Gestur Guðjónsson

25 mars 2007

flutningar

5B1A403DA38F32D82F6C2FEF4960FF86

24 mars 2007

Fluttur...

Þetta umhverfi hér á blogspot.com er of oft úti, seint að uppfæra og verður til þess að andinn er oft farinn úr manni, þá loksins að það kemur upp.

Er fluttur á gesturgudjonsson.blog.is

Kveðja,
Gestur

06 mars 2007

Maður á aldrei að skipta um password - meðan maður er utan við sig

Hef verið utan bloggheima um hríð, þar sem ég þurfti að uppfæra notendanafnið og setja nýtt leyniorð. Var eitthvað utan við mig og að sjálfsögðu mundi ég ekki leyniorðið þegar ég ætlaði svo inn næst. En það er þó betra en að hafa þetta með þeim hætti að hægt sé að brjótast inn í þessi kerfi, því það væri auðvelt að rýja af manni æruna ef einhver óprúttinn kæmist inn.

Hef annars undanfarið verið að vinna í undirbúningi ályktana fyrir flokksþing Framsóknarmanna sem fór fram um síðustu helgi. Skrópaði aðeins frá feðraorlofinu en það verður að hafa það. Allt fyrir málstaðinn. Þingið tókst vonum framar og ályktanirnar voru samþykktar eftir góðar umræður og góðar breytingar og viðbætur. Við komum til með að koma afar sterk inn í kosningabaráttuna eftir þetta.

Kíkti aðeins inn á heimasíðu VG um daginn. Það var skondið að skoða þá stefnu sem þeir hafa í náttúruverndarmálum. Hún er nánast orðrétt þeirri sem Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu fyrir 2 árum, þar sem meginstefið væri að kortleggja þyrfti alla náttúru Íslands, svo hægt væri að taka ákvarðanir um nýtingu og vernd með upplýstari hætti.

07 febrúar 2007

Ólga í fylgismælingum

Það er áhugavert að sjá hversu mikið ólga er í fylgi flokkanna, ef marka má fylgiskannanir síðustu daga. Helst finnst mér hægt að lesa í þetta, að almenningur er orðinn leiður á stjórnmálum, og þá sérstaklega stjórnmálamönnum. 40% óákveðnir er afar hátt hlutfall, sem hefur hækkað sem nemur þeim sem héldu að þeir væru Frjálslyndir, en hafa áttað sig á hvers konar hjörð það er, sérstaklega eftir að Margrét Sverris gekk úr þeim flokki.

Þetta lýsir sér einnig í því að VG og D hafa meira fylgi en áður, þeir sem aðhyllast einföld trúarbragðastjórnmál til hægri og vinstri gefa sig upp eins og venjulega, en hinir eru einfaldlega ráðvilltir og gefa sig ekki upp, sérstaklega nú, þegar fólki er að verða ljóst að ISG er að opinbera að hún sé ekki hæfur kandidat inn í fangelsið við Lækjartorg.

"það er sama rassgatið undir þeim öllum" - hugsunin er að breiðast út og það er verkefni stjórnmálanna fyrir kosningar að skýra málið út fyrir kjósendum og þeim sem tekst best upp mun farnast best í kosningunum í vor

31 janúar 2007

Hvað er stórt og hvað er smátt

Tony Blair ætlar að verða verndari átaks Breta gegn hvalveiðum Íslendinga. Þetta lítur út fyrir að vera afar göfugt í augum þeirra sem vernda vilja hvalina. En um leið og þessu átaki er hrint af stokkunum er starfsleyfi kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield endurnýjað !

Það er merkileg forgangsröðun að mótmæla nýtingu hvalastofnsins fyrir hádegi meðan að eftir hádegi er starfsemi sem sannarlega ógnar lífríki alls Norður Atlantshafsins heimiluð. Skemmst er að minnast óhappsins sem varð þegar 83.000 lítrar af geislavirkum vökva láku úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni.

Þetta er umhverfishræsni af verstu gerð

15 janúar 2007

Fréttir bannaðar börnum

Ég var að borða kvöldmatinn í kvöld með fjölskyldu minni, þám 6 ára gamalli dóttur. Þegar í viðtækinu glymur "Ekki tókst betur til en að höfuðið slitnaði af al Tikriti, hálfbróður Saddams, við henginguna".

Ég hringdi í fréttastofu RUV og fékk samband við fréttamanninn sem vann fréttina, í umboði fréttastjórans Boga Ágústssonar. "Svona er heimurinn, við sýnum hann bara eins og hann er" var svarið. Sagðist fréttamaðurinn aðspurður eiga börn og fannst eðlilegt að börn heyrðu þetta. Þar er ég ekki sammála

Það eru framin mörg voðaverk á hverjum degi í heiminum, þótt þau séu ekki sýnd og þeim ekki lýst í fréttum. Vonandi er það vegna þess að fréttamönnum finnst það ekki við hæfi, sem ber vott um ákveðið siðferðismat. Mér finnst þessar lýsingar á hengingunni og reyndar einnig myndbirtingarnar af aftöku Saddams og nákvæmar lýsingar á kynferðislegu ofbeldi gagnvart heyrnarlausum eiga jafn lítið samleið með kvöldmatnum eins og nákvæmar lýsingum á nauðgunum, drápum og limlestingum á börnum.

Kjarninn í þessu er líka, hvað í veröldinni koma þessar lýsingar okkur við? Það er frétt að þeir hafi verið teknir af lífi. Ekki að hausinn hafi dottið af og ekki að þeir hafi skitið á sig og átt sáðlát eins og yfirleitt gerist víst við þennan voðaverknað. Það kemur okkur einfaldlega ekkert við og allra síst börnunum okkar, þannig að ef fréttamenn hafa þær annarlegu hvatir að vilja sýna almenningi þetta eiga þeir að gera það í tíufréttunum.

Þegar fréttatímar eru orðnir þannig að það er í rauninni barnaverndarmál að láta þau fylgjast með þeim er eitthvað mikið að...

08 janúar 2007

Auðunn Gestsson 24.02.1913 - 25.12.2006

- Ég segi nú ekki margt og smart, jahahá.
Afi minn, Auðunn Gestsson, segir þetta víst ekki aftur um leið og hann trommar með fingrunum á eldhúsborðið. Hann hefur lokið sinni lífsgöngu. Lífsgöngu sem hann naut, lífsgöngu sem margir hafa lært mikið af og margir hafa fengið að njóta með honum. Síðustu sporin sem við áttum saman voru þegar hann fylgdi okkur til dyra á Kumbaravogi, þar sem hann bjó síðustu árin og kvaddi þá Auðun alnafna sinn með sínu blíða brosi, sæll og glaður í bragði.

Ég var svo heppinn að hafa hann ekki bara sem móðurafa, heldur líka sem mikinn og náinn vin. Ég bjó hjá honum og ömmu í Fossheiðinni á Selfossi í 4 ár meðan ég var í framhaldsskóla og tvö sumur að auki. Á sumrin smíðuðum við saman hjá Samtak hf sem var hinum megin við götuna þannig að við gátum farið heim í mat í hádeginu og sofnað yfir fréttunum.

Við afi áttum sérstaklega gott skap saman, skröfuðum margt og brölluðum ýmislegt. Það var alltaf gaman þegar afi var í nánd og verður áfram þegar sögur tengdar honum verða rifjaðar upp.

Þau hjónin brugðu búi á Kálfhóli á Skeiðum og fluttust á Selfoss þegar afi var 66 ára. Það var voguð ákvörðun að skipta um starfsvettvang á þeim aldri, en það var eins og með allt hans lífshlaup, hann hafði yfirsýn og stjórn á hlutunum og var ófeiminn við að taka ákvarðanir þegar tími þeirra kom. Sama var uppi á teningnum þegar amma dó og hann hafði ekkert að gera við húsið á Fossheiðinni. Hann seldi og keypti íbúðina á Grænumörk án þess að börnin hefðu nokkuð um það að segja. Maður gat alveg greint smá gremju í þeim að fá ekkert að ráðskast með gamla manninn, en hann fór sínu fram og hafði stjórn á hlutunum.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig hann tók breytingum. Hann hafði oftast stjórn á hraða þeirra og stefnu, en brást á jákvæðan hátt við þeim breytingum sem hann fékk ekki ráðið við. Hann hafði sinn þjóðlega grunn að byggja á, mikla manngæsku, ást á landinu og dýrunum og áhuga á öllu mannlegu. Það er grunnur sem nýttist honum vel og aflaði honum mikillar virðingar.

Virðing er ekki eitthvað sem maður getur krafist, heldur nokkuð sem maður öðlast. Með fasi sínu og lífsviðhorfi ávann afi sér virðingar þeirra sem hann komst í kynni við og veit ég lærðu margt af honum um það hvernig á að lifa lífinu. Hann kenndi það ekki með predikunum, heldur með því að vera eins og hann átti að sér að vera.

Fyrir það vil ég þakka og óska að heimurinn eignist sem flesta hans líka.

06 janúar 2007

Aðgát skal höfð......

Þótt þetta sé ekki í rauninni neytendamál í þrengsta skilningi þess hugtaks, þá er þessi grein á heimasíðu neytendasamtakanna virkilega góð og rétt

"Margir foreldrar hafa haft samband við Neytendasamtökin og lýst yfir hneykslun sinni á því að myndir af aftöku Saddams Husseins hafi verið birtar í sjónvarpsfréttum en myndbrotið hefur verið sýnt víða. Í frétt í Berlingske Tidende segir frá því að þrjú börn hafi látist eftir að hafa hermt eftir aftökunni, eitt í Texas, annað á Indlandi og það þriðja í Pakistan. Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á að börn eru virkir sjónvarpsáhorfendur og þau og foreldrar þeirra eiga að geta treyst því að óhugnanlegt efni birtist ekki á skjánum snemma kvölds. Slíkt er enda brot á útvarpslögum. Vel má vera að fullorðið fólk kippi sér ekki upp við upptökuna af Saddam en efni sem þetta á ekkert erindi til barna. Myndbrotið hefði frekar átt að sýna í fréttum kl 22:00 ef það þótti ástæða til að sýna það á annað borð og það sama á við um fréttir af stríðsátökum, gíslatökum, fuglaflensu og öðrum hörmungum."

18 desember 2006

Ísafold

Las grein í nýja tímaritinu Ísafold um daginn. Greinin var auglýst þannig að maður átti von á að þar væri hulunni svipt af illri meðferð á þeim sem þar búa.

Við lestur greinarinnar skein bersýnilega í gegn að starfsfólk Grundar gerir sitt besta til að láta fólki líða vel, en það er greinilegt að þessi "rannsóknarblaðamaður" hefur ekkert í þetta starf að gera, opinberar þvílíka fordóma og vanþekkingu að maður sárvorkennir henni. Lýsir því að mæta til vinnunnar á réttum tíma sem voðalegum píningum og það að þurfa að standa á eigin fótum í vinnunni sem algeru ábyrgðarleysi. Auðvitað þarf að þrífa fólk og ég veit ekki hvernig er hægt að gera það öðruvísi en að snerta það. Ég skil satt best að segja ekkert í Ísafold að vera að birta þetta og þaðan af síður að leyfa blaðamanninum að setja þetta fram í því ljósi, því það er greinilegt að þessi grein er skrifuð með það eitt að markmiði að sverta starfsemina.

Auglýsingarnar á greininni einar hafa sært og skaðað og vonandi ná forráðamenn Grundar fram rétti sínum gagnvart þessari skemmdarverkarstarfsemi.

15 desember 2006

Umferðin

Það eru skrítin viðbrögðin við þessum óhugnalegu fréttum af mannslátum í umferðinni.

Menn ræða um vegi og aftur vegi, en það virðist lítill áhugi vera á orsökum slysanna. Orsakirnar eru einfaldar. Menn eru ekki að haga akstri eftir aðstæðum.

Þrátt fyrir að vera þessarar skoðunar, tel ég mun réttara að gera 2+1 veg austur fyrir fjall. Breiðari en þennan sem settur var í Svínahraunið, en það væri framkvæmd sem væri hægt að klára á næsta kjörtímabili. Öryggisaukningin milli 2+1 og 2+2 réttlætir ekki þann kostnaðarauka sem af því hlýst að fara í 2+2. Ef menn ætluðu að fara í 2+2 veg, væri eingöngu í tengslum við þá sjálfsögðu framkvæmd að klára veginn yfir Sprengisand, sem er jú þegar malbikaður að Þórisvatni, niður í Bárðardal sem er auðvelt vegstæði, gegnum Vaðlaheiði og til Akureyrar og Húsavíkur annars vegar, en yfir Ódáðahraun til Kárahnjúka og eftir þeim vegi sem þegar er til þaðan á Egilsstaði hins vegar.

Samfélagið gæti á móti sparað sér breikkun vegarins um Vesturland og byggingarland höfuðborgarsvæðisins ykist sem nemur Árnessýslu og vegtengingar NA lands við SV hornið yrðu ásættanlegar.

14 desember 2006

Er réttur barnanna ekki meiri en foreldranna?

Í Hollandi hefur afar áhugavert og hugsanavekjandi mál komið upp.

Ung telpa fannst myrt í bíl móður sinnar. Dánarorsök, hlutur sem hafði verið troðið ofan í háls hennar. Móðirin hefur játað verknaðinn.

Eins og þetta sé ekki nógu sorglegt, en við rannsókn málsins kemur í ljós að hún hefur orðið fyrir miklu líkamlegu ofbeldi um langan tíma, m.a. hefur hún verið handleggsbrotin og ekki fengið að fara til læknis.

Barnarverndaryfirvöld hafa haft móðurina undir eftirliti í mörg ár, en ekki séð ástæðu til að fjarlægja barnið, með vísun í rétt barnsins til að umgangast foreldra sína. Þetta viðhorf er því miður allt of sterkt almennt í barnaverndarmálum, að réttur foreldranna til að umgangast börnin sín virðist vera mikið mun sterkari en réttur barnanna til eðlilegs lífs, þótt fjarri foreldrum væri og því fór sem fór fyrir þessari vesalings stúlku

En það sem er áhugavert við þetta mál er það að nú hefur öll barnaverndarnefndin sem um þetta mál fjallaði verið ákærð fyrir manndráp að gáleysi. Telur ákæruvaldið að með því að ákveða að fjarlægja ekki barnið, þrátt fyrir allar þær viðvörunarbjöllur sem hringt höfðu um langan tíma, hafi nefndin sýnt stórkostlega vanrækslu í starfi og beri því að draga til ábyrgðar.

12 júlí 2006

Með sínum augum sér hver hlutina

Á heimasíðu sinni, www.kristinn.is, skrifar Kristinn H Gunnarsson um stefnubreytingu Framsóknarflokksins í umhverfismálum. Margt er gott í grein hans, en eftirfarandi klausa stingur mig, sem hafandi verið meðal hópsstjóra í umhverfis- og skipulagsmálum á síðasta flokksþingi:

Á síðasta flokksþingi, sem haldið var í febrúar 2005, flutti ég ásamt Steingrími Hermannssyni tillögu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og að hætt yrði við öll áform um virkjanir á því svæði. Þessi tillöguflutningur var í eðlilegu samræmi við fyrri áherslur flokksins, en nýmæli hvað Þjórsárver varðar og gegn ríkjandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Tillagan var ekki samþykkt þá heldur vísað til nefndar.

Kristinn virðist, viljandi eða óviljandi, vera ókunnugt um hvernig málefnastarf flokksins fer fram. Í aðdraganda flokksþinga eru stofnaðir málefnahópar sem öllum flokksmönnum er gefinn kostur á að skrá sig í, sem koma með tillögur til flokksþings. Kristinn tók ekki þátt í því starfi hvað umhverfismálin varðar, þótt hann hefði kost á því. Þær tillögur eru svo ræddar áfram í nefndum þingsins, sem allir þingfulltrúar hafa möguleika á að vera með í. Í nefndunum eru tillögurnar yfirfarnar á ný og reynt að setja niður allan ágreining áður en þær eru bornar undir allt flokksþingið.

Tillaga Kristins og Steingríms fékk eðlilega meðferð, fór í nefndina og var rædd á fundi hennar þar sem hann mætti ásamt fleirum, um 100 manns og átti sér stað afar góð og upplýsandi umræða sem var öllum til sóma. En þegar taka átti afstöðu í nefndinni morguninn eftir lét Kristinn ekki sjá sig til að fylgja málinu eftir og þegar heildartillagan úr nefndinni var afgreidd á þinginu, kom Kristinn heldur ekki fram til að fylgja sinni tillögu eftir, þannig að hún kom aldrei til afgreiðslu, þótt öll tök hefðu verið á því að fá fram vilja þingsins. Það hefði hann getað gert einn síns liðs.

Ég var tilbúinn með tillögu sem ég tel að hafi getað sætt sjónarmiðin, en þar sem engin var til að fylgja tillögu Kristins og Steingríms eftir á fundinum, gat ég sem fundarstjóri ekki lagt hana fram, enda ekki um ágreining að ræða meðal þeirra sem mættu, þótt ég hefði fegin viljað.

Vill að þessu sé til haga haldið og rétt sé farið með.

10 júlí 2006

Vill stjórnarandstaðan atvinnuleysi?

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að slá á þenslu eru afar undarleg.
Stjórnarandstaðan gagnrýnir þær aðgerðir sem farið er í, en um leið eru þær ekki nægjanlega miklar og koma of seint.

Meira en þrír fjórðu útgjalda ríkisns eru laun og stór hluti þess niðurskurðar sem um ræðir hjá ríkinu í þessum aðgerðum er seinkun á fjárfestingum sem fara að hluta til í erlendan kostnað.

Þannig að ef ríkisstjórnin er ekki að gera rétt með því að fresta framkvæmdum, væri eina ráð hennar að draga úr launakostnaði. Það getur bara haft tvennt í för með sér, lækkun á launatöxtum eða uppsagnir á starfsfólki.

Þannig að það sem stjórnarandstaðan er í raun að leggja til með gagnrýni sinni, meðan hún kemur ekki með neinar aðrar raunhæfar tillögur, er að segja upp starfsfólki og koma á atvinnuleysi.Það væri björgulegt, eða hitt þó heldur.

22 júní 2006

Umbylting skattkerfisins með ofbeldi?

Nú liggur fyrir að ASÍ vill umbylta skattkerfinu og ýmsum öðrum málum í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, meðal annars að taka upp lægra skattþrep fyrir hluta vinnumarkaðarins. Virðist ASÍ gleyma því að á Íslandi er skattprósentan breytileg í gegnum persónuafsláttinn, þannig að þeir sem lægst hafa launin borga lægst hlutfall tekna sinna, meðan þeir sem hæst hafa launin borga allt að 38% af sínum heildartekjum í skatt. Það er eðlilegt og sanngjarnt. Að bæta við skattþrepi flækir kerfið og það eitt er afar slæmt, eykur möguleika á undanskotum og gæti einnig virkað vinnuletjandi fyrir þá sem yrðu á mörkum skattþrepanna. Eðlilegra er að hækka persónuafsláttinn, ef vilji er til að auka kjarajöfnun í gegnum skattkerfið.

Annað sem er afar varhugavert, er að hagsmunasamtök eins og ASÍ séu að beita sér í málum sem heyra ekki undir þau nema óbeint. Ákvörðun um pólitískt mál eins og skattheimtu er á valdi Alþingis og hefðin er sú að ríkisstjórnin leggur stefnumótun fyrir Alþingi til samþykktar, sem aftur hefur samráð við samfélagið, en ákvörðunin er ekki samtaka úti í bæ eins og ASÍ, þótt stór séu.

Það er grundvallaratriði í lýðræðinu og réttarríkinu að farið sé að þeim leikreglum sem gilda og verða aðilar samfélagsins að fara eftir þeim. Afar hættulegt er að gefa eftir fyrir þeim aðilum sem reyna að koma pólitískum skoðunum sínum í gegn með aðferðum sem mætti líkja við ofbeldi gegnum þau verkfæri til þvingunar sem þeim er veitt, t.d. í gegnum vinnulöggjöfina. Ef þetta verður ríkjandi er hætt við að þróunin verði frá réttarríki í átt til stjórnleysis. Þá fer illa.

16 júní 2006

Ríkur ríkari ....

Ég var að eignast son, sjá www.gestsson.blogspot.com

Það er á svona tímamótum sem maður áttar sig á því hvað maður er heppinn að eiga heima á Íslandi og áttar sig á því hvað maður gerir allt of lítið af því að þakka fyrir það góða sem gert hér á landi.

Börnum er ekki aðeins tryggður réttur til þess að umgangast foreldra sína fyrstu mánuðina, með rétti til foreldraorlofs án tekjumissis, almennt er samþykkt í samfélaginu að bæði kynin eigi að koma að uppeldi barnanna, heldur er okkur boðið upp á heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Manni finnst maður ekki bara eiga rétt á því að börnunum sé haldið á lífi, heldur má ekkert gerast þá verður að rannsaka það, meta og eftir atvikum að laga það og það strax.

Allt er þetta með því besta sem gerist í heimi og gagnrýnin, sem alltaf nóg er af, gengur út á að það sé eitthvað til svipað eða betra einhversstaðar annarsstaðar. Þá er alltaf miðað við það besta í heimi. Þetta eru merki um að þrátt fyrir miklar breytingar á síðustu áratugum er íslenska samfélagið ennþá heilbrigt og samkennd þjóðarinnar mikil og náungakærleikurinn þannig að lítil gagnrýni er á það hversu stór hluti samneyslunnar fer í heilbrigðiskerfið.

Ágæti þessa kerfis í heild sinni, sem eru jú sameiginleg viðbrögð okkar við breyttum atvinnuháttum og fjölskylduaðstæðum, er helst hægt að sjá í því að náttúruleg fjölgun er á Íslandi, meðan að samfélög í kringum okkur sem hafa lítinn stuðning við foreldra eiga við fækkun að stríða, sem er raunverulegt vandamál og ógn við samfélagsgerðina.

Takk. Ég er heppinn og er orðinn enn ríkari....

09 júní 2006

Óskhyggja Eiríks

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur og rithöfundur skrifar reglulega í Blaðið og núna síðast um þá tiltrú sína að Framsóknarflokkurinn sé í dauðastríði.
Það er leiðinlegt að bera honum þau tíðindi að sú óskhyggja hans getur ekki gengið upp. Framsóknarflokkurinn mun ekki líða undir lok. Það er, hefur verið og mun ávallt verða þörf fyrir frjálslyndan félagshyggjuflokk í íslenskum stjórnmálum. Það ætti hann sem fræðimaður í stjórnmálum helst að vita. Spurning hvort að Samfylkingarmaðurinn og rithöfundurinn hafi tekið völdin hjá honum.

Það er og verður þörf fyrir hina frjálslyndu og félagslegu rödd flokksins í íslenskum stjórnmálum. Þetta er hin sama rödd hógværðar og uppbyggingar og á auknu fylgi að fagna í þeim samfélögum sem eru líkust okkar að uppbyggingu, þ.e. á Norðurlöndunum. Aftur á móti á jafnaðarmennska sem byggist á útdeilingu gæða án sérstakrar áherslu á atvinnulífið, sem Samfylkingin aðhyllist, er á fallanda fæti í þeim samfélögum. Fylgi Jafnaðarmanna í Danmörku hefur fallið frá nánast hreinum meirihluta í tæpan fjórðung í dag. Svipaða þróun má sjá í Noregi og Svíþjóð. Hin merkilega tilraun, Samfylkingin, er því að öllum líkindum gerð á tímum sem þörfin fyrir hana er að minnka og “eðlilegt” fylgi hennar er ekki sá tæpi helmingur sem stofnendur hennar höfðu vænst, heldur frekar fjórðungur, í mesta lagi þriðjungur.

Á sama hátt virðist eðlilegt fylgi frjálslyndra félagshyggjuflokka vera um fjórðungur og eins og sakir standa á Framsóknarflokkurinn talsvert í land í þeim efnum. Líklegast er skýringin sú að atvinnuástand er með þeim hætti núna að nauðsyn áherslu Framsóknarflokksins á atvinnuuppbyggingu er ekki eins augljós og hún væri, ef atvinnuleysi væri til staðar. Þá eiga sjónarmið þeirra flokka sem einbeita sér fremur að skiptingu gæðanna en öflun þeirra, frekar upp á pallborðið, eins og nú um stundir. Eins eru margir frjálslyndir félagshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum, enda stefna Sjálfstæðisflokksins mun skemmra til hægri systurflokkar þeirra á Norðurlöndunum. Það má eiginlega segja að það séu frjálshyggjukjósendurnir sem eigi mest bágt, þeir hafa engan flokk að kjósa, sem kristallast í því að stuttbuxnadrengirnir könnuðust ekki við stefnu stóra Sjálfstæðisflokksins eins og hún birtist í sveitarstjórnarkosningunum.

Þannig að það má ljóst vera að ef íslenskt samfélag og þar með stjórnmálin, líkjast eitthvað þeim norrænu, mun Framsóknarflokkurinn ávallt verða til staðar, enda mikil þörf á þeim sjónarmiðum sem hann stendur fyrir, eins og það er þörf á sjónarmiðum hægrimanna, jafnaðarmanna og vinstrimanna við ákvarðanatöku í samfélaginu.

04 júní 2006

Lágkúran lækkar enn

Merði Árnasyni þykir ekkert tiltökumál og líklegast bara fyndið að Valgerði Sverrisdóttur sé hótað lífláti í kröfugöngum og á veggjum um alla Reykjavík. Lesið pistil hans sjálf hér og látið skoðun ykkar í ljós.