Mörg verkefni eru framundan í skipulagsmálum.
Grundvallarverkfæri í skipulagsmálum borgarinnar er aðalskipulag borgarinnar og svæðisskipulag Höfuðborgarsvæðisins, sem sífellt þarf að vera í endurskoðun og taka tillit til þarfa nútímans en ekki síður þarf að horfa til framtíðar og þeirrar þróunar sem fyrirsjáanleg er, þannig að allra hagsmuna sé gætt.
Grunnhugtak í skipulagsmálum og þjónustu borgarinnar tel ég eigi að vera hverfavæðing. Reykjavík er orðin það fjölmenn og stór að full þörf er orðin á að hverfisvæða hana, eins og þegar er reyndar byrjað á, en þá hugsun verður að útfæra frekar og hrinda í framkvæmd af krafti, þannig að íbúar geti sótt alla sína þjónustu innan hverfisins, ef þeir þess kjósa. Á þann hátt er ýtt undir hverfaanda, tilfinningu íbúa fyrir sínu hverfi, samkennd, um leið og dregið er úr umferð.
Fólksfjölgun og fækkun einstaklinga á hverju heimili kalla á stöðuga þörf fyrir nýtt íbúðarhúsnæði og verður að taka tillit til þess og tryggja stöðugt lóðaframboð með tilheyrandi þjónustu og samgöngumannvirkjum.
Einhverja fjölgun íbúða er hægt að fá með þéttingu núverandi byggðar og frekari nýtingu Vatnsmýrarinnar en óhjákvæmilegt er að ryðja nýtt land undir byggð. Úlfarsfellið er eðlilegur og skynsamlegur valkostur fyrir framtíðarþróun byggðar um leið og önnur svæði eru tekin frá fyrir framtíðina. Stöðugt þarf að tryggja þarf nægjanlegt framboð á lóðum bæði til íbúðarbyggðar og atvinnurekstrar og á að selja þær hæstbjóðanda. Með nægu framboði er hægt að koma í veg fyrir ofurverð á lóðum um leið og borgin og borgarbúar fá að njóta markaðsverðsins með uppboðsleiðinni en ekki þeir sem fá úthlutað lóðum á spottprís.
Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins átti sér stað góð umræða um innanlandsflugið og flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Var þar samþykkt ályktun um að flugvöllurinn skuli vera í Vatnsmýrinni. Afar skynsamleg ákvörðun, sem lokaði þó ekki fyrir möguleika á að svæðið yrði þróað áfram. Eðlilegt er að skoða gaumgæfilega þann möguleika að lengja austur-vesturbrautina til sjávar og stytta eða leggja norður-suðurbrautina af. Með því losnar ekki einungis mikið land í Vatnsmýrinni heldur verður þá um leið hægt að byggja hærra í miðbænum og þannig stórauka nýtingarmöguleika þess lands sem í miðbænum er. Þá fáu daga sem austur-vesturbrautin væri ófær og innanlandsflug lægi ekki niðri vegna skilyrða á öðrum flugvöllum er hægt að nýta Keflavíkurflugvöll sem varaflugvöll. Með þessu er tekið tillit til beggja sjónarmiða, bæði þeirra sem skilja stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar og vilja áframhaldandi hagkvæman rekstur innanlandsflugsins og þeirra sem vilja efla miðborgina með þróun byggðar í Vatnsmýrinni.
Framkvæmdir í umferðarmannvirkjum eru og verða einn meginþátturinn í starfi skipulags borgarinnar á komandi kjörtímabili, er þar mikil þörf og nauðsynlegt að gera enn betur en gert hefur verið, enda gersamlega óviðunandi að við missum 1 af hverjum 10.000 íslendingum í bílslysum á hverju ári. Bygging Sundabrautar er eitt mikilvægasta verkefnið og hef ég áður lýst skoðun minni á hvaða leið sé skynsamlegast að fara, ytri leiðina, hvort heldur er í hábrú, lágbrú með opnun fyrir skip eða göng, sjá grein mína um það mál í tímanum.
Sjá greinina "segjum nei við bílslysum"
Sjá einnig grein í tímanum um forgangsröðun í samgöngumálum og umferðaröryggi