Ég las mikla snilldargrein eftir Bjarna Harðarson í Blaðinu í gær og læt hana flakka hér í leyfisleysi.
DV er óvinsælasta fyrirtæki landsins samkvæmt nýlegri könnun sem sagt var frá í síðustu viku. Þarf engan að undra og raunar ekki að búast við mikilli breytingu í þeim
efnum þó svo að þeir kumpánar Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason hafi verið sendir heim. Eftir sitja á blaði þessu nokkrir alræmdir stéttarbræður sem við íslenskir
blaðamenn hljótum ár og síð að skammast okkur fyrir.
Lítið fer fyrir nýju ritstjórunum á blaði þessu og sennilegast að þeir séu atkvæðalitlir þarna innanborðs. Hitt er dagljóst að Eiríkur Jónsson, Jakob Bjarnar og þeirra líkar ganga þarna lausbeislaðir sem fyrr. Andi Gunnars Smára Egilssonar svífur nú sem fyrr yfir þeim vötnum sem þarna falla fram, mórauð og illa þefjandi.
Skömm blaðamannastéttarinnar
Ég hef verið spurður,- af hverju ég sé að æsa mig yfir slík um smámunum eins og DV? Hvort ég eigi þar einhverra harma að hefna persónulega? Svarið er já. Ég er blaðamaður, búinn að tilheyra þeirri stétt manna í á þriðja áratug og það kemur mér við að innan þessarar stéttar séu óvandaðir menn sem sverta starfsheiður allra blaðamanna. Eftir að ég fyrst gagnrýndi DV menn út af vægast sagt sóðalegum rógburði og lygi um fólk sem býr í Þorlákshöfn, þá hefur það æxlast svo að fjölmargir sem eiga um sárt að binda vegna þessarar blaðaútgáfu hafa haft samband við mig. Sögurnar, harmurinn, tilefnislaus mannorðsmorð og illgirnin, allt er þetta með slík um ólíkindum að engu tali tekur.
Örfáa af þeim sem DV hefur skrifað lygaþvætting um þekki ég persónulega, en til að fyrirbyggja allan misskilning þá get ég varla kallað það að DV hafi skrifað um mig persónulega eða þá sem næst mér standa. Ég tel það ekki með þó að Eiríkur greyið Jónsson hafi nú nýverið reynt að sparka í mig fyrir það að ég skrolli!
Næst mér heggur ef til vill lygafrétt af manni sem sagður er hafa fróað sér á torgi í Kaupmannahöfn. Þar þekki ég vel til fjölskyldu mannsins og veit hve þungbær þessi þvættingur er mörgu af hans góða fólki.
Er skiptandi við þá menn?
Í landinu eru til mörg ódó, illmenni, fantar og fól. Alls konar rógberar, lygamerðir og hafa alltaf verið. Og það er misskilningur að hægt sé að koma í veg fyrir leiðindin af slíku fólki með opinberum lögum.
Það sem við hljótum alltaf að stóla á fyrst og síðast í þessum efnum er siðferðið. Ekki siðferði fanta og vitleysinga heldur siðferði hinna. Siðferði þeirra sem eru í forystu.
Útgáfa DV væri ekki merkileg ef að blað þetta væri gefið út af Eiríki Jónssyni og Jakobi Bjarnar persónulega. En útgáfan sætir tíðindum fyrir það að vera í hendi eins virtasta og stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins, 365 miðla.
Fyrir skömmu gekk reiðialda yfir þjóðina í kjölfar sorpfrétta af virtum rithöfundi og fræðimanni á Ísafirði sem í kjölfar þessara frétta tók eigið líf. Jónas og Mikael voru þá
látnir taka pokann sinn en í sama mund kom yfir forstjóri 365 miðla í sjónvarp og lýsti yfir vonbrigðum með að svo vænir menn hafi þurft að taka pokann sinn. Hann er vonandi aleinn vitiborinna Íslendinga um þessa skoðun.
Eigendur 365 miðla sem jafnframt reka besta banka landsins og langbestu matvörukeðjuna hljóta að velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að maður með jafn sjaldgæfar og ég vil meina siðlausar meiningar leiði þetta stóra og mikla menningarfyrirtæki.
Við sem er um ósátt við DV hljótum að velta því fyrir okkur hvort við getum sóma okkar vegna verslað við þá menn sem eiga og ala hjá sér fól. Og siga því daglega að saklausum borgurum.
Höfundur er ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins