Á vettvangi umhverfismála er af mörgu að taka, þar á meðal er hið sýnilega umhverfi og verndun þess, áhrif orkuöflunar, vatnsöflun og dreifing þess, fráveita og viðtakar hennar, úrgangssöfnun og meðhöndlun þess.
Það hugtak sem varðar leiðina í þessum málaflokki er staðadagskrá 21. Inntaki hennar má best lýsa með kenýskum málshætti: Við erfum ekki umhverfi okkar, við fáum það að láni hjá afkomendum okkar.
Á vettvangi hins sýnilega umhverfis hefur undanfarin ár verið lyft Grettistaki og eru gamlar myndir, eins og þær sem birtast til dæmis í hinum merku bókum um Sögu Reykjavíkur, hvað besti vitnisburðurinn um það. Trjárækt er sjálfsagður hluti af borgarmyndinni í dag og mætti án þess að ýkja mikið telja höfuðborgarsvæðið einn af stærstu skógum landsins. Útivistarsvæði eins og Elliðaárdalurinn, Heiðmörk og strandlengjan eru perlur sem hægt er að öfunda okkur af og er eðlilegt að haldið verði áfram á sömu braut, t.d. við Korpu, við Rauðavatn og enn betur verði gert í kringum Esjuna, með stígagerð, plöntun og verndun svæða. Gera þarf borgarminjum hátt undir höfði með verndun þeirra, bættu aðgengi, merkingum og greinargóðum lýsingum á þeim fyrir vegfarendur.
Hreint vatn er mikil auðlind, sem okkur ber öllum skylda til að standa vörð um, hvort sem við nýtum það nú eður ei. Í dag er drykkjarvatni okkar aflað af Heiðmerkursvæðinu en nauðsynlegt er að horft sé til fleiri svæða um leið og verndun þess svæðis er tryggð. Gott starf hefur verið unnið í verndunarmálum í Heiðmörk og stenst vatnið og dreifing þess ströngustu kröfur. Þrátt fyrir það verður að taka tillit til þess að svæðið er virkt, þannig að möguleikar eru á því að það spillist, t.d. vegna jarðhræringa. Er því eðlilegt að Orkuveitan hugi einnig að öðrum vatnsöflunarkostum, eins og t.d. á vatnasvæði Þingvallavatns. Þar þarf að sjálfsögðu að fara að öllu með gát, svo umhverfisáhrif verði lágmörkuð.
Reykjavíkurborg tók afar skynsamlega stefnu í fráveitumálum borgarinnar, með lagningu söfnunarkerfis þar sem vatni úr fjöldamörgum skólpútrásum, sem áður runni óhreinsaðar til sjávar, var veitt í tvær hreinsistöðvar. Þar eru föst og fljótandi óhreinindi hreinsuð úr vatninu og hreinsimáttur Atlantshafsins svo nýttur til að vinna á því sem eftir er þegar því hefur verið dælt fjarri ströndinni. Þetta er ekki líkt því eins mikil hreinsun og þær borgir sem búa við þrengri kosti í viðtökum þurfa að kosta til, en vöktun undanfarinna ára sannar að um rétta ákvörðun var að ræða. Aftur á móti þarf að gera betur í að hreinsa regnvatn, sérstaklega það vatn sem veitt er í ferskvatn, Elliðaárnar, Korpu og nú Elliðavatn. Gera þarf átak í að ná þungmálmum úr því vatni ásamt öðrum skaðlegum efnum til að vernda viðkvæmt lífríki þessara svæða.
Með stofnun Sorpu hefur meðhöndlun sorps verið færð inn í nútímann. Er rekstur söfnunarstöðva fyrirtækisins til mikillar fyrirmyndar, en þó þarf að fjölga móttökustöðum fyrir daglegan úrgang eins og pappír og gler, svo flokkun úrgangs verði okkur auðveldari. Eins þarf að huga að því að hætta urðun og hefja brennslu sorps til nýtingar á orkunni úr því. Umhverfisáhrif urðunar eru mun meiri en af brennslu vegna losunar gróðurhúsalofttegunda auk þess sem mikið land fer undir urðunina. Land sem illa er hægt að nýta aftur.
Sjá grein um umhverfismál innan borgarmarkanna sem birtist í Morgunblaðinu
Sjá einnig greinar í tímanum um mengunarbótaregluna í úrgangssöfnun, olíugjaldið og Kyotobókunina, Sölu Landsvirkjunnar, grein um verndun Þjórsárvera sem og umhverfisstefnu Framsóknarflokksins sem ég átti töluverðan þátt í að undirbúa fyrir síðasta flokksþing.
Sjá svar sem ég gaf á vísindavefinn um viðbrögð við olíuslysum