Gestur Guðjónsson

22 apríl 2006

Framkvæmdafælni Sjálfstæðisflokksins

Síðasta vor kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins framtíðarsýn sína í skipulagsmálum, byggð í Eyjarnar. Í dag heyrist ekkert um þetta mál frá Sjálfstæðisflokknum og virðast þeir hættir við það.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson tala í sama anda um Sundabrautina. Vilhjálmur segir framkvæmdunum sjálffrestað og í grein sinni um byggð í Úlfarsfellinu í Morgunblaðinu gengur Gísli Marteinn út frá því að Sundabraut muni ekki rísa með tali um umferðarteppu í Ártúnsbrekkunni. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé þar með að lýsa því yfir að hann sé líka hættur við Sundabrautina?

Í sömu grein lýsir hann því stórhuga skipulagi sem fyrir liggur í Úlfarsfelli og er greinilegt að framkvæmdafælnin nær tökum á honum, þegar hann lýsir því sem “bröttu”, básúnast yfir þeim fjölda íbúa sem geta búið þar og spyr hvar hitt fólkið eigi að búa sem ekki vilji búa í Úlfarsfellinu. Svarið við því er einfalt og ætti hann að geta sagt sér það sjálfur. Það mun búa annarsstaðar. Í núverandi byggð og á þéttingarsvæðum.

Þetta er sérstaklega undarlegt viðhorf hjá Gísla miðað við hvað Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur talað mikið um lóðaskort.

Klikkir hann út með því að segja “Látum þetta mál ekki verða efni í þrætubók í komandi kosningum. Náum frekar sátt um skynsamlegustu stefnuna fyrir alla borgarbúa.”
Gísli vill sem sagt ekki taka ákvarðanir og lætur þá framkvæmdafælni sem virðist svífa yfir vötnum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar ná tökum á sér. Slæmt að það skuli henda svona ungan mann.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home