Umræða síðustu daga hefur verið hreint með ólíkindum. Ekki að hún sé neitt úr takti við umræðuna undanfarin misseri, en ávirðingar hóps manna, á netinu og nú síðast í prentmiðlum og ljósvakamiðlum undir forystu Ólafs Hannibalssonar um að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafi keypt sér atkvæði er með þeim hætti að ekki er hægt að sitja undir.
Mér þykir það merkileg tilviljun í meira lagi að þessi umræða skuli komast í hámæli rétt eftir að fréttir berast af því að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru kærðir fyrir mannrán. Þótt ég trúi því ekki að sá gjörningur hafi verið skipulagður af þeim sem stjórnuðu þar á bæ, heldur hafi einhverjir stuðningsmenn gengið of langt í hita leiksins, þá komast þeir upp með að segjast ekki ætla að tjá sig, þessi saga um Framsókn kemur upp og þar með er málið dautt!!!
Öll framboð eru einnig berskjölduð gagnvart því að einhverjir andstæðingar fari út á mörkina og bjóði mönnum pening fyrir að kjósa andstæðinginn. Sagan fer af stað og um leið og sagan er farin af stað er skaðinn skeður.
Það voru tvö framboð sem keyrðu hvað harðast gegn Framsóknarflokknum í Reykjavík, Frjálslyndir og VG. "Aldrei kaus ég Framsókn" slagorð VG er nýtt hámark lágmark lágkúrunnar. Athugið að sú auglýsing er gerð af framboðinu sjálfu, sem er stóralvarlegt mál og getur ekki annað en kallað á viðbrögð af hálfu flokksforystunnar.
Morðhótanir gagnvart Valgerði eru ekki gerðar af VG sjálfum, þótt þingmenn þess framboðs fordæmi ekki gjörninginn og séu frekar að verja þetta fólk en hitt. Svona vinnubrögð gerir það að verkum að heilbrigt fólk þorir ekki og getur varla kallað sig náttúruverndarsinna, til að vera ekki líkt við þetta fólk. Það er miður og stórskaðar málstaðinn.
Svona vinnubrögð gera það að verkum að viti borið fólk sem hefur góðar hugsjónir og vill samfélaginu vel, hugsar sig eðlilega vandlega um áður en það leggur nafn sitt, mannorð og heimili undir sem skotspænir slíkra afla. Verður það því til þess að stjórnmálin verða af miklum mannauð. Þessi öfl eru því hrein ógnun við lýðræðið og það hversu auðveldan aðgang þessi öfl hafa að fjölmiðlum en hinir venjulegu hófsömu raddir ekki er bein ógnun við lýðræðið. Það er ekki gott.