Gestur Guðjónsson

31 desember 2005

Umönnun og skólaganga barnanna okkar

Við sem höfum fengið að njóta þeirrar Guðs blessunar að eignast börn áttum okkur á því að þau eru tilgangur lífsins. Ábyrgð okkar sem foreldra er mikil og sama hversu góð stuðningskerfin eru getum við aldrei hlaupið undan þeirri ábyrgð og er rétt að hafa það í huga í umræðunni.

Fyrstu árin
Fæðingarorlofslögin voru alger bylting í mörgu tilliti og marka leiðina fyrir það sem á eftir kemur, en beina þarf sjónum að næsta tímabili í lífi barnanna, það er tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til að börnin geta farið á leikskóla. Í fjölskyldunefnd forsætisráðherra hafa komið upp góðar hugmyndir um að börnum á þessum aldri fylgi umönnunarávísun, sem foreldrar geta nýtt að eigin vali, annaðhvort sem stuðning til þess að vera sjálf heima hjá barninu, greiðsla til náins skyldmennis, til dagmóður eða forleikskóla sem farnir eru að skjóta upp kollinum.

Leikskólinn
Reykjavíkurlistinn olli straumhvörfum í leikskólamálum borgarinnar og er ekki hægt að líkja ástandinu við það sem var þegar Sjálfstæðisflokkurinn réð ríkjum í borginni. Eðlilegt að fylgt verði eftir þeirri stefnumörkun að leikskólinn verði gerður gjaldfrjáls, sérstaklega hjá 4-5 ára börnum. Er það ekki bara kjarabót fyrir barnafjölskyldur sem hafa næg útgjöld, heldur er það einnig til að jafna félagslega aðstöðu þeirra barna sem í dag fara ekki í leikskóla og hljóta því ekki í sama mæli þann félagsþroska sem önnur börn njóta.

Grunnskólinn
Huga þarf að vinnutíma barna sem ganga í grunnskóla. Að loknum hefðbundnum skóladegi og skóladagvistun tekur við íþrótta- og tómstundastarf og að því loknu bíður heimalærdómurinn. Er nauðsynlegt að þetta starf verði samhæft betur, þannig að vinnudagur barnanna verði samfelldari og styttri í samvinnu skólanna við íþrótta- og æskulýðsfélög. Lítill tími vinnst fyrir þau að vera börn sökum vinnuálags.

Í skólastarfinu þarf að byggja á getu og áhuga hvers einstaklings eins og kostur er. Ekki má láta heilar bekkjardeildir þó líða fyrir stöðu einhverra fárra einstaklinga og er það skoðun mín að eðlilegt sé að skipta í bekki eða námshópa eftir getu í hverju fagi og leyfa þeim sem auðveldara eiga með nám njóta þess um leið og þeir sem þurfa lengri tíma geta fengið að læra hlutina á sínum hraða án þess að finnast þeir minnimáttar í bekknum með áfangaskiptingu, sérstaklega í efri bekkjum grunnskólans.

Sjá grein um samvinnu í skólakerfinu og aðra um öflugt grunnskólastarf

Sjá einnig grein í tímanum um styttingu náms til stúdentsprófs

Rík réttlætiskennd er innbyggð í okkur Íslendinga og sérstaklega okkur framsóknarmenn. Samhjálp og samvinna hefur frá stofnun flokksins verið höfð að leiðarljós í öllu starfi hans og má með sanni segja að hann megi ekkert aumt sjá.

Mikil umræða hefur verið um velferðarmál undanfarið. Er það vel í öllu góðærinu að staða þeirra sem verst eru settir snerti okkur öll og sýnir eitt af þjóðareinkennum okkar. Staða aldraðra og öryrkja ber þar hæst, en kannski er málum svo komið núna að kjör þeirra séu farin að líða fyrir það hversu lág lægstu launin í samfélaginu eru orðin. Það má hverjum ljóst vera að aldrei má borga sig að hætta að vinna og því verða grunnbætur ávallt að vera eitthvað lægri en lægstu laun. Hér hafa ungir öryrkjar þó sérstöðu eins og þegar hefur verið viðurkennt.

Er eðlilegt skref að hefja átak í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, samninganefnd sveitarfélaganna og ríkið í að hækka lægstu launin þannig að þau séu okkur samboðin, hvort sem það er gert með hækkun launataxta eða breytingum á skattkerfinu. Er eðlilegt skref í því að gerður verði sameiginlegur framfærslugrunnur fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem hægt sé að miða við í allri umræðunni. Reykjavíkurborg ætti að hafa frumkvæði að gerð grunnsins í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög. Mikið af umræðunni hefur snúist um keisarans skegg vegna skorts á þessari sameiginlegu skilgreiningu á lágmarksframfærslu og er hún grundvöllur faglegrar velferðarþjónustu.

Aðstoð við þá sem minna mega sín af einhverjum ástæðum þarf sífellt að efla á vettvangi félagsþjónustunnar og Alþjóðahúss í samvinnu við kirkjuna og önnur samtök sem láta sig málið varða og byggja hana á náungakærleika og virðingu fyrir einstaklingnum þar sem grunnframfærsla sé tryggð og grundvallarþjónusta félagsleg sem andleg. Sérstaka áherslu þarf að leggja á hópa þar sem félagsleg einangrun er algeng, eins og suma hópa innflytjenda, aldraða og fatlaða.

Sjá grein um launajafnrétti og barnafjölskyldur
Sjá einnig greinar sem ég skrifaði á tímann um persónubundinn persónuafslátt og misnotkun á velferðarkerfinu

Mörg verkefni eru framundan í skipulagsmálum.

Grundvallarverkfæri í skipulagsmálum borgarinnar er aðalskipulag borgarinnar og svæðisskipulag Höfuðborgarsvæðisins, sem sífellt þarf að vera í endurskoðun og taka tillit til þarfa nútímans en ekki síður þarf að horfa til framtíðar og þeirrar þróunar sem fyrirsjáanleg er, þannig að allra hagsmuna sé gætt.

Grunnhugtak í skipulagsmálum og þjónustu borgarinnar tel ég eigi að vera hverfavæðing. Reykjavík er orðin það fjölmenn og stór að full þörf er orðin á að hverfisvæða hana, eins og þegar er reyndar byrjað á, en þá hugsun verður að útfæra frekar og hrinda í framkvæmd af krafti, þannig að íbúar geti sótt alla sína þjónustu innan hverfisins, ef þeir þess kjósa. Á þann hátt er ýtt undir hverfaanda, tilfinningu íbúa fyrir sínu hverfi, samkennd, um leið og dregið er úr umferð.

Fólksfjölgun og fækkun einstaklinga á hverju heimili kalla á stöðuga þörf fyrir nýtt íbúðarhúsnæði og verður að taka tillit til þess og tryggja stöðugt lóðaframboð með tilheyrandi þjónustu og samgöngumannvirkjum.

Einhverja fjölgun íbúða er hægt að fá með þéttingu núverandi byggðar og frekari nýtingu Vatnsmýrarinnar en óhjákvæmilegt er að ryðja nýtt land undir byggð. Úlfarsfellið er eðlilegur og skynsamlegur valkostur fyrir framtíðarþróun byggðar um leið og önnur svæði eru tekin frá fyrir framtíðina. Stöðugt þarf að tryggja þarf nægjanlegt framboð á lóðum bæði til íbúðarbyggðar og atvinnurekstrar og á að selja þær hæstbjóðanda. Með nægu framboði er hægt að koma í veg fyrir ofurverð á lóðum um leið og borgin og borgarbúar fá að njóta markaðsverðsins með uppboðsleiðinni en ekki þeir sem fá úthlutað lóðum á spottprís.

Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins átti sér stað góð umræða um innanlandsflugið og flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Var þar samþykkt ályktun um að flugvöllurinn skuli vera í Vatnsmýrinni. Afar skynsamleg ákvörðun, sem lokaði þó ekki fyrir möguleika á að svæðið yrði þróað áfram. Eðlilegt er að skoða gaumgæfilega þann möguleika að lengja austur-vesturbrautina til sjávar og stytta eða leggja norður-suðurbrautina af. Með því losnar ekki einungis mikið land í Vatnsmýrinni heldur verður þá um leið hægt að byggja hærra í miðbænum og þannig stórauka nýtingarmöguleika þess lands sem í miðbænum er. Þá fáu daga sem austur-vesturbrautin væri ófær og innanlandsflug lægi ekki niðri vegna skilyrða á öðrum flugvöllum er hægt að nýta Keflavíkurflugvöll sem varaflugvöll. Með þessu er tekið tillit til beggja sjónarmiða, bæði þeirra sem skilja stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar og vilja áframhaldandi hagkvæman rekstur innanlandsflugsins og þeirra sem vilja efla miðborgina með þróun byggðar í Vatnsmýrinni.

Framkvæmdir í umferðarmannvirkjum eru og verða einn meginþátturinn í starfi skipulags borgarinnar á komandi kjörtímabili, er þar mikil þörf og nauðsynlegt að gera enn betur en gert hefur verið, enda gersamlega óviðunandi að við missum 1 af hverjum 10.000 íslendingum í bílslysum á hverju ári. Bygging Sundabrautar er eitt mikilvægasta verkefnið og hef ég áður lýst skoðun minni á hvaða leið sé skynsamlegast að fara, ytri leiðina, hvort heldur er í hábrú, lágbrú með opnun fyrir skip eða göng, sjá grein mína um það mál í tímanum.

Sjá greinina "segjum nei við bílslysum"
Sjá einnig grein í tímanum um forgangsröðun í samgöngumálum og umferðaröryggi

30 desember 2005

Um mig

HAGIR:
Nafn: Gestur Guðjónsson
Fæddur: Já, 30. júní 1972
Foreldrar: Guðjón Vigfússon og Valgerður Auðunsdóttir, bændur að Húsatóftum á Skeiðum
Fjölskylda: Er í sambúð með Heiðrúnu Pálsdóttur stjórnmálafræðingi og á eina 5 ára dóttur.

MENNTUN:
Ég gekk í barnaskóla í Brautarholtsskóla á Skeiðum til 12 ára aldurs, í gagnfræðaskóla í Flúðaskóla í Hrunamannahreppi í 7-9. bekk sem þá hét svo.
Að því loknu fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og útskrifaðist sem stúdent af eðlisfræðibraut, tæknistúdent og lauk bóklegum hluta húsasmíðanáms árið 1992. Tók þátt í stærðfræðikeppnum fyrir hönd skólans og komst lengst á ólympíuleikana í stærðfræði sem haldnir voru í Sigtuna í Svíþjóð. (Árið áður voru þeir haldnir í Kína og árið á eftir á Kúbu! Svona getur maður verið mismunandi heppinn)
Haustið 1992 sigldi ég ásamt tveimur öðrum nýstúdentum til náms í Álaborg í Danmörku með Dísarfellinu. Þar lagði ég stund á umhverfisverkfræði. Lauk ég mastersprófi í umhverfisverkfræði þaðan árið 1998. Lokaritgerðin fjallar um lífrænt niðurbrot skólps í fráveitulögnum og áhrif þess á hreinsistöðvar og viðtaka. Birtist grein sem ég vann upp úr ritgerðinni í Water Science & technology árið 2001.

STÖRF:
Sem krakki og unglingur vann ég almenn sveitastörf á búi foreldra minna og síðan eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Árið 1988 fór ég á samning í húsasmíði hjá Samtak hf, Selfossi og vann á sumrin með skóla hjá því fyrirtæki og lauk þeim samningi um leið og ég útskrifaðist úr fjölbraut 1992. Sumarið eftir vann ég hjá SG einingahúsum, en enn hef ég ekki haft tækifæri til að klára sjálft sveinsprófið, enda voru þau próf haldin á þeim tímum þegar ég var úti í Danmörku að læra en ekki á sumrin.
Sumarið 1994 vann ég hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurland að verkefninu Hreint Suðurland. Fór ég á flesta bóndabæi á Suðurlandi og kannaði umhverfismál hjá þeim. Vatnsveitur, fráveitur, úrgangsmeðhöndlun og meðhöndlun spilliefna. Í tengslum við þá vinnu skrifaði ég leiðbeiningar um frágang rotþróa, sem Heilbrigðiseftirlitið gaf út.
Veturinn 1995 hóf ég störf við kerfisstjórnun með skóla hjá vélsmiðjunni Danfotech Nutridan í Álaborg í Danmörku, sem í dag heitir SFK Meat Systems og framleiðir vélar í sláturhús og kjötvinnslur. Vann ég hjá þeim til 1998 og kynntist vel dönskum framleiðsluiðnaði og ferilstýringu sem hefur reynst mér dýrmæt reynsla.
Árið 1998 hóf ég störf sem umhverfis- og öryggisfulltrúi Olíudreifingar og gegni ég því starfi enn. Felst stafið í yfirumsjón með öryggis-, umhverfis- og gæðamálum fyrirtækisins ásamt því að sinna samskiptum við yfirvöld á því sviði um allt land, en þau eru fjöldamörg, enda rekstur fyrirtækisins fjölbreyttur og viðamikill. Hef ég setið í nokkrum starfshópum og nefndum fyrir hönd Samtaka atvinnulífisins, sérstaklega á sviði flutnings á hættulegum varningi og á sviði mengunarvarna við meðhöndlun olíu.

FÉLAGSSTÖRF:
Sem unglingur var ég virkur í ungmennafélagshreyfingunni, æfði sund og frjálsar íþróttir sem krakki en seinna frjálsar og blak. Komust Skeiðamenn meira að segja í 1. deildina í blaki en um árangurinn þann veturinn er best að hafa sem fæst orð.
Eftir heimkomuna frá Danmörku hóf ég fljótlega að sýna stjórnmálum áhuga. Var Framsóknarflokkurinn eðlilegt val, þar sem hægrimennska á ekki við mig og ég gat ekki hugsað mér að Ísland yrði eins og Danmörk með sitt kratavelferðarkerfi. Þar kynntist maður samfélagi þar sem atvinnuþátttaka er lítil og velferðarkerfi sem dregur mikið úr vilja fólks til að bjarga sér sjálft með vinnu og litlum möguleikum á að koma ár sinni fjárhagslega fyrir borð vegna mikillar skattheimtu.
Á vettvangi flokksins hef ég starfað í stjórn SUF, setið í miðstjórn flokksins og verið virkur í málefnastarfinu, bæði fyrir flokksþing og á borgarvettvangi. Stýrði ég ásamt öðrum starfshópum um byggðir og umhverfi fyrir síðasta flokksþing og starfshópi um skipulagsmál fyrir kjördæmissambandsþing. Síðustu tvo vetur hef ég skrifað reglulega á vefrit flokksins, www.timinn.is, um það sem helst er á baugi þá stundina.

ÁHUGAMÁL:
Áhugamálin eru fjölmörg og er pólitík sú sem mest fer fyrir þessa stundina. Ég reyni að nota allar afsakanir til að komast út í náttúruna; stangveiði, fjallaferðir og gönguferðir eru þær mest notuðu. Áður en ég stofnaði fjölskyldu var ég mikið í tónlist, söng í kórum og með hljómsveitum, þótt heimsfrægðin hafi aldrei verið innan seilingar. Svo finnst mér gaman að elda góðan mat og borða hann í góðum félagsskap.

Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins. Borgarsjóður velti sjálfur 37 milljörðum króna árið 2004, samanborið við 330 milljarða veltu ríkisins og tæplega 9 milljarða veltu næststærsta sveitarfélags landsins. Skuldir borgarinnar eru miklar, en ef þær eru skoðaðar af sanngirni og tillit er tekið til eigna borgarinnar og þeirrar arðsemi sem þær skila, sérstaklega eigna Orkuveitunnar, er ljóst að borgin stendur fjárhagslega vel.

Niðurgreiðsla lána sem taka þurfti vegna einsetningar grunnskólans og uppbyggingu leikskóla á að vera stöðug og stefna á að því að losa borgarsjóð við allar skuldir á næsta kjörtímabili. Er það vel gerlegt án þess að fara í feluleik rekstrarleigusamninga og alútboða eins og ýmis sveitarfélög hafa freistast til að fara í.

Ábyrgð borgarinnar er mikil í hagstjórninni en meginábyrgðin hlýtur að vera að fara vel með þá fjármuni sem við íbúarnir felum henni í gegnum skatta og aðrar skyldur.
Borgarbúar eiga að mínu mati fyrst og fremst heimtingu á góðri þjónustu frá borginni og hlýtur það að vera forgangsmál umfram allt annað að verða við því. Sýna á ráðdeild í rekstri hverrar einustu einingar borgarinnar, en ekki á að fara í skattalækkanir ef það felur í sér niðurskurð á lögbundinni og sjálfsagðri þjónustu.

Sjá einnig greinar í tímanum um skattkerfið og einstaklingsbundinn persónuafslátt


Um leið og stjórnmálaflokkur stillir fulltrúum sínum á framboðslista til að framfylgja stefnumálum sínum í sveitarstjórnar- og landsmálum er nauðsynlegt fyrir fulltrúana að hlusta á rödd félagsmanna, enda er flokkurinn þeir félagsmenn sem eru í flokknum á hverjum tíma.

Ég legg mikla áherslu á að það verði gert með skipulegum hætti af hendi borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins, komist ég í hann. Fulltrúar flokksins fá að sjálfsögðu vel ígrunduð sjónarmið starfsmanna borgarinnar og sjónarmið annarra flokka við afgreiðslu mála, en rödd félagsmanna verður að vera leiðarljós sem fulltrúar þeirra þurfa að hafa í sínum störfum.

Á sama hátt þurfa fulltrúarnir að fræða félagsmenn um þau mál sem í gangi eru hverju sinni og forsendur fyrir þeim ákvörðunum sem fyrir liggja eða teknar hafa verið, svo félagsmenn hafi aftur möguleika á að standa fast að baki fulltrúum sínum.

Er því nauðsynlegt að endurvekja spjall framsóknarmanna á laugardagsmorgnum eða á öðrum tímum sem hentugir kunna að vera. Auk þess verður að nýta kjördæmissambandsþingin og aðdraganda þeirra betur til málefnastarfs.

Endilega hafið samband við mig ef þið hafið einhverjar spurningar eða viljið leggja framboðinu lið með einhverjum hætti.

Síminn hjá mér er 898 4712

Tölvupóstfangið er gestur@timinn.is

Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga, þar sem Framsóknarflokkurinn býður fram lista undir eigin merkjum í fyrsta skipti í meira en áratug, bíður stuðningsmanna flokksins í Reykjavík mikilvægt verkefni, að stilla upp góðum lista frambjóðenda.


Framsóknarflokkurinn getur verið stoltur af verkum sínum í samstarfi R-listans og má þar nefna hið risavaxna verkefni sem yfirtaka og einsetning grunnskólans var, sameiningu veitufyrirtækja borgarinnar í Orkuveitu Reykjavíkur, glæsilegri uppbyggingu leikskóla borgarinnar, að ekki sé minnst á hreinsun strandlengjunnar. Hreinsun strandlengjunnar er eitt stærsta umhverfismál sem borgin hefur ráðist í á seinni árum og hefur ekki hlotið verðskuldaða eftirtekt, en megnið af mengun sjávar kemur frá landi og þjóð, sem byggir mikinn hluta afkomu sinnar á matvælaframleiðslu. Þeir sem búa við slíkar aðstæður mega ekki fyrir nokkurn mun menga umhverfi sitt, umhverfisins vegna og einnig af því að það getur skaðað orðspor afurða þeirra.


Skipulagsmál, þ.á m. skipulag umferðar og byggingarlands, er málaflokkur sem kemur öllum við og ljóst að umræðu um skipulagsmál lýkur aldrei. Á þeim vettvangi bíða mörg spennandi verkefni sem einungis verða leyst með því að hlusta á öll sjónarmið og reyna að taka tillit til sem flestra um leið og hagsmunir heildarinnar eru tryggðir. Má þar nefna umræðuna um Vatnsmýrina, Sundabraut og endurbyggingu Miklubrautar og Hringbrautar.
Það er til að halda áfram þessum og öðrum góðu verkum og vegna brennandi áhuga á borgarmálum sem ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína fyrir Framsóknarflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum. Býð ég mig fram í 3. sæti listans í prófkjöri flokksins sem fram fer þann 28. janúar næstkomandi.


Ég er 33 ára, með meistaragráðu í umhverfisverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku og hef starfað sem umhverfis- og öryggisfulltrúi hjá Olíudreifingu ehf. síðan 1998. Í námi mínu fékk ég auk umhverfismála góða innsýn í skipulags-, umferðar- og orkumál. Hef ég í starfi mínu hjá Olíudreifingu aflað mér afar víðtækrar reynslu í umhverfis-, öryggis- og gæðamálum í fjölbreyttum rekstri fyrirtækisins. Einnig hef ég sinnt samskiptum við yfirvöld og eftirlitsaðila, innlenda sem erlenda, og setið í nefndum og starfshópum á starfssviði mínu fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, sérstaklega í málum er varða flutning á hættulegum efnum.
Framsóknarflokkurinn hefur verið minn stjórnmálavettvangur frá því að ég fór að sinna þeim áhuga mínum og hef verið virkur í málefnastarfi á landsvísu og í borgarmálum. Ég hef átt sæti í miðstjórn flokksins frá árinu 2001, í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, SUF, frá 2003, er formaður þjóðmálanefndar SUF og sit í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður. Skrif mín hafa aðallega birst á vefsíðu Framsóknarflokksins http://www.blogger.com/www.timinn.is. Hef ég haldið þeim saman á síðunni http://www.blogger.com/www.gesturgudjonsson.blogspot.com ásamt öðrum skrifum.


Ég er í sambúð með Heiðrúnu Pálsdóttur stjórnmálafræðingi og á 5 ára dóttur.

Hreyfingarleysi, reykingar og misnotkun áfengis og vímuefna eru stórt heilsufarslegt og félagslegt vandamál um allan heim. Er Ísland engin undantekning þar og þarf að gera enn betur í þeim málaflokki.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera varamaður í áfengis- og vímuvarnaráði og hef tekið þátt í starfi þess sem slíkur. Á þeim vettvangi er mikið og þarft starf unnið en nauðsynlegt er að gera enn betur og er samvinna lykilorðið í því sambandi. Samvinna við að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd einstaklinganna sem þá hafa sterkari bein til að standast ágang þeirra sem ýta undir þennan ófögnuð og sterkari bein til að hjálpa öðrum við að hætta á þeirri braut. Eru foreldrar, ásamt skólum, tómstundaaðilum, borginni, lögreglu og fleiri aðilum lykillinn að árangri á þessum vettvangi. Góð samvinna allra aðila og samstillt vinnubrögð skila bestum árangri og er forgangsatriði að auka hana enn frekar.

Í starfi mínu með ungmennafélags- og íþróttahreyfingunni hef ég lært að meta mannbætandi gildi íþrótta og þarf sífellt að halda áfram á þeirri braut að ýta undir mannbætandi tómstundastarfsemi og hreyfingu fólks á öllum aldri. Er sama hvort sem það er á vettvangi íþrótta, útivistar, á vettvangi listiðkunnar, skáta, KFUM og K, eða hvers annars. Þarna þarf borgin að sýna frumkvæði eins og hún hefur verið að gera, með öflugu starfi ÍTR og góðu neti stuðnings og meðferðarúrræða fyrir þá sem villast af braut.

Sjá grein um æfingaaðstöðu tónlistarmanna
Sjá einnig greinar í tímanum um áfengisauglýsingar og reykingar á veitingastöðum

Nú við lok framboðsfrests bættist heldur betur í frambjóðendahópinn og á endanum buðu 11 manns sig fram. Er greinilegt að mikil gróska er í Framsóknarflokknum í Reykjavík og verður prófkjörsbaráttan vonandi skemmtileg, jákvæð og málefnaleg. Ég hef fengið afar góð viðbrögð við mínu framboði úr ýmsum áttum og er ég bara brattur varðandi framhaldið. En kálið er ekki sopið fyrr en í ausuna er komið og eru mörg handtök, símtöl og samtöl eftir.

Prófkjör framsóknarmanna í Reykjavík verður haldið laugardaginn 28. janúar 2006. Rétt til að kjósa í prófkjörinu hafa allir félagar í framsóknarfélögunum í Reykjavík ásamt öllum þeim Reykvíkingum sem skrifa undir yfirlýsingu þess efnis, að þeir aðhyllist stefnu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Til að kjósa í prófkjörinu þurfa þátttakendur að hafa náð 18 ára aldri þegar borgarstjórnarkosningarnar fara fram, þann 27. maí 2006.
Utankjörfundarkosning verður á skrifstofu Framsóknarflokksins að Hverfisgötu 33 milli kl. 09.00 og 17.00 dagana 23. til 27. janúar, og frá kl. 20.00 til 22.00 á miðvikudeginum og fimmtudeginum.

Í prófkjörinu verða valdir frambjóðendur í sex efstu sæti framboðslista Framsóknarflokksins til borgarstjórnar Reykjavíkur. Skilyrði er að í fjórum efstu sætunum skal vera jafnt kynjahlutfall þ.e. 2 karlmenn og 2 konur. Niðurstöðurnar eru bindandi fyrir tvö efstu sætin en leiðbeinandi fyrir næstu fjögur.

Á vettvangi umhverfismála er af mörgu að taka, þar á meðal er hið sýnilega umhverfi og verndun þess, áhrif orkuöflunar, vatnsöflun og dreifing þess, fráveita og viðtakar hennar, úrgangssöfnun og meðhöndlun þess.

Það hugtak sem varðar leiðina í þessum málaflokki er staðadagskrá 21. Inntaki hennar má best lýsa með kenýskum málshætti: Við erfum ekki umhverfi okkar, við fáum það að láni hjá afkomendum okkar.

Á vettvangi hins sýnilega umhverfis hefur undanfarin ár verið lyft Grettistaki og eru gamlar myndir, eins og þær sem birtast til dæmis í hinum merku bókum um Sögu Reykjavíkur, hvað besti vitnisburðurinn um það. Trjárækt er sjálfsagður hluti af borgarmyndinni í dag og mætti án þess að ýkja mikið telja höfuðborgarsvæðið einn af stærstu skógum landsins. Útivistarsvæði eins og Elliðaárdalurinn, Heiðmörk og strandlengjan eru perlur sem hægt er að öfunda okkur af og er eðlilegt að haldið verði áfram á sömu braut, t.d. við Korpu, við Rauðavatn og enn betur verði gert í kringum Esjuna, með stígagerð, plöntun og verndun svæða. Gera þarf borgarminjum hátt undir höfði með verndun þeirra, bættu aðgengi, merkingum og greinargóðum lýsingum á þeim fyrir vegfarendur.

Hreint vatn er mikil auðlind, sem okkur ber öllum skylda til að standa vörð um, hvort sem við nýtum það nú eður ei. Í dag er drykkjarvatni okkar aflað af Heiðmerkursvæðinu en nauðsynlegt er að horft sé til fleiri svæða um leið og verndun þess svæðis er tryggð. Gott starf hefur verið unnið í verndunarmálum í Heiðmörk og stenst vatnið og dreifing þess ströngustu kröfur. Þrátt fyrir það verður að taka tillit til þess að svæðið er virkt, þannig að möguleikar eru á því að það spillist, t.d. vegna jarðhræringa. Er því eðlilegt að Orkuveitan hugi einnig að öðrum vatnsöflunarkostum, eins og t.d. á vatnasvæði Þingvallavatns. Þar þarf að sjálfsögðu að fara að öllu með gát, svo umhverfisáhrif verði lágmörkuð.

Reykjavíkurborg tók afar skynsamlega stefnu í fráveitumálum borgarinnar, með lagningu söfnunarkerfis þar sem vatni úr fjöldamörgum skólpútrásum, sem áður runni óhreinsaðar til sjávar, var veitt í tvær hreinsistöðvar. Þar eru föst og fljótandi óhreinindi hreinsuð úr vatninu og hreinsimáttur Atlantshafsins svo nýttur til að vinna á því sem eftir er þegar því hefur verið dælt fjarri ströndinni. Þetta er ekki líkt því eins mikil hreinsun og þær borgir sem búa við þrengri kosti í viðtökum þurfa að kosta til, en vöktun undanfarinna ára sannar að um rétta ákvörðun var að ræða. Aftur á móti þarf að gera betur í að hreinsa regnvatn, sérstaklega það vatn sem veitt er í ferskvatn, Elliðaárnar, Korpu og nú Elliðavatn. Gera þarf átak í að ná þungmálmum úr því vatni ásamt öðrum skaðlegum efnum til að vernda viðkvæmt lífríki þessara svæða.

Með stofnun Sorpu hefur meðhöndlun sorps verið færð inn í nútímann. Er rekstur söfnunarstöðva fyrirtækisins til mikillar fyrirmyndar, en þó þarf að fjölga móttökustöðum fyrir daglegan úrgang eins og pappír og gler, svo flokkun úrgangs verði okkur auðveldari. Eins þarf að huga að því að hætta urðun og hefja brennslu sorps til nýtingar á orkunni úr því. Umhverfisáhrif urðunar eru mun meiri en af brennslu vegna losunar gróðurhúsalofttegunda auk þess sem mikið land fer undir urðunina. Land sem illa er hægt að nýta aftur.

Sjá grein um umhverfismál innan borgarmarkanna sem birtist í Morgunblaðinu
Sjá einnig greinar í tímanum um mengunarbótaregluna í úrgangssöfnun, olíugjaldið og Kyotobókunina, Sölu Landsvirkjunnar, grein um verndun Þjórsárvera sem og umhverfisstefnu Framsóknarflokksins sem ég átti töluverðan þátt í að undirbúa fyrir síðasta flokksþing.

Sjá svar sem ég gaf á vísindavefinn um viðbrögð við olíuslysum

28 desember 2005

Breytingar á leiðakerfi Strætó bs

Nú hefur stjórn Strætó bs tilkynnt að til standi breytingar á leiðarkerfi þess. Er það vel og í samræmi við það sem kynnt var, að hlustað yrði á raddir þeirra sem nýttu sér þjónustu strætisvagnanna.

Það hefur verið áhyggjuefni margra hversu lítið almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu er nýtt og geta verið margar ástæður fyrir því.

Fyrir það fyrsta er velmegun mikil og bílaeign á Íslandi meiri en þekkist, þannig að meira og minna hver fullorðinn einstaklingur sem getur ekið bíl, á bíl eða hefur aðgang að bíl til að sinna ferðaþörfum sínum. Það er staðreynd sem taka verður tillit til og því er eðlilegt að skoða hvort farið hafi verið af stað með réttar forsendur og rétt markmið í þá breytingu sem gerð var á leiðarkerfinu í sumar og hvort ekki þurfi að endurskoða það á ný.

Flestir foreldrar kannast við að þurfa að vera á eilífum þönum með börn sín; í skóla, á æfingar og annað tómstundastarf, jafnvel þótt það sé innan eigin hverfis. Í því veðurfari sem við búum við og þeim tíðaranda sem ríkir í dag, er þess vegna minna um að börn gangi til þessara starfa sinna en tilfellið er víða erlendis og minna en áður var. Í þetta fer mikill tími fyrir foreldra og talsvert stór hluti þeirrar umferðar sem er á gatnakerfi borgarinnar er slík umferð, sem hægt væri að minnka til muna, með minnkandi kostnaði og fyrirhöfn fyrir foreldra, minna sliti á götum borgarinnar og auknum þægindum fyrir alla.

Annar stór notendahópur eru eldri borgarar og aðrir þeir sem ekki treysta sér til eða geta ekið bíl. Þeir þurfa að sækja sér þjónustu í verslunum og sinna allra handa félagsstarfi og vinnu. Er nauðsynlegt að samfélagið veiti þessum þegnum sínum þá þjónustu sem þeir þurfa. Góðir ferðamöguleikar bæta lífsgæði þeirra og gera það að verkum að eldri borgarar geta treyst sér til þess að búa heima hjá sér lengur, með fullri reisn án þess að þurfa að vera upp á aðra komnir með ferðalög. Því lengur sem fólk getur búið á eigin heimili því betra fyrir alla og góð hliðarverkun af því er minni þörf á sértækum úrræðum fyrir eldri borgara, hjúkrunarheimili og þess háttar.

Er því eðlilegt að leiðarkerfið verði endurskoðað frá grunni með þessi sjónarmið að leiðarljósi. Innan hvers hverfis verði settar upp þjónustuleiðir, sem gegni bæði hlutverki skólabíls og þjónustubíls fyrir eldri borgara og þeirra sem ekki geta ekið bíl eða gengið til þeirrar þjónustu sem í boði er innan hverfisins.

Í hverju hverfi verði skiptistöð og á milli skiptistöðva gangi svo hraðleiðir stærri bíla sem flytji fólk milli borgarhverfa. Á þennan hátt er hægt að vera með minni bíla innan hverfanna, sem eru ódýrari í innkaupum og rekstri, menga minna og fara betur í umferðinni og auðveldara er að ganga um með kerrur og vagna. Þeir sem svo þurfa að fara á milli borgarhluta fari óhindrað á milli þeirra án endalausra stoppa á stoppistöðum í þeim hverfum sem leið þeirra liggur um með tilheyrandi töfum.

Á þennan hátt tel ég að hægt væri að gera strætó að mun betri kosti fyrir alla þá sem vilja og þurfa að nota sér þjónustu almenningssamgangna án þess að kostnaður aukist fyrir samfélagið í heild. Vel þarf að skoða hugmyndir um að gera kerfið gjaldfrjálst, jafnvel með aðkomu ríkisins, sem byggir og rekur flesta þá vegi sem þyngsta umferðin er um í borginni og þarfnast helst fjárfestinga og myndu því spara talsverðar fjárhæðir ef umferðin minnkaði eða amk drægi úr aukningunni. Kerfið yrði einfaldara í uppbyggingu og aðgengilegra öllum og strætó getur þannig orðið að raunverulegum valkosti við 2. eða 3. bíl barnaheimila og minnkað heildarumferð um borgina sem ekki þarf að tíunda að sé göfugt og þarft markmið og öllum til hagsbóta, notendum kerfisins sem og öðrum ferðalöngum.