Gestur Guðjónsson

30 desember 2005

Tilkynning um framboð

Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga, þar sem Framsóknarflokkurinn býður fram lista undir eigin merkjum í fyrsta skipti í meira en áratug, bíður stuðningsmanna flokksins í Reykjavík mikilvægt verkefni, að stilla upp góðum lista frambjóðenda.


Framsóknarflokkurinn getur verið stoltur af verkum sínum í samstarfi R-listans og má þar nefna hið risavaxna verkefni sem yfirtaka og einsetning grunnskólans var, sameiningu veitufyrirtækja borgarinnar í Orkuveitu Reykjavíkur, glæsilegri uppbyggingu leikskóla borgarinnar, að ekki sé minnst á hreinsun strandlengjunnar. Hreinsun strandlengjunnar er eitt stærsta umhverfismál sem borgin hefur ráðist í á seinni árum og hefur ekki hlotið verðskuldaða eftirtekt, en megnið af mengun sjávar kemur frá landi og þjóð, sem byggir mikinn hluta afkomu sinnar á matvælaframleiðslu. Þeir sem búa við slíkar aðstæður mega ekki fyrir nokkurn mun menga umhverfi sitt, umhverfisins vegna og einnig af því að það getur skaðað orðspor afurða þeirra.


Skipulagsmál, þ.á m. skipulag umferðar og byggingarlands, er málaflokkur sem kemur öllum við og ljóst að umræðu um skipulagsmál lýkur aldrei. Á þeim vettvangi bíða mörg spennandi verkefni sem einungis verða leyst með því að hlusta á öll sjónarmið og reyna að taka tillit til sem flestra um leið og hagsmunir heildarinnar eru tryggðir. Má þar nefna umræðuna um Vatnsmýrina, Sundabraut og endurbyggingu Miklubrautar og Hringbrautar.
Það er til að halda áfram þessum og öðrum góðu verkum og vegna brennandi áhuga á borgarmálum sem ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína fyrir Framsóknarflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum. Býð ég mig fram í 3. sæti listans í prófkjöri flokksins sem fram fer þann 28. janúar næstkomandi.


Ég er 33 ára, með meistaragráðu í umhverfisverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku og hef starfað sem umhverfis- og öryggisfulltrúi hjá Olíudreifingu ehf. síðan 1998. Í námi mínu fékk ég auk umhverfismála góða innsýn í skipulags-, umferðar- og orkumál. Hef ég í starfi mínu hjá Olíudreifingu aflað mér afar víðtækrar reynslu í umhverfis-, öryggis- og gæðamálum í fjölbreyttum rekstri fyrirtækisins. Einnig hef ég sinnt samskiptum við yfirvöld og eftirlitsaðila, innlenda sem erlenda, og setið í nefndum og starfshópum á starfssviði mínu fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, sérstaklega í málum er varða flutning á hættulegum efnum.
Framsóknarflokkurinn hefur verið minn stjórnmálavettvangur frá því að ég fór að sinna þeim áhuga mínum og hef verið virkur í málefnastarfi á landsvísu og í borgarmálum. Ég hef átt sæti í miðstjórn flokksins frá árinu 2001, í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, SUF, frá 2003, er formaður þjóðmálanefndar SUF og sit í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður. Skrif mín hafa aðallega birst á vefsíðu Framsóknarflokksins http://www.blogger.com/www.timinn.is. Hef ég haldið þeim saman á síðunni http://www.blogger.com/www.gesturgudjonsson.blogspot.com ásamt öðrum skrifum.


Ég er í sambúð með Heiðrúnu Pálsdóttur stjórnmálafræðingi og á 5 ára dóttur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home