Rík réttlætiskennd er innbyggð í okkur Íslendinga og sérstaklega okkur framsóknarmenn. Samhjálp og samvinna hefur frá stofnun flokksins verið höfð að leiðarljós í öllu starfi hans og má með sanni segja að hann megi ekkert aumt sjá.
Mikil umræða hefur verið um velferðarmál undanfarið. Er það vel í öllu góðærinu að staða þeirra sem verst eru settir snerti okkur öll og sýnir eitt af þjóðareinkennum okkar. Staða aldraðra og öryrkja ber þar hæst, en kannski er málum svo komið núna að kjör þeirra séu farin að líða fyrir það hversu lág lægstu launin í samfélaginu eru orðin. Það má hverjum ljóst vera að aldrei má borga sig að hætta að vinna og því verða grunnbætur ávallt að vera eitthvað lægri en lægstu laun. Hér hafa ungir öryrkjar þó sérstöðu eins og þegar hefur verið viðurkennt.
Er eðlilegt skref að hefja átak í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, samninganefnd sveitarfélaganna og ríkið í að hækka lægstu launin þannig að þau séu okkur samboðin, hvort sem það er gert með hækkun launataxta eða breytingum á skattkerfinu. Er eðlilegt skref í því að gerður verði sameiginlegur framfærslugrunnur fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem hægt sé að miða við í allri umræðunni. Reykjavíkurborg ætti að hafa frumkvæði að gerð grunnsins í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög. Mikið af umræðunni hefur snúist um keisarans skegg vegna skorts á þessari sameiginlegu skilgreiningu á lágmarksframfærslu og er hún grundvöllur faglegrar velferðarþjónustu.
Aðstoð við þá sem minna mega sín af einhverjum ástæðum þarf sífellt að efla á vettvangi félagsþjónustunnar og Alþjóðahúss í samvinnu við kirkjuna og önnur samtök sem láta sig málið varða og byggja hana á náungakærleika og virðingu fyrir einstaklingnum þar sem grunnframfærsla sé tryggð og grundvallarþjónusta félagsleg sem andleg. Sérstaka áherslu þarf að leggja á hópa þar sem félagsleg einangrun er algeng, eins og suma hópa innflytjenda, aldraða og fatlaða.
Sjá grein um launajafnrétti og barnafjölskyldur
Sjá einnig greinar sem ég skrifaði á tímann um persónubundinn persónuafslátt og misnotkun á velferðarkerfinu