Gestur Guðjónsson

13 maí 2005

Misnotkun velferðarkerfisins

Það er gott að búa á Íslandi. Hér er velferðarkerfi með því besta sem þekkist, heilbrigðisþjónusta í fremstu röð og samfélagið heilbrigt og gott, svona heilt yfir að líta.

Velferðarkerfið og þar með bótakerfið, með atvinnuleysis-, örorku-, barna-, húsaleigu- og öðrum bótum tekur til sín stóran hluta þeirra skatttekna sem hinar vinnandi hendur og neysla reiðir af hendi í ríkissjóð. Er það vel og er ekki hægt að sjá eftir þeim fjármunum, svo lengi sem þeir renna til fólks sem sannarlega og réttilega hefur þörf fyrir þá, enda vil ég að samfélagið grípi mig í net sitt, komi eitthvað fyrir hjá mér og sama á að sjálfsögðu að gilda um aðra.

En því miður virðist hugarfar sums fólks ekki vera nægjanlega þroskað til að standast þær freistingar til misnotkunar sem í slíku neti felast og skapa því allt of margir gerviaðstæður þannig að fólk fái meira greitt en því raunverulega ber, til dæmis með gerviskilnuðum, uppgerðri örorku og. Það er svo þægilegt að sækja sér aukapening í hítina oft fleiri hundruð þúsunda bara með því að hagræða hjúskaparstöðu sinni, án þess að viðkomandi hugsi út í eða axli ábyrgð á því að það sé með framferði sínu að taka frá þeim sem virkilega þurfa á þeim fjármunum sem í velferðina fara að halda.

Það er því fagnaðarefni að Heilbrigðis- og tryggingaráðherra ætli að skera upp herör gagnvart slíku misferli og er vonandi að sem víðtækast samstarf náist í allri stjórnsýslunni um þær aðgerðir. Fara verður afar varlega í þessar aðgerðir, svo ekki sé hætta á því að þeir sem raunverulega eiga rétt og þurfa á bótum úr sameiginlegum sjóðum verði fyrir ónauðsynlegu áreiti eða niðurlægingu og þaðan af síður bótamissi.

Þeim sem ofbýður framferði fólks í kringum sig, er samt ekki gert lífið þægilegt, vilji það láta vita af misjöfnum. Alls staðar, nema hjá Ríkisskattstjóra, þarf sá sem segir til um hugsanlegt misferli að segja til nafns og sá sem grunurinn beinist að hefur heimtingu gagnvart stjórnsýslu og upplýsingalögum að fá uppgefið hver “klagaði” viðkomandi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og á meðan að ekki er hægt að benda yfirvöldum nafnlaust á misferli, velur fólk frekar að brjóta lög með því að þegja yfir misferli en að lenda í þeim óþæginum sem af nafnbirtingunni stafar. Þetta veit það fólk sem stundar misferlið og verður sífellt kræfara.

Það er verkefni næsta þings að leiðrétta og koma á betri veg, þannig að hægt sé að benda á misferli án þess að lenda í vandræðum sjálfur, jafnvel þótt sumir komi til með að uppnefna það og fara að vísa í það ástand sem svo vel var lýst í bók Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatni af nágrannaeftirliti kommúnismans, kannski vegna þess að viðkomandi hafa eitthvað að fela.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home