HAGIR:
Nafn: Gestur Guðjónsson
Fæddur: Já, 30. júní 1972
Foreldrar: Guðjón Vigfússon og Valgerður Auðunsdóttir, bændur að Húsatóftum á Skeiðum
Fjölskylda: Er í sambúð með Heiðrúnu Pálsdóttur stjórnmálafræðingi og á eina 5 ára dóttur.
MENNTUN:
Ég gekk í barnaskóla í Brautarholtsskóla á Skeiðum til 12 ára aldurs, í gagnfræðaskóla í Flúðaskóla í Hrunamannahreppi í 7-9. bekk sem þá hét svo.
Að því loknu fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og útskrifaðist sem stúdent af eðlisfræðibraut, tæknistúdent og lauk bóklegum hluta húsasmíðanáms árið 1992. Tók þátt í stærðfræðikeppnum fyrir hönd skólans og komst lengst á ólympíuleikana í stærðfræði sem haldnir voru í Sigtuna í Svíþjóð. (Árið áður voru þeir haldnir í Kína og árið á eftir á Kúbu! Svona getur maður verið mismunandi heppinn)
Haustið 1992 sigldi ég ásamt tveimur öðrum nýstúdentum til náms í Álaborg í Danmörku með Dísarfellinu. Þar lagði ég stund á umhverfisverkfræði. Lauk ég mastersprófi í umhverfisverkfræði þaðan árið 1998. Lokaritgerðin fjallar um lífrænt niðurbrot skólps í fráveitulögnum og áhrif þess á hreinsistöðvar og viðtaka. Birtist grein sem ég vann upp úr ritgerðinni í Water Science & technology árið 2001.
STÖRF:
Sem krakki og unglingur vann ég almenn sveitastörf á búi foreldra minna og síðan eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Árið 1988 fór ég á samning í húsasmíði hjá Samtak hf, Selfossi og vann á sumrin með skóla hjá því fyrirtæki og lauk þeim samningi um leið og ég útskrifaðist úr fjölbraut 1992. Sumarið eftir vann ég hjá SG einingahúsum, en enn hef ég ekki haft tækifæri til að klára sjálft sveinsprófið, enda voru þau próf haldin á þeim tímum þegar ég var úti í Danmörku að læra en ekki á sumrin.
Sumarið 1994 vann ég hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurland að verkefninu Hreint Suðurland. Fór ég á flesta bóndabæi á Suðurlandi og kannaði umhverfismál hjá þeim. Vatnsveitur, fráveitur, úrgangsmeðhöndlun og meðhöndlun spilliefna. Í tengslum við þá vinnu skrifaði ég leiðbeiningar um frágang rotþróa, sem Heilbrigðiseftirlitið gaf út.
Veturinn 1995 hóf ég störf við kerfisstjórnun með skóla hjá vélsmiðjunni Danfotech Nutridan í Álaborg í Danmörku, sem í dag heitir SFK Meat Systems og framleiðir vélar í sláturhús og kjötvinnslur. Vann ég hjá þeim til 1998 og kynntist vel dönskum framleiðsluiðnaði og ferilstýringu sem hefur reynst mér dýrmæt reynsla.
Árið 1998 hóf ég störf sem umhverfis- og öryggisfulltrúi Olíudreifingar og gegni ég því starfi enn. Felst stafið í yfirumsjón með öryggis-, umhverfis- og gæðamálum fyrirtækisins ásamt því að sinna samskiptum við yfirvöld á því sviði um allt land, en þau eru fjöldamörg, enda rekstur fyrirtækisins fjölbreyttur og viðamikill. Hef ég setið í nokkrum starfshópum og nefndum fyrir hönd Samtaka atvinnulífisins, sérstaklega á sviði flutnings á hættulegum varningi og á sviði mengunarvarna við meðhöndlun olíu.
FÉLAGSSTÖRF:
Sem unglingur var ég virkur í ungmennafélagshreyfingunni, æfði sund og frjálsar íþróttir sem krakki en seinna frjálsar og blak. Komust Skeiðamenn meira að segja í 1. deildina í blaki en um árangurinn þann veturinn er best að hafa sem fæst orð.
Eftir heimkomuna frá Danmörku hóf ég fljótlega að sýna stjórnmálum áhuga. Var Framsóknarflokkurinn eðlilegt val, þar sem hægrimennska á ekki við mig og ég gat ekki hugsað mér að Ísland yrði eins og Danmörk með sitt kratavelferðarkerfi. Þar kynntist maður samfélagi þar sem atvinnuþátttaka er lítil og velferðarkerfi sem dregur mikið úr vilja fólks til að bjarga sér sjálft með vinnu og litlum möguleikum á að koma ár sinni fjárhagslega fyrir borð vegna mikillar skattheimtu.
Á vettvangi flokksins hef ég starfað í stjórn SUF, setið í miðstjórn flokksins og verið virkur í málefnastarfinu, bæði fyrir flokksþing og á borgarvettvangi. Stýrði ég ásamt öðrum starfshópum um byggðir og umhverfi fyrir síðasta flokksþing og starfshópi um skipulagsmál fyrir kjördæmissambandsþing. Síðustu tvo vetur hef ég skrifað reglulega á vefrit flokksins, www.timinn.is, um það sem helst er á baugi þá stundina.
ÁHUGAMÁL:
Áhugamálin eru fjölmörg og er pólitík sú sem mest fer fyrir þessa stundina. Ég reyni að nota allar afsakanir til að komast út í náttúruna; stangveiði, fjallaferðir og gönguferðir eru þær mest notuðu. Áður en ég stofnaði fjölskyldu var ég mikið í tónlist, söng í kórum og með hljómsveitum, þótt heimsfrægðin hafi aldrei verið innan seilingar. Svo finnst mér gaman að elda góðan mat og borða hann í góðum félagsskap.