Gestur Guðjónsson

04 febrúar 2006

Kaupskipaútgerð

Fyrir rúmum 2 árum vann ég í leiðindaverkefni, en það var að flytja olíuskipið Keili af íslenskri skipaskrá á þá færeysku. Um tvennt var að ræða, að selja skipið og leigja erlend skip til stranddreifingar eða að gera þetta svona, þar sem kostnaður við stranddreifingu með íslensku skipi með íslenskri áhöfn í íslensku skattaumhverfi er einfaldlega þannig að það var ekki verjandi að halda því áfram. Ef það hefði ekki verið gert, hefðu samkeppnisaðilar getað boðið upp á ódýrari vöru vegna lægri dreifingarkostnaðar, þannig að eigendum skipsins var nauðugur sá kostur að flýja land.

Þetta var síðasta kaupskipið sem skráð var undir íslenskum fána, en stóru kaupskipaútgerðirnar hafa verið með sín skip undir erlendum fánum um árabil.

Í langan tíma hefur verið pressað á yfirvöld að taka upp alþjóðlegt skatta- og regluumhverfi í kaupskipaútgerð, en án árangurs. Hefur það verið kjarkleysi yfirvalda gagnvart andstöðu sjómannasamtakanna. Sú skammsýna andstaða er núna að verða til þess að íslenskum farmönnum fækkar sífellt og á endanum gæti það leitt til þess að þessi stétt lognist útaf hér á landi.

Á síðasta ári mátti heyra að afstaða þeirra væri að breytast, en þá tekur næsti tréhaus við, en það er fjármálaráðherra.

Fjármálaráðherra virðist ekki átta sig á mikilvægi þess að hafa kaupskipaútgerð í landinu. Landið getur lent í miklum vandræðum vegna þessa, því fánaríki hvers skips hefur rétt til þess að taka skipið leigunámi og láta það vinna í sína þágu. Ísland hefur ekkert skip undir sínum fána og því enga slíka tryggingu, jafnvel þótt útgerðirnar vildu sinna sínum siðferðisskyldum gagnvart Íslandi, er þeim það einfaldlega ekki heimilt ef fánaríkið óskar afnota af skipum þeirra.

Sömuleiðis er óumdeilt að siglingaöryggi er stórum meira ef skipstjórnendur eru staðkunnugir, sem myndi glatast ef skipin yrðu mönnuð útlendingum.

Samband ungra Framsóknarmanna ályktaði um þetta mál á síðasta sambandsþingi og er vonandi að þetta mál komist í framkvæmd hið fyrsta. Fjármálaráðherra varar fólk við að málið sé flókið. Greyi hann, ekki vorkenni ég honum að fást við það verkefni, hann getur gert sérstaka samninga um skattamál í stóriðju og nógu flókið hefur hann og forverar hans gert skattkerfið smám saman fyrir okkur þegnunum í gegnum tíðina.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home