Jæja, þá er þessu prófkjöri lokið. Mín niðurstaða voru mér vonbrigði og er greinilegt að sú leið sem ég ákvað að fara, að vera með málefnin algerlega á oddinum, skilar ekki því sem þarf í svona baráttu. Ég er hugsi yfir því, en þetta er niðurstaðan og auðvitað uni ég henni.
Þeir sem studdu mig eiga allar þakkir mínar.
Ég óska sigurvegurum til hamingju með niðurstöðuna og vill þakka mínu fólki kærlega fyrir frábæran dag í gær, það komu ótrúlega margir í kosningakaffið hjá okkur, enda náttúrulega ekki margir frambjóðendur sem kaupa sér íbúð til að halda kosningakaffi!!! Heppilegt að við ætlum okkur að búa í íbúðinni í framhaldinu. Ég þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur við að láta daginn heppnast svona vel, alveg frábært að eiga svona góða að.
Þeir vinir mínir sem unnu fyrir mig á kjörstað stóðu sig eins og hetjur og vonandi verða þau búin að ná að hreinsa hugann af excel og kjörskrám innan ekki of langs tíma.
En mest vill ég þakka elskunni henni Heiðrúnu minni að standa svona með mér í þessu.