Gestur Guðjónsson

28 febrúar 2006

Snilldargrein

Ég las mikla snilldargrein eftir Bjarna Harðarson í Blaðinu í gær og læt hana flakka hér í leyfisleysi.
DV er óvinsælasta fyrirtæki landsins samkvæmt nýlegri könnun sem sagt var frá í síðustu viku. Þarf engan að undra og raunar ekki að búast við mikilli breytingu í þeim
efnum þó svo að þeir kumpánar Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason hafi verið sendir heim. Eftir sitja á blaði þessu nokkrir alræmdir stéttarbræður sem við íslenskir
blaðamenn hljótum ár og síð að skammast okkur fyrir.

Lítið fer fyrir nýju ritstjórunum á blaði þessu og sennilegast að þeir séu atkvæðalitlir þarna innanborðs. Hitt er dagljóst að Eiríkur Jónsson, Jakob Bjarnar og þeirra líkar ganga þarna lausbeislaðir sem fyrr. Andi Gunnars Smára Egilssonar svífur nú sem fyrr yfir þeim vötnum sem þarna falla fram, mórauð og illa þefjandi.

Skömm blaðamannastéttarinnar

Ég hef verið spurður,- af hverju ég sé að æsa mig yfir slík um smámunum eins og DV? Hvort ég eigi þar einhverra harma að hefna persónulega? Svarið er já. Ég er blaðamaður, búinn að tilheyra þeirri stétt manna í á þriðja áratug og það kemur mér við að innan þessarar stéttar séu óvandaðir menn sem sverta starfsheiður allra blaðamanna. Eftir að ég fyrst gagnrýndi DV menn út af vægast sagt sóðalegum rógburði og lygi um fólk sem býr í Þorlákshöfn, þá hefur það æxlast svo að fjölmargir sem eiga um sárt að binda vegna þessarar blaðaútgáfu hafa haft samband við mig. Sögurnar, harmurinn, tilefnislaus mannorðsmorð og illgirnin, allt er þetta með slík um ólíkindum að engu tali tekur.
Örfáa af þeim sem DV hefur skrifað lygaþvætting um þekki ég persónulega, en til að fyrirbyggja allan misskilning þá get ég varla kallað það að DV hafi skrifað um mig persónulega eða þá sem næst mér standa. Ég tel það ekki með þó að Eiríkur greyið Jónsson hafi nú nýverið reynt að sparka í mig fyrir það að ég skrolli!

Næst mér heggur ef til vill lygafrétt af manni sem sagður er hafa fróað sér á torgi í Kaupmannahöfn. Þar þekki ég vel til fjölskyldu mannsins og veit hve þungbær þessi þvættingur er mörgu af hans góða fólki.
Er skiptandi við þá menn?
Í landinu eru til mörg ódó, illmenni, fantar og fól. Alls konar rógberar, lygamerðir og hafa alltaf verið. Og það er misskilningur að hægt sé að koma í veg fyrir leiðindin af slíku fólki með opinberum lögum.
Það sem við hljótum alltaf að stóla á fyrst og síðast í þessum efnum er siðferðið. Ekki siðferði fanta og vitleysinga heldur siðferði hinna. Siðferði þeirra sem eru í forystu.
Útgáfa DV væri ekki merkileg ef að blað þetta væri gefið út af Eiríki Jónssyni og Jakobi Bjarnar persónulega. En útgáfan sætir tíðindum fyrir það að vera í hendi eins virtasta og stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins, 365 miðla.
Fyrir skömmu gekk reiðialda yfir þjóðina í kjölfar sorpfrétta af virtum rithöfundi og fræðimanni á Ísafirði sem í kjölfar þessara frétta tók eigið líf. Jónas og Mikael voru þá
látnir taka pokann sinn en í sama mund kom yfir forstjóri 365 miðla í sjónvarp og lýsti yfir vonbrigðum með að svo vænir menn hafi þurft að taka pokann sinn. Hann er vonandi aleinn vitiborinna Íslendinga um þessa skoðun.
Eigendur 365 miðla sem jafnframt reka besta banka landsins og langbestu matvörukeðjuna hljóta að velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að maður með jafn sjaldgæfar og ég vil meina siðlausar meiningar leiði þetta stóra og mikla menningarfyrirtæki.
Við sem er um ósátt við DV hljótum að velta því fyrir okkur hvort við getum sóma okkar vegna verslað við þá menn sem eiga og ala hjá sér fól. Og siga því daglega að saklausum borgurum.
Höfundur er ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins

26 febrúar 2006

Það sem má og það sem ekki má - þótt það sé satt

Nýlega var birt niðurstaða könnunar á því hvaða kona væri kynþokkafyllsta kona landsins. Mér er í sjálfu sér slétt sama um niðurstöðuna, en að sá karakter sem lenti í 8. sæti skyldi vera þar og að viðkomandi fjölmiðill skuli ekki sjá sóma sinn í að birta ekki þá niðurstöðu er vítavert. Í 8. sæti lenti nefnilega Solla stirða. Þeir sem kosið hafa Sollu stirðu sem kynþokkafyllstu konu landsins hljóta að vera eitthvað skrítnir í hausnum, en að fjölmiðillinn skuli hafa birt það og ýja þar með að því að hún skuli vera kynvera er fyrir neðan allar hellur. Þetta má einfaldlega ekki, þótt tjáningarfrelsið og allt slíkt heimili það.

21 febrúar 2006

Sala bankanna

Enn og aftur virðast menn ná að særa fram umræðu um sölu Búnaðarbankans. Hvatirnar eru augljósar.

Höfum eitt á hreinu um sölu ríkisbankanna.

Búnaðarbankinn var seldur hæstbjóðanda og var greiddur að fullu.
Landsbankinn var seldur lægstbjóðanda og fékk kaupandi afslátt frá því verði.

20 febrúar 2006

Lóðaverð í Úlfarsfelli

Nú er búið að opna tilboð í lóðir í fyrsta svæðið í Úlfarsárdalnum.

Verðin eru afar há, sem segir okkur tvennt. Skipulagið virðist annars vegar falla mönnum vel í geð sem gerir lóðirnar eftirsóknarverðar. Hins vegar er greinilegt af verðinu að það þarf að bjóða fleiri lóðir út hið fyrsta. Markaðurinn er greinilega sveltur.

Gera þarf áætlun um hvenær næstu áfangar verða boðnir út og flýta því eftir föngum.

Aftur á móti verður að blása á þær tillögur að draga eigi um umsóknir eða að úthluta eigi samkvæmt einhverju matskerfi, það felur í sér mun meira óréttlæti en þessi aðferð, en hugsanlega má hugsa sér að setja eigi inn ákvæði um að einungis megi veita eina einbýlishúsalóð á hvern einstakling, þótt auðvelt sé að fara í kringum það með kennitölusöfnun.

Vonandi fer þessi maður ekki á húrrandi hausinn með þetta.

09 febrúar 2006

Þungaflutningar

Mikils tvískinnungs gætir í umræðunni um þungaflutninga.

Fyrir það fyrsta hafa strandflutningar ekki lagst af. Olía, lýsi, mjöl og talsvert af frystum fiski er fluttur sjóleiðina og stóru skipafélögin hafa viðkomu í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum á leið til og frá landinu. Allt eru þetta strandflutningar, þótt reglubundnar hringferðir hafi lagst af.

Þeir sem vilja láta taka þá flutninga af, þá líklegast með ríkisstyrkjum, því ekki borgar sig að fara sjóleiðina, eru þá í leiðinni að leggja til að íbúar á landsbyggðinni njóti ekki sömu þjónustu og höfuðborgarbúar, eða hvað? Vilja þeir að menn fari aftur að selja frosin matvæli í stað ferskra, vilja menn að sá tími sem fyrirtæki eru að varahluti sé talinn í vikum en ekki dögum? Vilja menn að lagerkostnaður fyrirtækja á landsbyggðinni verði í samræmi við þann veruleika meðan að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þurfa nánast engan lager að hafa, þar sem flæði vörunnar er nánast án tafa? Það er skrítin landsbyggðarpólitík.

Þessa umræðu verður kannski að horfa á með tvennum gleraugum. Gleraugum stundarvinsælda, þar sem þeir sem eru að leggja þetta til vitandi að af því verður aldrei og þar með þurfi þeir aldrei að standa andspænis afleiðingum yfírlýsinga sinna. En hin gleraugun og líklegast þau mikilvægari, er þau að tekjur og gjöld af sjóflutningum fara mikið í sveitarsjóði, sem þeir hafa um árabil notað til að greiða niður gjöld af fiskiskipum, meðan að tekjur af vegflutningum renna í ríkissjóð og koma því ekki í sveitarsjóðina.

Ræða má hvort það sé sanngjarnt að ríkið fái allt vegaféð, og væri eðlilegt þegar menn ná að koma vitinu fyrir fjármálaráðherra og leggja olíu- og bensíngjald niður og taka upp gjaldheimtu sem byggist á eknum kílómetrum, mældum með GPS-GSM tækni, að tekjur af þeim kílómetrum sem eknir eru á sveitarstjórnavegum renni til þeirra og hitt renni í ríkissjóð.

Vonandi gerist það sem fyrst, en það er alveg ljóst að þungaflutningar á vegum eru komnir til að vera og vegakerfið verður einfaldlega að aðlaga sig að því, enda mikill hluti þeirra tekna sem reiknaðir hafa verið á vegina við hagkvæmniútreikninga einmitt vegna þeirra og þess hagræðis sem af styttri flutningatíma leiðir.

07 febrúar 2006

Ég var seldur í gær

Sá sem hefði haldið því fram að Engeyjarættin ætti eftir að kaupa Olíufélagið Esso fyrir nokkrum árum hefði líklegast verið sendur beinustu leið til innlagnar í húsinu inn við Sundin blá. En í morgun var samt sem áður tilkynnt að Esso, ásamt öllum eignum þess, þám eignarhlutur þess í Olíudreifingu þar sem ég vinn hefði verið selt þessum aðilum.

Nú vantar bara að þeir kaupi Iceland Express og þá eru þeir komnir í sína gömlu starfsemi, rekstur lággjaldaflugfélags og olíufélags.

Svona fara hlutirnir í hring.

06 febrúar 2006

Anna hættir við

Það eru mér vonbrigði að Anna Kristinsdóttir sé búin að gefa út yfirlýsingu um að hún ætli ekki að taka 2. sætinu á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Hún er öflugur, reyndur, góður og gegn framsóknarmaður sem ég sé virkilega eftir af vettvangi borgarmálanna.

Ég vona að hún endurskoði ákvörðun sína. Geri hún það ekki, geri ég ráð fyrir og hlakka til að hún komi öflug inn í starfið aftur. Vonandi verður það sem fyrst.

Gangi þér vel í hverju því sem þú tekur þér fyrir hendur Anna.

05 febrúar 2006

Stytting náms til stúdentsprófs undirbúin betur

Það eru gleðileg tíðindi að menntamálaráðherra og Kennarasamband Íslands skuli hafa komist að samkomulagi um að undirbúa betur þann sameiginlega ásetning þeirra að útskrifa nemendur yngri með stúdentspróf.

Nú er lag að vinna vel og tel ég að leggja eigi sérstaka áherslu á að nýta grunnskólastigið betur og gera nemendum kleyft að útskrifast ári fyrr úr grunnskólanum, sbr það sem ég hef skrifað áður um samvinnu í skólakerfinu, öflugt grunnskólastarf og styttingu náms til stúdentsprófs. Mun það minnka námsleiða, spara sveitarfélögunum fé og nýta fjármuni og tíma nemenda betur.

04 febrúar 2006

Kaupskipaútgerð

Fyrir rúmum 2 árum vann ég í leiðindaverkefni, en það var að flytja olíuskipið Keili af íslenskri skipaskrá á þá færeysku. Um tvennt var að ræða, að selja skipið og leigja erlend skip til stranddreifingar eða að gera þetta svona, þar sem kostnaður við stranddreifingu með íslensku skipi með íslenskri áhöfn í íslensku skattaumhverfi er einfaldlega þannig að það var ekki verjandi að halda því áfram. Ef það hefði ekki verið gert, hefðu samkeppnisaðilar getað boðið upp á ódýrari vöru vegna lægri dreifingarkostnaðar, þannig að eigendum skipsins var nauðugur sá kostur að flýja land.

Þetta var síðasta kaupskipið sem skráð var undir íslenskum fána, en stóru kaupskipaútgerðirnar hafa verið með sín skip undir erlendum fánum um árabil.

Í langan tíma hefur verið pressað á yfirvöld að taka upp alþjóðlegt skatta- og regluumhverfi í kaupskipaútgerð, en án árangurs. Hefur það verið kjarkleysi yfirvalda gagnvart andstöðu sjómannasamtakanna. Sú skammsýna andstaða er núna að verða til þess að íslenskum farmönnum fækkar sífellt og á endanum gæti það leitt til þess að þessi stétt lognist útaf hér á landi.

Á síðasta ári mátti heyra að afstaða þeirra væri að breytast, en þá tekur næsti tréhaus við, en það er fjármálaráðherra.

Fjármálaráðherra virðist ekki átta sig á mikilvægi þess að hafa kaupskipaútgerð í landinu. Landið getur lent í miklum vandræðum vegna þessa, því fánaríki hvers skips hefur rétt til þess að taka skipið leigunámi og láta það vinna í sína þágu. Ísland hefur ekkert skip undir sínum fána og því enga slíka tryggingu, jafnvel þótt útgerðirnar vildu sinna sínum siðferðisskyldum gagnvart Íslandi, er þeim það einfaldlega ekki heimilt ef fánaríkið óskar afnota af skipum þeirra.

Sömuleiðis er óumdeilt að siglingaöryggi er stórum meira ef skipstjórnendur eru staðkunnugir, sem myndi glatast ef skipin yrðu mönnuð útlendingum.

Samband ungra Framsóknarmanna ályktaði um þetta mál á síðasta sambandsþingi og er vonandi að þetta mál komist í framkvæmd hið fyrsta. Fjármálaráðherra varar fólk við að málið sé flókið. Greyi hann, ekki vorkenni ég honum að fást við það verkefni, hann getur gert sérstaka samninga um skattamál í stóriðju og nógu flókið hefur hann og forverar hans gert skattkerfið smám saman fyrir okkur þegnunum í gegnum tíðina.

03 febrúar 2006

Nýr dagur

Jæja, þá er þessu prófkjöri lokið. Mín niðurstaða voru mér vonbrigði og er greinilegt að sú leið sem ég ákvað að fara, að vera með málefnin algerlega á oddinum, skilar ekki því sem þarf í svona baráttu. Ég er hugsi yfir því, en þetta er niðurstaðan og auðvitað uni ég henni.

Þeir sem studdu mig eiga allar þakkir mínar.

Ég óska sigurvegurum til hamingju með niðurstöðuna og vill þakka mínu fólki kærlega fyrir frábæran dag í gær, það komu ótrúlega margir í kosningakaffið hjá okkur, enda náttúrulega ekki margir frambjóðendur sem kaupa sér íbúð til að halda kosningakaffi!!! Heppilegt að við ætlum okkur að búa í íbúðinni í framhaldinu. Ég þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur við að láta daginn heppnast svona vel, alveg frábært að eiga svona góða að.

Þeir vinir mínir sem unnu fyrir mig á kjörstað stóðu sig eins og hetjur og vonandi verða þau búin að ná að hreinsa hugann af excel og kjörskrám innan ekki of langs tíma.

En mest vill ég þakka elskunni henni Heiðrúnu minni að standa svona með mér í þessu.

02 febrúar 2006

Kæri lesandi

Velkominn á heimasíðu mína, sem sett er upp í tengslum við framboð mitt í 3. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna í vor.

Á síðunni er að finna upplýsingar um mig; menntun mína, reynslu, áherslumál og prófkjörið sjálft. Einnig getur þú litið á greinar sem ég hef skrifað á pólitískum vettvangi í gegnum tíðina með því að fara í eldri færslur eða á www.timinn.is.

Ég hvet þig til að taka þátt í prófkjörinu þann 28. janúar og setja mig í 3. sætið. Allir borgarbúar og félagar í framsóknarfélögunum í Reykjavík hafa kosningarétt og mikilvægt að vel takist til við val á framboðslistann.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða athugasemdir getur þú sent mér tölvupóst á póstfangið gestur@timinn.is eða skrifað athugasemd við þá grein sem við á og ég mun svara eins fljótt og auðið er.

01 febrúar 2006

Kosningadagur

Bjartur og fagur. Við hjónaleysin, vinir og ættingjar bjóðum ykkur í kosningakaffi að Grettisgötu 67 frá kl 14-17 í dag. Endilega kíkið við og njótið veitinganna. Bílastæði í Grettisgötu og nýja Stjörnubíóshúsinu