Það er öllum hollt að velta fyrir öðru hverju fyrir sér hvort og þá hvaða áhrif stjórnmálin hafa á samfélagið; Hvort það séu stjórnmálin sem hafi áhrif á samfélagið eða hvort það sé kannski frekar samfélagið sem hafi áhrif á stjórnmálin, sem eru þá um leið orðin spéspegill þess sem er að gerast út í hinum “raunverulega” heimi. Nema það sé blanda af hvoru tveggja.
Í góðri grein eftir Braga Guðmundsson sem birtist í morgunpósti VG þann 18. maí sl um grein sem birtist í Politiken sem fjallaði um umfjöllun um bók sem var gefin út fyrir rúmum áratug orðar hann þetta ágætlega þegar hann veltir því fyrir sér hvort niðurstöður úr pólitískum og stríðsátökum hafi í raun nokkur áhrif á söguna til lengri tíma litið:
“Þessi umræða er áhugaverð vegna þess að hún byggir á þeirri skoðun að söguleg þróun gerist bæði til skamms tíma og í lengri bylgjum. Skammtímaáhrifin tengjast ákvörðunum misviturra stjórnmálamanna, t.d. þeirra að hefja stríð, og þau hafa sjaldan áhrif til lengri tíma. Langtímasveiflurnar orsakast hins vegar af þróun atvinnuhátta, efnahagsaðstæðna og tækniframförum sem skammsýnir pólitíkusar hafa oftast lítil áhrif á.”
Færir hann rök fyrir því að líklegast hefði heimurinn í heild sinni ekki verið mikið öðruvísi þótt Þjóðverjar hefðu unnið heimstyrjöldina síðari. En er það endilega svo að stjórnmálin hafi engin áhrif á heiminn, nema til skamms tíma og að litlu leyti?
Það má með sanni segja að stór hluti af þeirri þjóðfélagsumræðu sem fer fram dags daglega geri það ekki og má með sanni segja að skammsýnir pólitíkusar stjórni umræðunni um of. Hvaða áhrif ætli örlög fjölmiðlalaganna, meint helsta rós í hnappagat stjórnarandstöðunnar, hafi á líf okkar eftir áratug eða svo? Engin. Hvaða áhrif ætli seinkun gildistöku laga um Ríkissjónvarpið hafi á líf okkar í framtíðinni? Engin. Hvaða áhrif ætli umræða um fundarstjórn Forseta Alþingis hafi á líf okkar í framtíðinni? Engin. Hvaða áhrif ætli gaspur um meinta bissniskrimma undir meintum pilsfaldi ríkisstjórnarflokkanna hafi á líf okkar í framtíðinni? Engin. Svona mætti lengi halda áfram.
Það sem máli skiptir fyrir framtíðina er, að samfélagið geti þróast með eðlilegum hætti og verkefni stjórnmálanna er að tryggja að það geti það með öfgalausri stefnumörkun, þar sem áhersla er lögð á að atvinnulífið fái að þróast eðlilega í heilbrigðu umhverfi með háu atvinnustigi, að efnahagslegur stöðugleiki sé tryggður og að hlúð sé að menntun og uppeldi þeirra sem á eftir okkur koma. Það er ekki skammsýni og það er nákvæmlega stefna Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Sem betur fer hefur hún haldið ótrauð áfram í vegferð sinni á þeirri braut, þrátt fyrir að stundarathyglisþörf sumra stjórnarandstöðuþingmanna hafi náð að þyrla miklu ryki í augu síþyrstra fjölmiðla sem aftur hafa áhrif á almenning, eins og berlega hefur komið í ljós í skoðanakönnunum undanfarið.
Það verður bara að hafa það þótt skammtímahagsmunirnir og athyglissýkin selji til skamms tíma, viljinn til að bæta samfélagið til lengri tíma með hófsamri stefnu Framsóknarflokksins verður að fá að ráða og á þann hátt eingöngu getur hann haft áhrif til framtíðar, eins og hann hefur gert síðustu 89 árin eða svo. Höldum því áfram.