Gestur Guðjónsson

22 júní 2006

Umbylting skattkerfisins með ofbeldi?

Nú liggur fyrir að ASÍ vill umbylta skattkerfinu og ýmsum öðrum málum í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, meðal annars að taka upp lægra skattþrep fyrir hluta vinnumarkaðarins. Virðist ASÍ gleyma því að á Íslandi er skattprósentan breytileg í gegnum persónuafsláttinn, þannig að þeir sem lægst hafa launin borga lægst hlutfall tekna sinna, meðan þeir sem hæst hafa launin borga allt að 38% af sínum heildartekjum í skatt. Það er eðlilegt og sanngjarnt. Að bæta við skattþrepi flækir kerfið og það eitt er afar slæmt, eykur möguleika á undanskotum og gæti einnig virkað vinnuletjandi fyrir þá sem yrðu á mörkum skattþrepanna. Eðlilegra er að hækka persónuafsláttinn, ef vilji er til að auka kjarajöfnun í gegnum skattkerfið.

Annað sem er afar varhugavert, er að hagsmunasamtök eins og ASÍ séu að beita sér í málum sem heyra ekki undir þau nema óbeint. Ákvörðun um pólitískt mál eins og skattheimtu er á valdi Alþingis og hefðin er sú að ríkisstjórnin leggur stefnumótun fyrir Alþingi til samþykktar, sem aftur hefur samráð við samfélagið, en ákvörðunin er ekki samtaka úti í bæ eins og ASÍ, þótt stór séu.

Það er grundvallaratriði í lýðræðinu og réttarríkinu að farið sé að þeim leikreglum sem gilda og verða aðilar samfélagsins að fara eftir þeim. Afar hættulegt er að gefa eftir fyrir þeim aðilum sem reyna að koma pólitískum skoðunum sínum í gegn með aðferðum sem mætti líkja við ofbeldi gegnum þau verkfæri til þvingunar sem þeim er veitt, t.d. í gegnum vinnulöggjöfina. Ef þetta verður ríkjandi er hætt við að þróunin verði frá réttarríki í átt til stjórnleysis. Þá fer illa.

16 júní 2006

Ríkur ríkari ....

Ég var að eignast son, sjá www.gestsson.blogspot.com

Það er á svona tímamótum sem maður áttar sig á því hvað maður er heppinn að eiga heima á Íslandi og áttar sig á því hvað maður gerir allt of lítið af því að þakka fyrir það góða sem gert hér á landi.

Börnum er ekki aðeins tryggður réttur til þess að umgangast foreldra sína fyrstu mánuðina, með rétti til foreldraorlofs án tekjumissis, almennt er samþykkt í samfélaginu að bæði kynin eigi að koma að uppeldi barnanna, heldur er okkur boðið upp á heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Manni finnst maður ekki bara eiga rétt á því að börnunum sé haldið á lífi, heldur má ekkert gerast þá verður að rannsaka það, meta og eftir atvikum að laga það og það strax.

Allt er þetta með því besta sem gerist í heimi og gagnrýnin, sem alltaf nóg er af, gengur út á að það sé eitthvað til svipað eða betra einhversstaðar annarsstaðar. Þá er alltaf miðað við það besta í heimi. Þetta eru merki um að þrátt fyrir miklar breytingar á síðustu áratugum er íslenska samfélagið ennþá heilbrigt og samkennd þjóðarinnar mikil og náungakærleikurinn þannig að lítil gagnrýni er á það hversu stór hluti samneyslunnar fer í heilbrigðiskerfið.

Ágæti þessa kerfis í heild sinni, sem eru jú sameiginleg viðbrögð okkar við breyttum atvinnuháttum og fjölskylduaðstæðum, er helst hægt að sjá í því að náttúruleg fjölgun er á Íslandi, meðan að samfélög í kringum okkur sem hafa lítinn stuðning við foreldra eiga við fækkun að stríða, sem er raunverulegt vandamál og ógn við samfélagsgerðina.

Takk. Ég er heppinn og er orðinn enn ríkari....

09 júní 2006

Óskhyggja Eiríks

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur og rithöfundur skrifar reglulega í Blaðið og núna síðast um þá tiltrú sína að Framsóknarflokkurinn sé í dauðastríði.
Það er leiðinlegt að bera honum þau tíðindi að sú óskhyggja hans getur ekki gengið upp. Framsóknarflokkurinn mun ekki líða undir lok. Það er, hefur verið og mun ávallt verða þörf fyrir frjálslyndan félagshyggjuflokk í íslenskum stjórnmálum. Það ætti hann sem fræðimaður í stjórnmálum helst að vita. Spurning hvort að Samfylkingarmaðurinn og rithöfundurinn hafi tekið völdin hjá honum.

Það er og verður þörf fyrir hina frjálslyndu og félagslegu rödd flokksins í íslenskum stjórnmálum. Þetta er hin sama rödd hógværðar og uppbyggingar og á auknu fylgi að fagna í þeim samfélögum sem eru líkust okkar að uppbyggingu, þ.e. á Norðurlöndunum. Aftur á móti á jafnaðarmennska sem byggist á útdeilingu gæða án sérstakrar áherslu á atvinnulífið, sem Samfylkingin aðhyllist, er á fallanda fæti í þeim samfélögum. Fylgi Jafnaðarmanna í Danmörku hefur fallið frá nánast hreinum meirihluta í tæpan fjórðung í dag. Svipaða þróun má sjá í Noregi og Svíþjóð. Hin merkilega tilraun, Samfylkingin, er því að öllum líkindum gerð á tímum sem þörfin fyrir hana er að minnka og “eðlilegt” fylgi hennar er ekki sá tæpi helmingur sem stofnendur hennar höfðu vænst, heldur frekar fjórðungur, í mesta lagi þriðjungur.

Á sama hátt virðist eðlilegt fylgi frjálslyndra félagshyggjuflokka vera um fjórðungur og eins og sakir standa á Framsóknarflokkurinn talsvert í land í þeim efnum. Líklegast er skýringin sú að atvinnuástand er með þeim hætti núna að nauðsyn áherslu Framsóknarflokksins á atvinnuuppbyggingu er ekki eins augljós og hún væri, ef atvinnuleysi væri til staðar. Þá eiga sjónarmið þeirra flokka sem einbeita sér fremur að skiptingu gæðanna en öflun þeirra, frekar upp á pallborðið, eins og nú um stundir. Eins eru margir frjálslyndir félagshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum, enda stefna Sjálfstæðisflokksins mun skemmra til hægri systurflokkar þeirra á Norðurlöndunum. Það má eiginlega segja að það séu frjálshyggjukjósendurnir sem eigi mest bágt, þeir hafa engan flokk að kjósa, sem kristallast í því að stuttbuxnadrengirnir könnuðust ekki við stefnu stóra Sjálfstæðisflokksins eins og hún birtist í sveitarstjórnarkosningunum.

Þannig að það má ljóst vera að ef íslenskt samfélag og þar með stjórnmálin, líkjast eitthvað þeim norrænu, mun Framsóknarflokkurinn ávallt verða til staðar, enda mikil þörf á þeim sjónarmiðum sem hann stendur fyrir, eins og það er þörf á sjónarmiðum hægrimanna, jafnaðarmanna og vinstrimanna við ákvarðanatöku í samfélaginu.

04 júní 2006

Lágkúran lækkar enn

Merði Árnasyni þykir ekkert tiltökumál og líklegast bara fyndið að Valgerði Sverrisdóttur sé hótað lífláti í kröfugöngum og á veggjum um alla Reykjavík. Lesið pistil hans sjálf hér og látið skoðun ykkar í ljós.

03 júní 2006

Úrgangsolíubúnaður tekinn í notkun

Hef undanfarið verið að vinna að uppsetningu búnaðar til endurvinnslu úrgangsolíu, þannig að olían verður nýtanleg sem svartolía. Fór í útvarpsviðtal á Rás 1 um málið sem má heyra hér

02 júní 2006

Lýðræðið er í hættu

Umræða síðustu daga hefur verið hreint með ólíkindum. Ekki að hún sé neitt úr takti við umræðuna undanfarin misseri, en ávirðingar hóps manna, á netinu og nú síðast í prentmiðlum og ljósvakamiðlum undir forystu Ólafs Hannibalssonar um að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafi keypt sér atkvæði er með þeim hætti að ekki er hægt að sitja undir.

Mér þykir það merkileg tilviljun í meira lagi að þessi umræða skuli komast í hámæli rétt eftir að fréttir berast af því að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru kærðir fyrir mannrán. Þótt ég trúi því ekki að sá gjörningur hafi verið skipulagður af þeim sem stjórnuðu þar á bæ, heldur hafi einhverjir stuðningsmenn gengið of langt í hita leiksins, þá komast þeir upp með að segjast ekki ætla að tjá sig, þessi saga um Framsókn kemur upp og þar með er málið dautt!!!

Öll framboð eru einnig berskjölduð gagnvart því að einhverjir andstæðingar fari út á mörkina og bjóði mönnum pening fyrir að kjósa andstæðinginn. Sagan fer af stað og um leið og sagan er farin af stað er skaðinn skeður.

Það voru tvö framboð sem keyrðu hvað harðast gegn Framsóknarflokknum í Reykjavík, Frjálslyndir og VG. "Aldrei kaus ég Framsókn" slagorð VG er nýtt hámark lágmark lágkúrunnar. Athugið að sú auglýsing er gerð af framboðinu sjálfu, sem er stóralvarlegt mál og getur ekki annað en kallað á viðbrögð af hálfu flokksforystunnar.

Morðhótanir gagnvart Valgerði eru ekki gerðar af VG sjálfum, þótt þingmenn þess framboðs fordæmi ekki gjörninginn og séu frekar að verja þetta fólk en hitt. Svona vinnubrögð gerir það að verkum að heilbrigt fólk þorir ekki og getur varla kallað sig náttúruverndarsinna, til að vera ekki líkt við þetta fólk. Það er miður og stórskaðar málstaðinn.

Svona vinnubrögð gera það að verkum að viti borið fólk sem hefur góðar hugsjónir og vill samfélaginu vel, hugsar sig eðlilega vandlega um áður en það leggur nafn sitt, mannorð og heimili undir sem skotspænir slíkra afla. Verður það því til þess að stjórnmálin verða af miklum mannauð. Þessi öfl eru því hrein ógnun við lýðræðið og það hversu auðveldan aðgang þessi öfl hafa að fjölmiðlum en hinir venjulegu hófsömu raddir ekki er bein ógnun við lýðræðið. Það er ekki gott.