Nú hefur stjórn Strætó bs tilkynnt að til standi breytingar á leiðarkerfi þess. Er það vel og í samræmi við það sem kynnt var, að hlustað yrði á raddir þeirra sem nýttu sér þjónustu strætisvagnanna.
Það hefur verið áhyggjuefni margra hversu lítið almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu er nýtt og geta verið margar ástæður fyrir því.
Fyrir það fyrsta er velmegun mikil og bílaeign á Íslandi meiri en þekkist, þannig að meira og minna hver fullorðinn einstaklingur sem getur ekið bíl, á bíl eða hefur aðgang að bíl til að sinna ferðaþörfum sínum. Það er staðreynd sem taka verður tillit til og því er eðlilegt að skoða hvort farið hafi verið af stað með réttar forsendur og rétt markmið í þá breytingu sem gerð var á leiðarkerfinu í sumar og hvort ekki þurfi að endurskoða það á ný.
Flestir foreldrar kannast við að þurfa að vera á eilífum þönum með börn sín; í skóla, á æfingar og annað tómstundastarf, jafnvel þótt það sé innan eigin hverfis. Í því veðurfari sem við búum við og þeim tíðaranda sem ríkir í dag, er þess vegna minna um að börn gangi til þessara starfa sinna en tilfellið er víða erlendis og minna en áður var. Í þetta fer mikill tími fyrir foreldra og talsvert stór hluti þeirrar umferðar sem er á gatnakerfi borgarinnar er slík umferð, sem hægt væri að minnka til muna, með minnkandi kostnaði og fyrirhöfn fyrir foreldra, minna sliti á götum borgarinnar og auknum þægindum fyrir alla.
Annar stór notendahópur eru eldri borgarar og aðrir þeir sem ekki treysta sér til eða geta ekið bíl. Þeir þurfa að sækja sér þjónustu í verslunum og sinna allra handa félagsstarfi og vinnu. Er nauðsynlegt að samfélagið veiti þessum þegnum sínum þá þjónustu sem þeir þurfa. Góðir ferðamöguleikar bæta lífsgæði þeirra og gera það að verkum að eldri borgarar geta treyst sér til þess að búa heima hjá sér lengur, með fullri reisn án þess að þurfa að vera upp á aðra komnir með ferðalög. Því lengur sem fólk getur búið á eigin heimili því betra fyrir alla og góð hliðarverkun af því er minni þörf á sértækum úrræðum fyrir eldri borgara, hjúkrunarheimili og þess háttar.
Er því eðlilegt að leiðarkerfið verði endurskoðað frá grunni með þessi sjónarmið að leiðarljósi. Innan hvers hverfis verði settar upp þjónustuleiðir, sem gegni bæði hlutverki skólabíls og þjónustubíls fyrir eldri borgara og þeirra sem ekki geta ekið bíl eða gengið til þeirrar þjónustu sem í boði er innan hverfisins.
Í hverju hverfi verði skiptistöð og á milli skiptistöðva gangi svo hraðleiðir stærri bíla sem flytji fólk milli borgarhverfa. Á þennan hátt er hægt að vera með minni bíla innan hverfanna, sem eru ódýrari í innkaupum og rekstri, menga minna og fara betur í umferðinni og auðveldara er að ganga um með kerrur og vagna. Þeir sem svo þurfa að fara á milli borgarhluta fari óhindrað á milli þeirra án endalausra stoppa á stoppistöðum í þeim hverfum sem leið þeirra liggur um með tilheyrandi töfum.
Á þennan hátt tel ég að hægt væri að gera strætó að mun betri kosti fyrir alla þá sem vilja og þurfa að nota sér þjónustu almenningssamgangna án þess að kostnaður aukist fyrir samfélagið í heild. Vel þarf að skoða hugmyndir um að gera kerfið gjaldfrjálst, jafnvel með aðkomu ríkisins, sem byggir og rekur flesta þá vegi sem þyngsta umferðin er um í borginni og þarfnast helst fjárfestinga og myndu því spara talsverðar fjárhæðir ef umferðin minnkaði eða amk drægi úr aukningunni. Kerfið yrði einfaldara í uppbyggingu og aðgengilegra öllum og strætó getur þannig orðið að raunverulegum valkosti við 2. eða 3. bíl barnaheimila og minnkað heildarumferð um borgina sem ekki þarf að tíunda að sé göfugt og þarft markmið og öllum til hagsbóta, notendum kerfisins sem og öðrum ferðalöngum.