Gestur Guðjónsson

30 desember 2005

Forvarnir

Hreyfingarleysi, reykingar og misnotkun áfengis og vímuefna eru stórt heilsufarslegt og félagslegt vandamál um allan heim. Er Ísland engin undantekning þar og þarf að gera enn betur í þeim málaflokki.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera varamaður í áfengis- og vímuvarnaráði og hef tekið þátt í starfi þess sem slíkur. Á þeim vettvangi er mikið og þarft starf unnið en nauðsynlegt er að gera enn betur og er samvinna lykilorðið í því sambandi. Samvinna við að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd einstaklinganna sem þá hafa sterkari bein til að standast ágang þeirra sem ýta undir þennan ófögnuð og sterkari bein til að hjálpa öðrum við að hætta á þeirri braut. Eru foreldrar, ásamt skólum, tómstundaaðilum, borginni, lögreglu og fleiri aðilum lykillinn að árangri á þessum vettvangi. Góð samvinna allra aðila og samstillt vinnubrögð skila bestum árangri og er forgangsatriði að auka hana enn frekar.

Í starfi mínu með ungmennafélags- og íþróttahreyfingunni hef ég lært að meta mannbætandi gildi íþrótta og þarf sífellt að halda áfram á þeirri braut að ýta undir mannbætandi tómstundastarfsemi og hreyfingu fólks á öllum aldri. Er sama hvort sem það er á vettvangi íþrótta, útivistar, á vettvangi listiðkunnar, skáta, KFUM og K, eða hvers annars. Þarna þarf borgin að sýna frumkvæði eins og hún hefur verið að gera, með öflugu starfi ÍTR og góðu neti stuðnings og meðferðarúrræða fyrir þá sem villast af braut.

Sjá grein um æfingaaðstöðu tónlistarmanna
Sjá einnig greinar í tímanum um áfengisauglýsingar og reykingar á veitingastöðum

2 Comments:

At 16 janúar, 2006 19:19, Anonymous Nafnlaus said...

Hvað er þín skoðun á börnum og unglingum sem velja annan vettvang en íþróttir sem áhugamál, svo sem tónlist á öllum sviðum og hvað á að gera til að þau fái vettvang eða aðstöðu til að stunda sína yðju.

 
At 17 janúar, 2006 01:35, Blogger Gestur Guðjónsson said...

Sæll nafnlausi lesandi.
Ég fæ ekki séð muninn á því hvort um sé að ræða íþróttir, tónlist, dans, skátastarf og svo framvegis. Allt er þetta starf sem byggir upp einstaklinginn og undirbýr hann til þess að taka þátt í lífinu á jákvæðan hátt.
Ég sé besta vettvanginn fyrir þetta starf í húsnæði skólanna og félagsmiðstöðva þar sem hægt er að koma því við. Þar sem því verður ekki við komið, þurfa almenningssamgöngur og stígakerfið að vera með þeim hætti að auðvelt sé að fara á milli staða innan hverfisins og milli hverfa ef þess er þörf.
Ég var að brasa við kórsöng sem gat farið fram hvar sem er, en hljómsveitabraskinu var úthýst þangað til að við enduðum langt uppi í sveit. Ég bjó í Danmörku í nokkur ár og þar tók sveitarfélagið sem ég bjó í af skarið, innréttaði og hljóðeinangraði gamlan ónotaðan skóla sem svo var leigður út til hljómsveita, 2-3 grúppur í hverju herbergi. Þarna myndaðist frábær stemming, nágrannar kvörtuðu ekki enda reglur um spilerý til kl 22 og hljóðeinangrun sem dugði, hægt að fá lánaða spilara ef einhver forfallaðist á æfingu og mikil gróska. Þetta er eitthvað sem ég sæi fyrir mér að styðja sem víðast, hvort sem það yrði gert undir kennitölu borgarinnar eða einhvers annars aðila sem sæi um að þetta færi allt sómasamlega fram.

 

Skrifa ummæli

<< Home