Gestur Guðjónsson

09 júní 2006

Óskhyggja Eiríks

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur og rithöfundur skrifar reglulega í Blaðið og núna síðast um þá tiltrú sína að Framsóknarflokkurinn sé í dauðastríði.
Það er leiðinlegt að bera honum þau tíðindi að sú óskhyggja hans getur ekki gengið upp. Framsóknarflokkurinn mun ekki líða undir lok. Það er, hefur verið og mun ávallt verða þörf fyrir frjálslyndan félagshyggjuflokk í íslenskum stjórnmálum. Það ætti hann sem fræðimaður í stjórnmálum helst að vita. Spurning hvort að Samfylkingarmaðurinn og rithöfundurinn hafi tekið völdin hjá honum.

Það er og verður þörf fyrir hina frjálslyndu og félagslegu rödd flokksins í íslenskum stjórnmálum. Þetta er hin sama rödd hógværðar og uppbyggingar og á auknu fylgi að fagna í þeim samfélögum sem eru líkust okkar að uppbyggingu, þ.e. á Norðurlöndunum. Aftur á móti á jafnaðarmennska sem byggist á útdeilingu gæða án sérstakrar áherslu á atvinnulífið, sem Samfylkingin aðhyllist, er á fallanda fæti í þeim samfélögum. Fylgi Jafnaðarmanna í Danmörku hefur fallið frá nánast hreinum meirihluta í tæpan fjórðung í dag. Svipaða þróun má sjá í Noregi og Svíþjóð. Hin merkilega tilraun, Samfylkingin, er því að öllum líkindum gerð á tímum sem þörfin fyrir hana er að minnka og “eðlilegt” fylgi hennar er ekki sá tæpi helmingur sem stofnendur hennar höfðu vænst, heldur frekar fjórðungur, í mesta lagi þriðjungur.

Á sama hátt virðist eðlilegt fylgi frjálslyndra félagshyggjuflokka vera um fjórðungur og eins og sakir standa á Framsóknarflokkurinn talsvert í land í þeim efnum. Líklegast er skýringin sú að atvinnuástand er með þeim hætti núna að nauðsyn áherslu Framsóknarflokksins á atvinnuuppbyggingu er ekki eins augljós og hún væri, ef atvinnuleysi væri til staðar. Þá eiga sjónarmið þeirra flokka sem einbeita sér fremur að skiptingu gæðanna en öflun þeirra, frekar upp á pallborðið, eins og nú um stundir. Eins eru margir frjálslyndir félagshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum, enda stefna Sjálfstæðisflokksins mun skemmra til hægri systurflokkar þeirra á Norðurlöndunum. Það má eiginlega segja að það séu frjálshyggjukjósendurnir sem eigi mest bágt, þeir hafa engan flokk að kjósa, sem kristallast í því að stuttbuxnadrengirnir könnuðust ekki við stefnu stóra Sjálfstæðisflokksins eins og hún birtist í sveitarstjórnarkosningunum.

Þannig að það má ljóst vera að ef íslenskt samfélag og þar með stjórnmálin, líkjast eitthvað þeim norrænu, mun Framsóknarflokkurinn ávallt verða til staðar, enda mikil þörf á þeim sjónarmiðum sem hann stendur fyrir, eins og það er þörf á sjónarmiðum hægrimanna, jafnaðarmanna og vinstrimanna við ákvarðanatöku í samfélaginu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home