Mikils tvískinnungs gætir í umræðunni um þungaflutninga.
Fyrir það fyrsta hafa strandflutningar ekki lagst af. Olía, lýsi, mjöl og talsvert af frystum fiski er fluttur sjóleiðina og stóru skipafélögin hafa viðkomu í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum á leið til og frá landinu. Allt eru þetta strandflutningar, þótt reglubundnar hringferðir hafi lagst af.
Þeir sem vilja láta taka þá flutninga af, þá líklegast með ríkisstyrkjum, því ekki borgar sig að fara sjóleiðina, eru þá í leiðinni að leggja til að íbúar á landsbyggðinni njóti ekki sömu þjónustu og höfuðborgarbúar, eða hvað? Vilja þeir að menn fari aftur að selja frosin matvæli í stað ferskra, vilja menn að sá tími sem fyrirtæki eru að varahluti sé talinn í vikum en ekki dögum? Vilja menn að lagerkostnaður fyrirtækja á landsbyggðinni verði í samræmi við þann veruleika meðan að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þurfa nánast engan lager að hafa, þar sem flæði vörunnar er nánast án tafa? Það er skrítin landsbyggðarpólitík.
Þessa umræðu verður kannski að horfa á með tvennum gleraugum. Gleraugum stundarvinsælda, þar sem þeir sem eru að leggja þetta til vitandi að af því verður aldrei og þar með þurfi þeir aldrei að standa andspænis afleiðingum yfírlýsinga sinna. En hin gleraugun og líklegast þau mikilvægari, er þau að tekjur og gjöld af sjóflutningum fara mikið í sveitarsjóði, sem þeir hafa um árabil notað til að greiða niður gjöld af fiskiskipum, meðan að tekjur af vegflutningum renna í ríkissjóð og koma því ekki í sveitarsjóðina.
Ræða má hvort það sé sanngjarnt að ríkið fái allt vegaféð, og væri eðlilegt þegar menn ná að koma vitinu fyrir fjármálaráðherra og leggja olíu- og bensíngjald niður og taka upp gjaldheimtu sem byggist á eknum kílómetrum, mældum með GPS-GSM tækni, að tekjur af þeim kílómetrum sem eknir eru á sveitarstjórnavegum renni til þeirra og hitt renni í ríkissjóð.
Vonandi gerist það sem fyrst, en það er alveg ljóst að þungaflutningar á vegum eru komnir til að vera og vegakerfið verður einfaldlega að aðlaga sig að því, enda mikill hluti þeirra tekna sem reiknaðir hafa verið á vegina við hagkvæmniútreikninga einmitt vegna þeirra og þess hagræðis sem af styttri flutningatíma leiðir.