lífi barnanna, það er tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til að börnin geta farið á leikskóla. Í fjölskyldunefnd forsætisráðherra hafa komið upp góðar hugmyndir um að börnum á þessum aldri fylgi umönnunarávísun, sem foreldrar geta nýtt að eigin vali, annaðhvort sem stuðning til þess að vera sjálf heima hjá barninu, greiðsla til náins skyldmennis, til dagmóður eða forleikskóla sem farnir eru að skjóta upp kollinum.
Leikskólinn
Reykjavíkurlistinn olli straumhvörfum í leikskólamálum borgarinnar og er ekki hægt að líkja ástandinu við það sem var þegar Sjálfstæðisflokkurinn réð ríkjum í borginni. Eðlilegt að fylgt verði eftir þeirri stefnumörkun að leikskólinn verði gerður gjaldfrjáls, sérstaklega hjá 4-5 ára börnum. Er það ekki bara kjarabót fyrir barnafjölskyldur sem hafa næg útgjöld, heldur er það einnig til að jafna félagslega aðstöðu þeirra barna sem í dag fara ekki í leikskóla og hljóta því ekki í sama mæli þann félagsþroska sem önnur börn njóta.
Grunnskólinn
Huga þarf að vinnutíma barna sem ganga í grunnskóla. Að loknum hefðbundnum skóladegi og skóladagvistun tekur við íþrótta- og tómstundastarf og að því loknu bíður heimalærdómurinn. Er nauðsynlegt að þetta starf verði samhæft betur, þannig að vinnudagur barnanna verði samfelldari og styttri í samvinnu skólanna við íþrótta- og æskulýðsfélög. Lítill tími vinnst fyrir þau að vera börn sökum vinnuálags.
Í skólastarfinu þarf að byggja á getu og áhuga hvers einstaklings eins og kostur er. Ekki má láta heilar bekkjardeildir þó líða fyrir stöðu einhverra fárra einstaklinga og er það skoðun mín að eðlilegt sé að skipta í bekki eða námshópa eftir getu í hverju fagi og leyfa þeim sem auðveldara eiga með nám njóta þess um leið og þeir sem þurfa lengri tíma geta fengið að læra hlutina á sínum hraða án þess að finnast þeir minnimáttar í bekknum með áfangaskiptingu, sérstaklega í efri bekkjum grunnskólans.
Sjá grein um samvinnu í skólakerfinu og aðra um öflugt grunnskólastarf
Sjá einnig grein í tímanum um styttingu náms til stúdentsprófs