Gestur Guðjónsson

24 mars 2006

Ráðdeild í rekstri - Lofum upp í ermarnar á öðrum !

D-listinn var að kynna aðalmálefni sitt fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Öldrunarmálin. Hjúkrunarheimili hér og hjúkrunarheimili þar, úrræði fyrir aldraða og þjónusta.

Mikið er gott að sjá að það sé kominn félagslegur tónn í íhaldið, en þegar betur er að gáð er sá tónn afar holur.

Málefni aldraðra eru nefnilega ekki nema að litlum hluta á forræði sveitarfélaganna, þannig að það sem þeir ætla sér þá líklegast að gera er að lofa upp í ermarnar á ríkisvaldinu og tala svo um vondu framsóknarráðherrana að kosningum loknum ef þeir hlaupa ekki upp til handa og fóta með fjármagn.

Þarna er íhaldinu vel lýst og ekki síður þegar það er að lofa auknum afslætti á fasteignagjöldum til eldri borgara, sem er afsláttur sem er bara aðgengilegur þeim eldri borgurum sem eiga eigið húsnæði. Eftir sitja þeir sem helst þurfa á samhjálp að halda, þeir sem ekki eiga eigið húsnæði og verða að leigja. Hvar eru tillögurnar fyrir þá?

21 mars 2006

Hundalógík NFS

Keflavíkurstöðin er ekki á fjárlögum bandaríska ríkisins. Þess vegna var búið að ákveða og við hefðum mátt vita strax þá að þeir ætluðu að loka stöðinni.

Svona hljómar röksemdafærsla NFS.

Þetta heldur náttúrulega ekki neinu vatni og er þessi samsæriskenning í anda túlkunar Róberts Marshall á tímasetningum í tengslum við veru okkar Íslendinga á lista hinna staðföstu.

Jafnvel þótt ætlun Bandaríkjamanna hafi verið að loka stöðinni, þátt er alveg á hreinu að þeir þurfa að fara í fjárútlát á þessu ári. Fyrir það fyrsta á fyrst að loka stöðinni í haust og eins er ljóst að það kostar helling að loka stöðinni, auk þess sem það hlýtur að kosta eitthvað að fara í þær aðgerðir sem þeir kalla nútímavæddar varnir.

Þannig að þetta heldur engu vatni og íslensk yfirvöld eiga ekki að taka neitt tillit til þess sem stendur í bandarískum fjárlögum, uppsetning fjárlaganna getur alveg eins verið samningataktík hjá Bandaríkjamönnum. Það eina sem við eigum að taka tillit til er varnarsamningurinn sem er í gildi á milli þjóðanna og sáttmálar NATO.

20 mars 2006

Snarlausn á hjúkrunarheimilaplássavanda

Við boðað brotthvarf hersins af Miðnesheiði skapast vandamál en einnig eru mörg tækifæri fólgin í þessu. Þarna losnar mikið af góðu íbúðarhúsnæði, sem hugsanlega væri hægt að nýta sem hjúkrunarheimili.

Að sjálfsögðu er ekki um allra hentugasta húsnæði sem hugsast getur til þeirrar starfsemi hvað aðgengi og þess háttar varðar, en meðan að Ríkið byggir upp hentugra húsnæði, t.d. í Reykjavík, er gráupplagt að leysa bráðavandann á Miðnesheiði, meðan framtíðarnýting þess svæðis er ákveðin. Spítali er á svæðinu, sem hægt er að nýta í þágu hjúkrunarstarfseminnar, samgöngur góðar og fyrir Reykvíkinga er ekki lengra en 30 mínútur í heimsókn, sem er styttri tími en það tekur að fara ofanúr Breiðholti út á Seltjarnarnes.

Með þessu gefst tóm til að byggja hjúkrunarheimilin í meiri ró.

19 mars 2006

Varnarmálin

Maður hrósar happi yfir því að landsfeðurnir skuli vera jafn traustir og þeir eru. Ef Samfylkingin væri við stjórn er alveg eins líklegt að Ingibjörg Sólrún og Össur fyrrv formaður væru búin að koma sér fyrir á Laufásveginum og senda þeim tóninn í anda Erps Eyvindar, búin að segja upp varnarsamningnum og koma öllu því sem hægt væri að semja um fyrir kattarnef. Það er athygli vert að það sé Össur sem sé í forsvari með formanninum en ekki varaformaðurinn.

Auðvitað hefur ríkisstjórnin ekki verið gefið út að herinn myndi fara, þótt það væri hugsanlega fyrirséð, enda væri þá t.d. ekki hægt að senda það bréf sem Forsætisráðherra sendi forseta Bandaríkjanna, enda boltinn ennþá hjá okkur. Núna er boltinn í Washington, og þurfa þeir að koma með gott útspil til að geta haldið varnarsamningnum, en hann er þeim mikils virði, ótakmarkað aðgengi að lofti, láði og legi, og það á stærsta flugumferðarstjórnarsvæði heimsins.

Í þessu felast heilmörg tækifæri, nú verður að kaupa aukaþyrlur, 2-3, mannaðar íslendingum, þar með væri eðlilegt að staðsetja eina á Akureyri. Slökkviðið á Keflavíkurflugvelli flyst yfir til Íslendinga og vonandi fæst búnaðurinn með, enda afar öflugur búnaður, og alveg ljóst að þessir starfsmenn munu ekki missa vinnuna. Sömuleiðis mun hugsanlega verða hægt að byggja mannvirki með hagkvæmari hætti þar sem ekki þarf að uppfylla hernaðarstaðla, sem eru afar kostnaðarsamir.

Áhugaverðir tímar framundan

06 mars 2006

Áhugaverðir tímar framundan

Árni Magnússon hefur ákveðið að hætta í pólitík. Hvernig hann stóð að þeirri ákvörðun og það ferli allt lýsir honum vel, gengur vasklega til verka á opinn og heiðarlegan hátt. Ég sé virkilega eftir honum og það er mikill fengur fyrir Íslandsbanka að fá slíkan mann um borð.

Siv kemur á ný inn í ríkisstjórnina og er það eðlileg ráðstöfun. Nú reynir aldeilis á hana í þessu erfiða ráðuneyti og í ljós mun koma úr hverju hún er gerð. Ef hún stendur sig vel í því embætti, sem ég hef fulla trú á að hún geri, mun það styrkja stöðu hennar til framtíðar litið.

Guðjón Ólafur kemur inn á þing fyrir Árna og er fengur að því að fá fleiri löglærða menn inn í þingflokkinn. Ég skora á hann og Siv að fallast í faðma og gera okkur þann greiða að vera vinir, enda erum við í sama liði.

02 mars 2006

Fuglaflensan

Fyrir rétt rúmu ári skrifaði ég grein á www.timinn.is um matvælaöryggi í ljósi fuglaflensunnar. Nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að hún berist hingað til lands, en vonandi verða fuglastofnarnir búinir að yfirvinna flensuna áður en hún stökkbreytist og verður smitandi milli manna, en smitist ekki bara í menn við vessaskipti milli fugla og manna.
Greinina er að finna hér