Gestur Guðjónsson

22 júní 2006

Umbylting skattkerfisins með ofbeldi?

Nú liggur fyrir að ASÍ vill umbylta skattkerfinu og ýmsum öðrum málum í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, meðal annars að taka upp lægra skattþrep fyrir hluta vinnumarkaðarins. Virðist ASÍ gleyma því að á Íslandi er skattprósentan breytileg í gegnum persónuafsláttinn, þannig að þeir sem lægst hafa launin borga lægst hlutfall tekna sinna, meðan þeir sem hæst hafa launin borga allt að 38% af sínum heildartekjum í skatt. Það er eðlilegt og sanngjarnt. Að bæta við skattþrepi flækir kerfið og það eitt er afar slæmt, eykur möguleika á undanskotum og gæti einnig virkað vinnuletjandi fyrir þá sem yrðu á mörkum skattþrepanna. Eðlilegra er að hækka persónuafsláttinn, ef vilji er til að auka kjarajöfnun í gegnum skattkerfið.

Annað sem er afar varhugavert, er að hagsmunasamtök eins og ASÍ séu að beita sér í málum sem heyra ekki undir þau nema óbeint. Ákvörðun um pólitískt mál eins og skattheimtu er á valdi Alþingis og hefðin er sú að ríkisstjórnin leggur stefnumótun fyrir Alþingi til samþykktar, sem aftur hefur samráð við samfélagið, en ákvörðunin er ekki samtaka úti í bæ eins og ASÍ, þótt stór séu.

Það er grundvallaratriði í lýðræðinu og réttarríkinu að farið sé að þeim leikreglum sem gilda og verða aðilar samfélagsins að fara eftir þeim. Afar hættulegt er að gefa eftir fyrir þeim aðilum sem reyna að koma pólitískum skoðunum sínum í gegn með aðferðum sem mætti líkja við ofbeldi gegnum þau verkfæri til þvingunar sem þeim er veitt, t.d. í gegnum vinnulöggjöfina. Ef þetta verður ríkjandi er hætt við að þróunin verði frá réttarríki í átt til stjórnleysis. Þá fer illa.

1 Comments:

At 30 júní, 2006 08:27, Blogger Fanny said...

Til hamingju með afmælisdaginn.

 

Skrifa ummæli

<< Home