Gestur Guðjónsson

30 desember 2005

Félagsstarfið


Um leið og stjórnmálaflokkur stillir fulltrúum sínum á framboðslista til að framfylgja stefnumálum sínum í sveitarstjórnar- og landsmálum er nauðsynlegt fyrir fulltrúana að hlusta á rödd félagsmanna, enda er flokkurinn þeir félagsmenn sem eru í flokknum á hverjum tíma.

Ég legg mikla áherslu á að það verði gert með skipulegum hætti af hendi borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins, komist ég í hann. Fulltrúar flokksins fá að sjálfsögðu vel ígrunduð sjónarmið starfsmanna borgarinnar og sjónarmið annarra flokka við afgreiðslu mála, en rödd félagsmanna verður að vera leiðarljós sem fulltrúar þeirra þurfa að hafa í sínum störfum.

Á sama hátt þurfa fulltrúarnir að fræða félagsmenn um þau mál sem í gangi eru hverju sinni og forsendur fyrir þeim ákvörðunum sem fyrir liggja eða teknar hafa verið, svo félagsmenn hafi aftur möguleika á að standa fast að baki fulltrúum sínum.

Er því nauðsynlegt að endurvekja spjall framsóknarmanna á laugardagsmorgnum eða á öðrum tímum sem hentugir kunna að vera. Auk þess verður að nýta kjördæmissambandsþingin og aðdraganda þeirra betur til málefnastarfs.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home