Gestur Guðjónsson

30 maí 2005

Vaxtabótakerfið – gott kerfi

Á heimasíðu Samtaka Atvinnulífsins var í vikunni vakin umræða um vaxtabótakerfið. Sú grein er rituð í framhaldi af skýrslu OECD, sem leggur til að vaxtabætur eigi að lækka til að slá á þenslu á fasteignamarkaði. En er það vaxtabótakerfið sem er að valda þessari þenslu?

Það er tilgangur vaxtabótakerfisins að auðvelda eignalitlu og tekjulitlu fólki að koma sér þaki yfir höfuðuð og þar með að lækka álagið á húsaleigubótunum til lengri tíma litið. Má því segja að vaxtabótakerfið stuðli að því að útgjöld hins opinbera lækki með árunum eða í það minnsta að framlög í þennan málaflokk hækki minna.

Hámarksupphæð vaxtabótanna veldur því að fólk er ekki styrkt til kaupa á rándýru húsnæði. Miðað við 4,15% vexti fást einungis vaxtabætur fyrir þann hluta lánanna sem er undir 11,6 milljónum fyrir einstakling og 18,8 fyrir hjón. Fólk fær sem sagt ekki vaxtabætur fyrir lánum umfram þessar upphæðir og er ekki hægt að segja að þetta séu yfirmáta háar upphæðir miðað við húsnæðisverðið í dag.

Í umræðunni hafa verið hugmyndir um hvort taka eigi upp húsnæðisframlag frekar og hætta að gera greinarmun á því hvaða búsetuform er að ræða, þ.e.a.s. hvort verið sé í leigu-, eignar- eða kaupleiguíbúð, en kosturinn við vaxtabæturnar umfram leigubótakerfið er að með tímanum hækkar eignarhlutfall fólks og þar með minnkar rétturinn til vaxtabóta, sem ekki er tilfellið með húsaleigubæturnar. Að tímabinda þennan rétt er einnig erfitt, því það er svo sáraeinfalt að komast framhjá því og kerfið má ekki ýta undir almennar svindlleiðir, það grefur undan virðingu manna fyrir kerfinu og er einfaldlega ósanngjarnt gagnvart þeim sem vilja lifa heiðarlegu lífi.

Vaxtabæturnar eru bundnar skilyrðum um hámarkseign og hámarkstekjur, en það er algerlega óskiljanlegt að það mismuni hjúskaparformum eins og gert er þegar einstæðir foreldrar eru verðlaunaðir sérstaklega og pör eru látin gjalda þess að vera skráð í sambúð eða gift. Eins gerir kerfið ekki ráð fyrir sameiginlegri forsjá barna. Þetta er eitt af þeim gloppum í kerfinu sem ýta undir gerviskilnaði og hagkvæmnishjúskaparleysi. Sömuleiðis er ekki tekið tillit til stærðar fjölskyldna við ákvörðun vaxtabóta. Það er hverjum ljóst að barnlaust par þarf ekki eins dýrt húsnæði og barnmörg fjölskylda. Væri því eðlilegt að hvert barn gæfi myndi einhvern rétt að vaxtabótum, t.d. fjórðung þeirrar upphæðar sem fullorðinn einstaklingur hefur.

Afar varasamt er að breyta miklu í þessu kerfi, en ávallt má þó endurskoða upphæðir miðað við þróun á markaðinum, en ljóst er að þeir sem þegar hafa stofnað til skuldbindinga m.a. með hliðsjón af þessu fyrirkomulagi verða að vera fullvissir um að það kerfi haldist í heiðri og ekki sé von á skerðingu. Helst væri hægt að höggva í eignahlutfallið, þ.e.a.s. að lækka þann þröskuld þar sem að eigin eign fer að skerða réttinn, en á móti væri eðlilegt að hækka tekjuþröskuldinn eða jafnvel að fella hann alveg út, þar sem um enn eina jaðarskattlagninguna er að ræða.

En allt í allt er þetta gott kerfi sem á fullkominn rétt á sér.

20 maí 2005

Hvaða áhrif hafa stjórnmálin og stjórnmálamenn?

Það er öllum hollt að velta fyrir öðru hverju fyrir sér hvort og þá hvaða áhrif stjórnmálin hafa á samfélagið; Hvort það séu stjórnmálin sem hafi áhrif á samfélagið eða hvort það sé kannski frekar samfélagið sem hafi áhrif á stjórnmálin, sem eru þá um leið orðin spéspegill þess sem er að gerast út í hinum “raunverulega” heimi. Nema það sé blanda af hvoru tveggja.

Í góðri grein eftir Braga Guðmundsson sem birtist í morgunpósti VG þann 18. maí sl um grein sem birtist í Politiken sem fjallaði um umfjöllun um bók sem var gefin út fyrir rúmum áratug orðar hann þetta ágætlega þegar hann veltir því fyrir sér hvort niðurstöður úr pólitískum og stríðsátökum hafi í raun nokkur áhrif á söguna til lengri tíma litið:

“Þessi umræða er áhugaverð vegna þess að hún byggir á þeirri skoðun að söguleg þróun gerist bæði til skamms tíma og í lengri bylgjum. Skammtímaáhrifin tengjast ákvörðunum misviturra stjórnmálamanna, t.d. þeirra að hefja stríð, og þau hafa sjaldan áhrif til lengri tíma. Langtímasveiflurnar orsakast hins vegar af þróun atvinnuhátta, efnahagsaðstæðna og tækniframförum sem skammsýnir pólitíkusar hafa oftast lítil áhrif á.”

Færir hann rök fyrir því að líklegast hefði heimurinn í heild sinni ekki verið mikið öðruvísi þótt Þjóðverjar hefðu unnið heimstyrjöldina síðari. En er það endilega svo að stjórnmálin hafi engin áhrif á heiminn, nema til skamms tíma og að litlu leyti?

Það má með sanni segja að stór hluti af þeirri þjóðfélagsumræðu sem fer fram dags daglega geri það ekki og má með sanni segja að skammsýnir pólitíkusar stjórni umræðunni um of. Hvaða áhrif ætli örlög fjölmiðlalaganna, meint helsta rós í hnappagat stjórnarandstöðunnar, hafi á líf okkar eftir áratug eða svo? Engin. Hvaða áhrif ætli seinkun gildistöku laga um Ríkissjónvarpið hafi á líf okkar í framtíðinni? Engin. Hvaða áhrif ætli umræða um fundarstjórn Forseta Alþingis hafi á líf okkar í framtíðinni? Engin. Hvaða áhrif ætli gaspur um meinta bissniskrimma undir meintum pilsfaldi ríkisstjórnarflokkanna hafi á líf okkar í framtíðinni? Engin. Svona mætti lengi halda áfram.

Það sem máli skiptir fyrir framtíðina er, að samfélagið geti þróast með eðlilegum hætti og verkefni stjórnmálanna er að tryggja að það geti það með öfgalausri stefnumörkun, þar sem áhersla er lögð á að atvinnulífið fái að þróast eðlilega í heilbrigðu umhverfi með háu atvinnustigi, að efnahagslegur stöðugleiki sé tryggður og að hlúð sé að menntun og uppeldi þeirra sem á eftir okkur koma. Það er ekki skammsýni og það er nákvæmlega stefna Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Sem betur fer hefur hún haldið ótrauð áfram í vegferð sinni á þeirri braut, þrátt fyrir að stundarathyglisþörf sumra stjórnarandstöðuþingmanna hafi náð að þyrla miklu ryki í augu síþyrstra fjölmiðla sem aftur hafa áhrif á almenning, eins og berlega hefur komið í ljós í skoðanakönnunum undanfarið.

Það verður bara að hafa það þótt skammtímahagsmunirnir og athyglissýkin selji til skamms tíma, viljinn til að bæta samfélagið til lengri tíma með hófsamri stefnu Framsóknarflokksins verður að fá að ráða og á þann hátt eingöngu getur hann haft áhrif til framtíðar, eins og hann hefur gert síðustu 89 árin eða svo. Höldum því áfram.

13 maí 2005

Misnotkun velferðarkerfisins

Það er gott að búa á Íslandi. Hér er velferðarkerfi með því besta sem þekkist, heilbrigðisþjónusta í fremstu röð og samfélagið heilbrigt og gott, svona heilt yfir að líta.

Velferðarkerfið og þar með bótakerfið, með atvinnuleysis-, örorku-, barna-, húsaleigu- og öðrum bótum tekur til sín stóran hluta þeirra skatttekna sem hinar vinnandi hendur og neysla reiðir af hendi í ríkissjóð. Er það vel og er ekki hægt að sjá eftir þeim fjármunum, svo lengi sem þeir renna til fólks sem sannarlega og réttilega hefur þörf fyrir þá, enda vil ég að samfélagið grípi mig í net sitt, komi eitthvað fyrir hjá mér og sama á að sjálfsögðu að gilda um aðra.

En því miður virðist hugarfar sums fólks ekki vera nægjanlega þroskað til að standast þær freistingar til misnotkunar sem í slíku neti felast og skapa því allt of margir gerviaðstæður þannig að fólk fái meira greitt en því raunverulega ber, til dæmis með gerviskilnuðum, uppgerðri örorku og. Það er svo þægilegt að sækja sér aukapening í hítina oft fleiri hundruð þúsunda bara með því að hagræða hjúskaparstöðu sinni, án þess að viðkomandi hugsi út í eða axli ábyrgð á því að það sé með framferði sínu að taka frá þeim sem virkilega þurfa á þeim fjármunum sem í velferðina fara að halda.

Það er því fagnaðarefni að Heilbrigðis- og tryggingaráðherra ætli að skera upp herör gagnvart slíku misferli og er vonandi að sem víðtækast samstarf náist í allri stjórnsýslunni um þær aðgerðir. Fara verður afar varlega í þessar aðgerðir, svo ekki sé hætta á því að þeir sem raunverulega eiga rétt og þurfa á bótum úr sameiginlegum sjóðum verði fyrir ónauðsynlegu áreiti eða niðurlægingu og þaðan af síður bótamissi.

Þeim sem ofbýður framferði fólks í kringum sig, er samt ekki gert lífið þægilegt, vilji það láta vita af misjöfnum. Alls staðar, nema hjá Ríkisskattstjóra, þarf sá sem segir til um hugsanlegt misferli að segja til nafns og sá sem grunurinn beinist að hefur heimtingu gagnvart stjórnsýslu og upplýsingalögum að fá uppgefið hver “klagaði” viðkomandi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og á meðan að ekki er hægt að benda yfirvöldum nafnlaust á misferli, velur fólk frekar að brjóta lög með því að þegja yfir misferli en að lenda í þeim óþæginum sem af nafnbirtingunni stafar. Þetta veit það fólk sem stundar misferlið og verður sífellt kræfara.

Það er verkefni næsta þings að leiðrétta og koma á betri veg, þannig að hægt sé að benda á misferli án þess að lenda í vandræðum sjálfur, jafnvel þótt sumir komi til með að uppnefna það og fara að vísa í það ástand sem svo vel var lýst í bók Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatni af nágrannaeftirliti kommúnismans, kannski vegna þess að viðkomandi hafa eitthvað að fela.

02 maí 2005

Sundabraut - mikilvægt val

27. apríl 2005
Á næstu dögum munu liggja fyrir niðurstöður umhverfismats Sundabrautar. Valið stendur milli tveggja meginkosta, annarsvegar innri leiðar, þar sem farið yrði yfir ósa Elliðaár, þeim breytt og tenging yrði við Sæbraut og Reykjanesbraut við Kleppsmýrarveg ytri leiðar. Hins vegar stendur valið um hina svokölluðu ytri leið, sem hábrú eða göng, sem tengdust inn á Sæbraut við Klepp.

Umferðarlega og þó sérstaklega í hugum fólks er ljóst að ytri leiðin tengir þessi hverfi frekar við miðbæinn, meðan innri leiðin beinir umferðinni frekar suður Reykjanesbrautina í átt að Smáranum. Ytri leiðinn verður því til þess að miðbærinn ætti að eiga betri möguleika í samkeppni við stóru verslunarmiðstöðvarnar meðan innri leiðin gæti leitt til enn frekari hnignunar miðbæjarins, sem miklum fjármunum hefur verið varið í að verja á undanförnum árum og samstaða hefur verið um að berjast gegn meðal allra flokka.

Innri leiðin tengist við Sæbrautina í byggðu hverfi, þar sem þröngt er um tengimannvirki og gatnamótin eru auk þess afar nærri öðrum stórum gatnamótum, sem eykur líkur á slysum verulega, enda ná ökumenn vart að klára ein gatnamót þegar önnur taka við.

Ljóst er að kostnaðarmunur á þessum leiðum er einhver, svo munar nokkrum milljörðum. En í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna sem huga þarf að á öllum líftíma mannvirkjanna gætu þeir þá ekki verið smáaurar í heildarmyndinni?

Afar gróft áætlað er fasteignaverð íbúðarhúsnæðis í Grafarvogi og nágrannahverfum sem tengjast á þann hátt miðbænum um 100 milljarðar króna. Íbúðarhúsnæði í miðbænum og verslunarhúsnæði er af svipaðri stærðargráðu hið minnsta. Breytingar á húsnæðisverði vegna þessarar ákvörðunar þarf því ekki að vera nema örfá prósent til að greiða þennan mismun og er ljóst að um mun minni hækkun yrði að ræða ef innri leiðin yrði valin. Auk þess sem kostir ytri leiðarinnar gagnvart núverandi byggð eru ótvíræðir, eru þeir ekki síður ótvíræður gagnvart þeim hverfum sem eftir er að byggja norðan Elliðavogs og ekki síður Mosfellsbæjar.

Eru þá ótalin þau áhrif sem val ytri leiðarinnar hefur til minnkunnar álags á þegar yfirlestaða Miklubrautina sem færðist á Sæbrautina sem getur auðveldlega tekið við meiri umferð og auðvelt er að breikka án mikils rasks. Þar liggja örugglega margra milljarða hagsmunir einnig.

Er því alveg ljóst að við ákvarðanatöku í þessu máli verður að taka tillit til heildarmyndarinnar í dag og á öllum líftíma mannvirkisins. Við ákvarðanatökuna þurfa því að liggja fyrir tölur um heildaráhrif á húsnæðisverð, áhrif á þarfir á öðrum umferðarmannvirkjum, slysatíðni, byggingarkostnaður mannvirkis, tími ökumanna, eldsneytiskostnaður, umferðarflæði og áhrif á skipulag og framtíðar byggingarlönd. Á grundvelli þess og þess einvörðungu eiga menn að taka ákvörðun. Kostnaður mannvirkisins sjálfs verða smámunir í því sambandi.

15. apríl 2005
Nú liggur fyrir hinu háa Alþingi tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Það má kalla harla kúnstugt að um leið og stöðugt er verið að kalla eftir meiri þrískiptingu valdsins í löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald, skuli málum þannig fyrir komið að stóru framkvæmdaratriðin skuli ákveðin af löggjafarvaldinu.

Ekki að það sé klókt að fram fari opin umræða um hvernig fara skuli með skattfé borgaranna, en það er í hæsta máta umhugsunarefni að málum skuli vera þannig fyrirkomið að hlutirnir séu meira og minna komnir á haus, löggjafinn að ákveða framkvæmdafé um leið og framkvæmdavaldið sér um að semja og hafa frumkvæði að nánast allri löggjöf þjóðarinnar.

Það er ekki meginefni þessarar greinar, um það hefur verið fjallað áður og verður eflaust gert aftur, en væri ekki eðlilegra að Alþingi tæki ákvörðun eftir hvaða meginlínum ætti að ráðstafa fénu? Er ekki eðlilegra að Alþingi ákveði hvaða lágmarksþjónustustig borgarar landsins eigi að búa við og svo væri það framkvæmdavaldsins að forgangsraða þeim verkefnum á þann veg að þau verkefni sem brýnust væru fengju forgang í stað þess að á Alþingi sé verið að karpa um hvort þessi eða hinn vegspottinn eigi að vera malbikaður?

Í umræðum síðustu daga hefur nánast ekkert heyrst um meginstefnumið samgönguáætlunarinnar. Það er að það sé í mesta lagi 1 klst ferðalag í næsta stóra þjónustukjarna og í mesta lagi 4 klst ferðalag til Höfuðborgarinnar, hvaðan af landinu sem er. Reyndar er ekkert kveðið á um hver hámarkskostnaður við þetta ferðalag mætti vera. Það væri réttlætismál að gera það.

Það hlýtur að vera fyrsta forgangsmál yfirvalda að ná þessu markmiði og að það ferðalag uppfylli lágmarkskröfur nútímans; Öruggar og þægilegar flugvélar, öruggar ferjur sem fara vel í sjó og öruggir og malbikaðir vegir. Fjárveitingar til annarra leiða ættu að sitja á hakanum, nema að annaðhvort sé um að ræða skilgreinda slysagildrur, svokallaða svartbletti, sem einbreiðu brýrnar eru oft eða að hinsvegar sé að um ræða samgöngubót sem sé svo þjóðhagslega hagkvæm að ekki sé forsvaranlegt annað en að ráðast í hana. Er óeðlilegt annað en að þeim framkvæmdum sé forgangsraðað eftir slysatíðni annars vegar og arðsemi hinsvegar, sem mæld er sem innri vextir fjárfestingarinnar, þar sem tekið er tillit til fjárfestingar, slysakostnaðar, tímanotkunnar ökumanna, eldsneytiseyðslu, sliti á vegum, sliti á bílum, viðhaldi á vegum, o.s.frv.

Fjárveitingar til annarra framkvæmda hlýtur að þurfa að gaumgæfa á réttum forsendum. Ef verið er að fara í samgöngubætur vegna byggðasjónarmiða hlýtur að verða að taka upplýsta ákvörðun um það. Upplýsta ákvörðun, þar sem sá kostnaður sem lagt er til að farið sé út í sé borinn saman við þau byggðamarkmið sem nást af viðkomandi framkvæmd. En um leið og það er gert er nauðsynlegt að innri vextir, arðsemin af viðkomandi framkvæmd sé uppi á borðinu þegar ákvörðunin er tekin. Ekki má skilja orð mín þannig að ég sé á móti því að farið sé í samgöngubætur til að styrkja byggðir landsins, en það er nauðsynlegt að menn taki um það upplýsta ákvörðun, þannig að öllum megi ljóst vera hvaða ákvörðun sé verið að taka. Reyndar má alveg spyrja sig hvort eðlilegt sé að fé til slíkra framkvæmda sé tekið af mörkuðum tekjustofnum samgangna, hvort ekki sé eðlilegra að slíkar fjárveitingar séu nefndar sínu rétta nafni og teknar af fé til byggðamála. En þrátt fyrir það hlýtur það að vera sjálfsögð krafa að í samgönguáætlun sé gert arðsemismat á hverja einustu framkvæmd sem lagt er til að farið sé í, svo Alþingismenn eigi nokkurn möguleika á að taka upplýstar ákvarðanir í þessum málaflokki.

07. apríl 2005
Þann 1. apríl, þegar flestir fjömiðlar voru að koma Bobby Fischer í fjöltefli um allar trissur, kom einn fjölmiðillinn með eitt það athyglisverðasta aprílgabb sem ég hef lengi séð. En það var gabbfrétt um að fuglaflensa væri komin til landsins.

Ef fuglaflensa eða önnur drepsótt breiðist út á heimsvísu, er nauðsynlegt að hægt sé að grípa til allra þeirra ráðstafana sem hægt er til að koma í veg fyrir að sóttin geti borist til landsins eða að gefa yfirvöldum að minnsta kosti lengri tíma til að undirbúa viðbrögð við henni. Eitt það öflugasta sem hægt er að gera til að ná þeim markmiðum ef slíkt neyðarástand skapast væri að leggja landið í sóttkví. Íslendingar eru það heppnir að búa á eyju sem á mun einfaldari hátt er hægt að einangra en þær þjóðir sem í kringum okkur eru upplifa.

En grundvallarskilyrði fyrir því að þetta sé hægt og við getum nýtt okkur þessi forréttindi er að við getum lifað af að leggja okkur í sóttkví á stundum sem þessum. Við eigum ekki í vandræðum með að skaffa okkur vatn, orka er ekki af skornum skammti, nema kannski jarðefnaeldsneyti, en það sem er viðkvæmast er matvælaöryggi þjóðarinnar.

Ef við lentum í því að þurfa að einangra okkur í mánuð eða lengur þurfum við að geta brauðfætt okkur og getað lifað nokkuð sómasamlegu lífi til að sæmilegur friður geti ríkt um þá aðgerð. Þar gegnir innlend matvælaframleiðsla algeru lykilhlutverki.

Grænmetisframleiðsla, kjötframleiðsla, mjólkurframleiðsla og fiskveiðar verða því að að vera til staðar í landinu eða að við neyðumst til að koma okkur upp matarlagerum til að bregðast við slíku ástandi sem getur jú komið upp hvenær sem er.

Rétt er að þeir sem tala á móti íslenskum landbúnaði hafi það í huga hvernig þeir ætla að bregðast við slíku ástandi og hvort þeim fjármunum sem þá væri nauðsynlegt að eyða til að eiga ávallt nægjanlegar matarbirgðir í landinu fyrir slíkt ástandi sé ekki betur nýttir í að viðhalda sjálfbærni þjóðarinnar.

Ljóst er að kjötframleiðsla sem byggir eingöngu á innfluttu fóðri getur ekki talist sjálfbær í þessu tilliti, meðan að framleiðsla á nautakjöti og þó sérstaklega hrossakjöti og kindakjöti getur aftur á móti auðveldlega þrifist án innflutnings á korni og er því sú framleiðsla sem tryggja þarf að sé ávallt til staðar í þeim mæli að hún geti fætt þjóðina.

Meðal annars með þetta að leiðarljósi hefur ríkisvaldið undir dyggri forystu Framsóknarflokksins í málaflokknum unnið að því að tryggja viðgang íslensks landbúnaðar og verður að gera það áfram og þá sérstaklega í sauðfjárræktinni þar sem afkoma greinarinnar er með þeim hætti að til vandræða horfir og nauðsynlegt að gera bragabót á.