Gestur Guðjónsson

22 apríl 2006

Framkvæmdafælni Sjálfstæðisflokksins

Síðasta vor kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins framtíðarsýn sína í skipulagsmálum, byggð í Eyjarnar. Í dag heyrist ekkert um þetta mál frá Sjálfstæðisflokknum og virðast þeir hættir við það.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson tala í sama anda um Sundabrautina. Vilhjálmur segir framkvæmdunum sjálffrestað og í grein sinni um byggð í Úlfarsfellinu í Morgunblaðinu gengur Gísli Marteinn út frá því að Sundabraut muni ekki rísa með tali um umferðarteppu í Ártúnsbrekkunni. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé þar með að lýsa því yfir að hann sé líka hættur við Sundabrautina?

Í sömu grein lýsir hann því stórhuga skipulagi sem fyrir liggur í Úlfarsfelli og er greinilegt að framkvæmdafælnin nær tökum á honum, þegar hann lýsir því sem “bröttu”, básúnast yfir þeim fjölda íbúa sem geta búið þar og spyr hvar hitt fólkið eigi að búa sem ekki vilji búa í Úlfarsfellinu. Svarið við því er einfalt og ætti hann að geta sagt sér það sjálfur. Það mun búa annarsstaðar. Í núverandi byggð og á þéttingarsvæðum.

Þetta er sérstaklega undarlegt viðhorf hjá Gísla miðað við hvað Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur talað mikið um lóðaskort.

Klikkir hann út með því að segja “Látum þetta mál ekki verða efni í þrætubók í komandi kosningum. Náum frekar sátt um skynsamlegustu stefnuna fyrir alla borgarbúa.”
Gísli vill sem sagt ekki taka ákvarðanir og lætur þá framkvæmdafælni sem virðist svífa yfir vötnum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar ná tökum á sér. Slæmt að það skuli henda svona ungan mann.

18 apríl 2006

Til umhugsunar

Það er ekki oft sem maður er hrifinn af því sem stendur í vefþjóðviljanum, vefriti frjálshyggjumanna, en eftirfarandi er afar vel orðað.

"Fagmennska er heróp tímans. Nú skiptir ekki svo miklu máli hvort ákvörðun er rétt - en hamingjan hjálpi okkur ef hún var ekki tekin eftir öllum kúnstarinnar reglum. Sjaldan er spurt hvort ákvörðun sé rétt en oft hvernig hún hafi verið undirbúin."

17 apríl 2006

Skyldulesning

Valgerður Sverrisdóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skrifar frábært yfirlit yfir umræðuna þessa dagana í pistli á heimasíðu sinni.
http://www.valgerdur.is/index.php?frett_id=549&cat=pistlar
Skyldulesning

16 apríl 2006

Gleðilega páska

Svíar óska mönnum glaðra páska, Danir góðra páska og Þjóðverjar gleðilegra páska.

Vandamálið þessi misserin er að það er erfitt að gleðja stríðalið barn. Það er bara ekki til nógu stórt páskaegg virðist vera.

Kaupmátturinn hefur hækkað sem aldrei fyrr, aðgengið að fjármagni hefur aldrei verið auðveldara, þótt það sé dýrara en víðast annars staðar, atvinnuleysi er nánast ekki til staðar, allir fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og enginn líður skort, þótt endalaust sé hægt að hækka viðmiðið um það sem talið er lágmark.

Nú eru helstu vandræðin þau að það er til gamalt fólk sem þarf að vera í tveggja manna herbergjum. Menn tala um mannréttindabrot í þessu sambandi. Hver eru mannréttindabrotin hérna? Vissulega er það æskilegt að hver fái það einkalíf sem hann hefur þörf fyrir, en eru það mannréttindabrot?

Þeir sem tala á þann veg verða að muna að hugtakið mannréttindi var innleitt til að berjast fyrir réttinum til lífs, virðingar, tjáningar og skoðana. Persónulega er ég mikíð á móti því að vera að skilgreina hitt og þetta sem mannréttindi. Það eru ekki mannréttindi að fá heitar franskar með borgaranum þótt mér finnist það kannski sjálfsagt.

Meðan grundvallarmannréttindi eru brotin á einhverjum manni, hann sviptur réttinum til lífs, skoðana, virðingar og tjáningar er hræsni að tala um önnur atriði og réttindi, hversu sjálfsögð sem okkur kann að þykja þau, sem mannréttindi.

Höfum það hugfast og munum að við erum heppin að vera fædd á þessari blessuðu eyju.

Gleðilega páska.

10 apríl 2006

Skattastefnan er mikilsvirkasta menntastefnan

Grundvöllur framtíðarhagsældar á Íslandi er hátt menntunarstig. Um það eru allir sammála, amk eru þær raddir sem halda öðru fram afar mjóróma og hafa farið framhjá mér.

Til þess að svo megi verða þarf tvennt að koma til, góðir skólar og svo nemendur til að kenna.

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um skólana sjálfa og rekstur þeirra, námsframboð, framhaldsnám og skólagjöld og svona mætti lengi telja, en ekkert hefur borið á hinum hluta umræðunnar, það er að skapa ramma sem hvetur fólk til að fara í skóla.

Kannski er það vegna þess að á Íslandi er ríkisstjórn sem skilur hvaða gildi það hefur að fólk sjái greinilegan ábata af því að ganga menntaveginn. Hefur hún lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að leggja ekki of mikla álögur á þann ábata sem námið hefur í för með sér í launaumslaginu og einnig með lækkun endurgreiðslubyrði námslána.

Samfylkingin hefur lagt fram tillögur um breytingar á skattkerfinu í þá átt að með hærri tekjum hækki skattprósentan, umfram þau áhrif sem persónuafsláttarurinn hefur og mótmælt niðurfellingu hátekjuskatts.

Sem betur fer er ekki hlustað á þessar skammsýnu tillögur, en þær myndu hafa það í för með sér að hvati nemenda til að leggja í frekara nám minnkar, þar sem sá ábati sem þeir geta reiknað sér fyrir þá fyrirhöfn er skattlagður meira og minna yrði eftir í launaumslaginu. Ekki síður er ósanngjarnt og óskynsamlegt að skattleggja með hærri prósentu hærri tekjur þeirra sem eiga styttri starfsævi vegna skólagöngu en tekjur þeirra sem ekki fara í skóla geta unnið lengur en með lægri tekjur greiða lægri prósentu fyrir af ævitekjunum.

Það sem þó er enn mikilvægara er að með aukinni skattbyrði á hærri tekjur er fyrirtækjum gert kostnaðarsamara að ráða til sín vel menntað fólk í vel launuð störf. Verður það til þess að þeim störfum fjölgar síður eða hægar hér á landi og flytjast þau frekar úr landi. Á slíkum hæfileikaskatti, braintax, tapa allir; fyrirtækin, launþegar og samfélagið allt. En samt er þetta stefna Samfylkingarinnar, eins gott að hún er ekki við völd, því þá væri hellingi af peningum ausið í tóma skóla.

05 apríl 2006

Sundabraut – auðvitað ytri leið

Í umræðunum um Sundabraut stendur valið milli tveggja meginkosta, annarsvegar innri leiðar, þar sem farið yrði yfir ósa Elliðaár, þeim breytt og tenging yrði við Sæbraut og Reykjanesbraut við Kleppsmýrarveg ytri leiðar. Hins vegar stendur valið um hina svokölluðu ytri leið, sem hábrú eða göng, sem tengdust inn á Sæbraut við Klepp.

Ljóst er að ytri leiðin tengir þessi hverfi frekar við miðbæinn, meðan innri leiðin beinir umferðinni frekar suður Reykjanesbrautina í átt að Smáranum. Ytri leiðinn verður því til þess að miðbærinn ætti að eiga betri möguleika í samkeppni við stóru verslunarmiðstöðvarnar meðan innri leiðin gæti leitt til enn frekari hnignunar miðbæjarins, sem miklum fjármunum hefur verið varið í að verja á undanförnum árum og samstaða hefur verið um að berjast gegn meðal allra flokka.

Innri leiðin tengist við Sæbrautina í byggðu hverfi, þar sem þröngt er um tengimannvirki og gatnamótin eru auk þess afar nærri öðrum stórum gatnamótum, sem eykur líkur á slysum verulega, enda ná ökumenn vart að klára ein gatnamót þegar önnur taka við.

Ljóst er að kostnaðarmunur á þessum leiðum er einhver, svo munar nokkrum milljörðum. En í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna sem huga þarf að á öllum líftíma mannvirkjanna gætu þeir þá ekki verið smáaurar í heildarmyndinni?

Gróft áætlað er fasteignaverð íbúðarhúsnæðis í Grafarvogi og nágrannahverfum sem tengjast á þann hátt miðbænum um 100 milljarðar króna. Íbúðarhúsnæði í miðbænum og verslunarhúsnæði er af svipaðri stærðargráðu hið minnsta. Breytingar á húsnæðisverði vegna þessarar ákvörðunar þarf því ekki að vera nema örfá prósent til að greiða þennan mismun og er ljóst að um mun minni hækkun yrði að ræða ef innri leiðin yrði valin. Auk þess sem kostir ytri leiðarinnar gagnvart núverandi byggð eru ótvíræðir, eru þeir ekki síður ótvíræður gagnvart þeim hverfum sem eftir er að byggja norðan Elliðavogs og ekki síður Mosfellsbæjar.

Eru þá ótalin þau áhrif sem val ytri leiðarinnar hefur til minnkunnar álags á þegar yfirlestaða Miklubrautina sem færðist á Sæbrautina sem getur auðveldlega tekið við meiri umferð og auðvelt er að breikka án mikils rasks. Þar liggja örugglega margra milljarða hagsmunir einnig.

Er því alveg ljóst að við ytri leiðin er mun hakvæmari þegar allt er tekið með í reikninginn, enda byggingarkostnaður smámunir miðað við rekstrarkostnað mannvirkisins, samgöngukerfisins í heild sinnis og vegfarenda.
Við ákvarðanatökuna þurfa því að liggja fyrir tölur um heildaráhrif á húsnæðisverð, áhrif á þarfir á öðrum umferðarmannvirkjum, slysatíðni, byggingarkostnaður mannvirkis, tími ökumanna, eldsneytiskostnaður, umferðarflæði og áhrif á skipulag og framtíðar byggingarlönd. Á grundvelli þess og þess einvörðungu eiga menn að taka ákvörðun. Kostnaður mannvirkisins sjálfs verða smámunir í því sambandi.
Annars haga menn sér eins og maðurinn sem aðspurður var að höggva stein, meðan að hann hefði átt að átta sig á því að hann væri að byggja hús.