Gestur Guðjónsson

16 apríl 2006

Gleðilega páska

Svíar óska mönnum glaðra páska, Danir góðra páska og Þjóðverjar gleðilegra páska.

Vandamálið þessi misserin er að það er erfitt að gleðja stríðalið barn. Það er bara ekki til nógu stórt páskaegg virðist vera.

Kaupmátturinn hefur hækkað sem aldrei fyrr, aðgengið að fjármagni hefur aldrei verið auðveldara, þótt það sé dýrara en víðast annars staðar, atvinnuleysi er nánast ekki til staðar, allir fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og enginn líður skort, þótt endalaust sé hægt að hækka viðmiðið um það sem talið er lágmark.

Nú eru helstu vandræðin þau að það er til gamalt fólk sem þarf að vera í tveggja manna herbergjum. Menn tala um mannréttindabrot í þessu sambandi. Hver eru mannréttindabrotin hérna? Vissulega er það æskilegt að hver fái það einkalíf sem hann hefur þörf fyrir, en eru það mannréttindabrot?

Þeir sem tala á þann veg verða að muna að hugtakið mannréttindi var innleitt til að berjast fyrir réttinum til lífs, virðingar, tjáningar og skoðana. Persónulega er ég mikíð á móti því að vera að skilgreina hitt og þetta sem mannréttindi. Það eru ekki mannréttindi að fá heitar franskar með borgaranum þótt mér finnist það kannski sjálfsagt.

Meðan grundvallarmannréttindi eru brotin á einhverjum manni, hann sviptur réttinum til lífs, skoðana, virðingar og tjáningar er hræsni að tala um önnur atriði og réttindi, hversu sjálfsögð sem okkur kann að þykja þau, sem mannréttindi.

Höfum það hugfast og munum að við erum heppin að vera fædd á þessari blessuðu eyju.

Gleðilega páska.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home