Gestur Guðjónsson

30 maí 2005

Vaxtabótakerfið – gott kerfi

Á heimasíðu Samtaka Atvinnulífsins var í vikunni vakin umræða um vaxtabótakerfið. Sú grein er rituð í framhaldi af skýrslu OECD, sem leggur til að vaxtabætur eigi að lækka til að slá á þenslu á fasteignamarkaði. En er það vaxtabótakerfið sem er að valda þessari þenslu?

Það er tilgangur vaxtabótakerfisins að auðvelda eignalitlu og tekjulitlu fólki að koma sér þaki yfir höfuðuð og þar með að lækka álagið á húsaleigubótunum til lengri tíma litið. Má því segja að vaxtabótakerfið stuðli að því að útgjöld hins opinbera lækki með árunum eða í það minnsta að framlög í þennan málaflokk hækki minna.

Hámarksupphæð vaxtabótanna veldur því að fólk er ekki styrkt til kaupa á rándýru húsnæði. Miðað við 4,15% vexti fást einungis vaxtabætur fyrir þann hluta lánanna sem er undir 11,6 milljónum fyrir einstakling og 18,8 fyrir hjón. Fólk fær sem sagt ekki vaxtabætur fyrir lánum umfram þessar upphæðir og er ekki hægt að segja að þetta séu yfirmáta háar upphæðir miðað við húsnæðisverðið í dag.

Í umræðunni hafa verið hugmyndir um hvort taka eigi upp húsnæðisframlag frekar og hætta að gera greinarmun á því hvaða búsetuform er að ræða, þ.e.a.s. hvort verið sé í leigu-, eignar- eða kaupleiguíbúð, en kosturinn við vaxtabæturnar umfram leigubótakerfið er að með tímanum hækkar eignarhlutfall fólks og þar með minnkar rétturinn til vaxtabóta, sem ekki er tilfellið með húsaleigubæturnar. Að tímabinda þennan rétt er einnig erfitt, því það er svo sáraeinfalt að komast framhjá því og kerfið má ekki ýta undir almennar svindlleiðir, það grefur undan virðingu manna fyrir kerfinu og er einfaldlega ósanngjarnt gagnvart þeim sem vilja lifa heiðarlegu lífi.

Vaxtabæturnar eru bundnar skilyrðum um hámarkseign og hámarkstekjur, en það er algerlega óskiljanlegt að það mismuni hjúskaparformum eins og gert er þegar einstæðir foreldrar eru verðlaunaðir sérstaklega og pör eru látin gjalda þess að vera skráð í sambúð eða gift. Eins gerir kerfið ekki ráð fyrir sameiginlegri forsjá barna. Þetta er eitt af þeim gloppum í kerfinu sem ýta undir gerviskilnaði og hagkvæmnishjúskaparleysi. Sömuleiðis er ekki tekið tillit til stærðar fjölskyldna við ákvörðun vaxtabóta. Það er hverjum ljóst að barnlaust par þarf ekki eins dýrt húsnæði og barnmörg fjölskylda. Væri því eðlilegt að hvert barn gæfi myndi einhvern rétt að vaxtabótum, t.d. fjórðung þeirrar upphæðar sem fullorðinn einstaklingur hefur.

Afar varasamt er að breyta miklu í þessu kerfi, en ávallt má þó endurskoða upphæðir miðað við þróun á markaðinum, en ljóst er að þeir sem þegar hafa stofnað til skuldbindinga m.a. með hliðsjón af þessu fyrirkomulagi verða að vera fullvissir um að það kerfi haldist í heiðri og ekki sé von á skerðingu. Helst væri hægt að höggva í eignahlutfallið, þ.e.a.s. að lækka þann þröskuld þar sem að eigin eign fer að skerða réttinn, en á móti væri eðlilegt að hækka tekjuþröskuldinn eða jafnvel að fella hann alveg út, þar sem um enn eina jaðarskattlagninguna er að ræða.

En allt í allt er þetta gott kerfi sem á fullkominn rétt á sér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home