Gestur Guðjónsson

17 desember 2004

Kýrhausnum barið við vegg

17. desember 2004
Kýrhausnum barið við vegg
Það er margt skrítið í kýrhausnum. Í öðru orðinu er ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir að veita ekki nægu fjármagni í menntamál og má taka undir það að ekki sé til betri fjárfesting en í menntun þjóðarinnar, meðan í hinu orðinu er hún gagnrýnd fyrir að fylgja ekki skattastefnu sem tekur af hvatann til mennta.

Þverpólitísk samstaða er um að jafnrétti skuli vera til náms, með mismiklum áherslum þó og að ungmenni þjóðarinnar skuli menntast eins vel og hugur þeirra og geta stendur til. En þegar þessi sömu ungmenni eru að taka afstöðu til hvort og þá hvaða nám skuli valið; hvort farið skuli út á vinnumarkaðinn 16 ára og eiga þá uþb 51 ára starfsævi, hvort fara eigi eftir stúdentspróf eða iðnaðarmenntun og eiga þá uþb 47 ára starfsævi eða að ganga í háskóla og eiga 43 ára starfsævi eða skemmri, hljóta lífstekjurnar að hafa áhrif á það hvort fólki finnst það taka því að leggja á sig lengra nám.

Þannig að sá sem hefur hug um að ganga í háskóla þarf bara vegna styttri starfsævi að hafa 19% hærri tekjur en sá sem enga menntun hefur og rúmlega 9% hærri tekjur en sá sem hefur hlotið framhalds- eða iðnskólamenntun. Ef framfærsla á námstímanum er tekin með í reikninginn og afborganir á námslánum þar með, er munurinn meiri eða tæp 13% og 23%. Var munurinn enn meiri áður en endurgreiðsluhlutfall námslána var lækkað. Er þá ekki tekið tillit til ábyrgðar né annarra þátta hvað vinnulaun varðar.

Þegar fjallað er um skattkerfið sem jöfnunarkerfi, verið að mæla með hátekjuskatti og hækkun kaupmáttar þeirra sem eru með lægstu launin, vill þetta sjónarhorn gleymast. Það verður að vera raunverulegur arður af því að menntast og hann verulega meiri en rakið var hér að ofan til að ungmenni landsins sjái sér hag í því að menntast og mega þá jöfnunaráhrif skattkerfisins ekki verða til þess að fæla fólk frá námi.

Í danska kerfinu, sem stjórnarandstaðan mærir og þá Samfylkingin sérstaklega, liggur við að það taki því ekki að biðja um hærri laun þegar 300.000 ISK markinu er náð. Afgangurinn fer allur í skatt, en þar slagar hátekjuskatturinn upp í 70%.

Annað atriði sem vill ekki síður gleymast er að Ísland er ekki eyland í hagkerfi heimsins. Aðgangur að menntafólki er orðinn mun meiri en áður og eru fyrirtæki í síauknum mæli farin að sækja í þjónustu menntafólks af svæðum þar sem laun eru lægri, til Indlands sem dæmi. Einnig hefur alþjóðavæðingin það í för með sér að hægt er að selja þjónustu frítt á milli landa, t.d. ráðgjafaþjónustu og eru mörg dæmi þess á Norðurlöndunum að hálaunamenn stofni fyrirtæki í skattaparadísum og selji svo þjónustu sína til fyrirtækisins í heimalandinu, sem þarf þar með ekki að greiða nema brot af því sem það þyrfti annars til að viðkomandi starfsmaður fái sömu útborgun, sem er jú sú tala sem allir horfa í, ekki brúttólaunin.

Gagnvart starfsmanninum eru það útborguðu launin og jaðaráhrif skattkerfisins sem máli skipta og hafa áhrif á það hvaða starfsvettvangur er valinn og gagnvart fyrirtækinu eru það heildarlaunin og launatengdu gjöldin sem skipta máli þegar valið er hvar fyrirtækið er með starfsemi.

Hníga því öll rök gegn því að skattleggja hátekjufólk um of og skerða þar með samkeppnishæfi Íslands á alþjóðamarkaði hvað hámenntafólk varðar og einnig samkeppnishæfi menntunar hvað lífsgæði og lífstekjur fólks varðar. Um leið tryggir það einnig að ríkið fær þó þessar tekjur af fólki í stað þess að fá kannski engar.

Er því kristaltært að ríkisstjórnin er á réttri leið í skattamálum, sama hvað stjórnarandstaðan ber kýrhausnum við vegginn.

02 desember 2004

Ótakmarkaðir möguleikar til háskólanáms?

Það hefur talist eðlileg krafa og er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að allir eigi að hafa jafnan möguleika til náms. Er eilífðarverkefni að reyna að ná því markmiði, enda samfélagið síbreytilegt og aðstæður og kröfur námsmanna til námsins og samfélagsins til þeirra og námsins breytast frá degi til dags

Forsenda þessa eru tilvist lánasjóðs íslenskra námsmanna og sameiginlegur skilningur allra aðila á því að stúdentspróf sé ávallt nægjanlegur undirbúningur til hvaða háskólanáms sem er, útskrifist viðkomandi af réttri námsbraut í mennta- eða fjölbrautaskóla.

En er rétt að allir eigi að geta numið hvaða fag sem er óháð aðstæðum í viðkomandi fagi?

Það hlýtur að vera augljóst að hver einstaklingur menntast best og ætti þar með að þroskast mest ef hann hefur brennandi áhuga á því námi sem hann stundar. Lífsgæði hans eru meiri á meðan á námi stendur og slíkur einstaklingur hlýtur að vera sjálfum sér og samfélaginu nýtari en einstaklingur sem hefur gengið í gegnum nám sem hann hefur ekki mikinn áhuga á og leggur þar af leiðandi líklegast lagt síðri stund á en ella.

Þess vegna má leiða að því líkum að betra sé að mennta fleiri góða guðfræðinga og færri lélega viðskiptafræðinga sem dæmi, sem eru svo jafnvel færir um að taka að sér verkefni sem falla kannski ekki beint undir viðkomandi fag, enda hefur einstaklingurinn menntast og lært betur að tileinka sér nýja þekkingu en ef hann hefur ekki haft áhuga á því námi sem hann hefur stundað.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að hver á að fá að læra það sem hugur hans stendur til án þess að skólarnir hafi áhrif þar á, að því tilskyldu að námsárangur sé viðunandi. Aðstæður á vinnumarkaði hafa að sjálfsögðu áhrif á námsval fólks og hefur nokkurn vegin frjálst námsval séð til þess að í dag er yfirleitt nægt framboð af fólki með rétta menntun eða aðlögunarhæfni fyrir flest störf samfélagsins.

Nokkrar stéttir hafa í gegnum tíðina beitt sér á mismunandi hátt fyrir fjöldatakmörkunum í háskólanámi og eru lögfræðingar og læknar hvað nærtækustu dæmin hvað það varðar og hefur verið viðvarandi skortur á þessum stéttum, þá sérstaklega í læknastétt.

Hefur það valdið því að vinnuálag á lækna er oft yfirgengilegt og samningsaðstaða þeirra í launaviðræðum er afar sterk og munar um minna í rekstri heiðbrigðiskerfisins, þar sem laun eru um 70% af heildarútgjöldum.

Leiða má að því líkum að það væri því þjóðhagslega hagkvæmt að fjölga læknanemum með því að veita auknu fjármagni í menntun og starfsþjálfun, bæði til að bæta læknisþjónustuna með minna álagi á hvern lækni og eins til að lækka launakostnað heilbrigðisstofnana því flestum blöskra þær launatölur sem nefndar eru í fjölmiðlum og ekki síður það ómannlega vinnuálag sem er á sumum læknum.

Fleiri leiðir til læknanáms hafa þó opnast á síðustu árum og hefur fjöldi einstaklinga farið erlendis til læknanáms og er óskandi að læknasamfélagið taki þeim af sanngirni og víðsýni að loknu námi.

Tíminn 25. nóvember 2004
Í þjóðfélagi nútímans, þar sem það eina sem helst óbreytt er breytileikinn, er stöðug þörf á að allar stofnanir samfélagsins aðlagist sífellt breyttum aðstæðum. Breyttar kröfur kalla þannig á breytta hugsun varðandi menntakerfið, forsendur þess, aðferðir og tilgang. Mikil þróun hefur átt sér stað á öllum stigum menntakerfisins í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar, sérstaklega á grunnskólastiginu, en greinilegt er á umræðum undanfarinna missera að gera þarf gangskör að því að skapa þjóðarsátt um menntakerfið allt og stuðningskerfi ríkisins í tengslum háskólastigið. Framsóknarflokkurinn tekur óhræddur þátt í þeirri umræðu sem fara þarf fram um málið og fer mikil og hispurslaus umræða fram innan hans um menntamál og eins og í öllum mikilvægum málum sýnist sitt hverjum. En grundvallaratriði í stefnu Framsóknarflokksins í menntamálum hefur alltaf verið að tryggja jafnrétti til náms. Mikil breyting varð á framhaldsskólastiginu þegar farið var að bjóða upp á fjölbreyttara námsform með tilkomu áfangaskóla og fjölgaði nemendum á framhaldsskólastigi verulega í kjölfarið. A seinni árum hefur einnig orðið bylting í fjölbreytileika á háskólastiginu, þar sem nýir valkostir hafa komið til og aukið námsframboð til mikilla muna og skapað samkeppni um nemendur auk þeirrar samkeppni sem hefur alltaf verið frá erlendum háskólum um stúdenta. Ber að fagna því, enda minnkar hætta á einstefnu og stöðnun þar sem samkeppni ríkir milli skóla, auk þess að aukin fjölbreytni hefur á sama hátt og á framhaldsskólastiginu fjölgað nemendum. En margar spurningar um skólakerfið hafa vaknað í kjölfarið sem samfélagið verður að svara. Er til dæmis eðlilegt að allir nemendur megi velja hvaða nám sem er óháð þörf samfélagsins fyrir viðkomandi nám og kostnað við námið? Umræða um það er viðamikil og er efni í sér grein, sem birtist innan tíðar. Umræðan um hækkun innritunargjalda við Háskóla Íslands hefur farið hátt undanfarna daga og sýnist sitt hverjum. Óskin um hækkuð innritunargjöld eru greinileg skilaboð frá háskólaráði um að það telur sig knúið til að fara fram á aukin fjárframlög og seilist það eins langt í því efni eins og það telur sig geta innan þeirra ramma sem þeim eru settir. Það er sjálfsögð krafa að háskólar fái greiddan eðlilegan kostnað við það nám sem boðið er upp á, en háskólanám er misdýrt og verður framlag ríkisins að vera í samræmi við kostnað og er nákvæmrar endurskoðunnar þörf í því efni. Ætli það sé tilviljun að það sé ekki samkeppni í menntun á t.d. efnafræðingum eða tannlæknum en einvörðungu á hreinræktuðum bóknámsbrautum? Einnig er mikilvægt að samfélagið svari því hvort eðlilegt sé að samfélagið sé að greiða fyrir háskólanám fólks sem er að mennta sig seint á lífsleiðinni eða með vinnu í dagskóla, meðan það þarf að greiða námið fullu verði í kvöldskóla eða námi sem er sérstaklega sniðið að vinnumarkaðinum. Grunnsteinn stuðningskerfis ríkisins við menntun á háskólastigi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN. Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um LÍN og barist fyrir vexti og viðgangi hans, enda er hann afar öflugt tæki til að tryggja jafnrétti til náms. Það að fjármunir séu teknir að láni og að gerð sé krafa um námsárangur til að fá lán eykur ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart náminu og skilar því samfélaginu meiru en ef tekið væri upp styrkjakerfi, enda sameiginlegur hagur nemenda og samfélagsins að námið sé stundað með viðundandi árangri. Lánin eiga að standa undir skynsamlegri framfærslu og er mikilvægt að framfærslugrunnurinn endurspegli raunverulegan kostnað, en endurskoðun hans hefur verið baráttumál Framsóknarflokksins um hríð. Hófleg endurgreiðsla, sem Framsóknarflokkurinn hefur nú með glæsilegum árangri barist fyrir að fá lækkaðan til að gera háskólanám eftirsóknarverðara, en spyrja má sig hvort það sé á kostnað annarrar menntunar. Væri hugsanlega rétt að rýmka aðgengi iðnnema til námslána til að hvetja fleiri til iðnnáms sem annars væru hugsanlega ófaglærðir? Þátttaka ríkis og nemenda í kostnaði við meistara- og doktorsnám hefur mikið verið til umræðu. Háskóli Íslands hefur gert stórátak í að bjóða upp á meistaranám og doktorsnám. En er það rétt stefna fyrir samfélagið að bjóða upp á meistara- og doktorsnám í ótakmörkuðum fjölda greina? Forsenda góðs meistara- og doktorsnáms er að það sé tengt rannsóknum. Á þann hátt einan er það tryggt að nemendur hljóti menntun á heimsmælikvarða hjá kennurum á heimsmælikvarða. Ef rannsóknir eru ekki stundaðar í einhverjum mæli í viðkomandi fagi verður að huga alvarlega að því að senda viðkomandi nemendur til náms erlendis. Er skynsamlegt að stunda rannsóknir í þeim tilgangi einum að geta boðið upp á meistara- eða doktorsnám, hlýtur þörfin ekki að þurfa að koma annarsstaðar frá og rannsóknirnar að vera nægjanlega vandaðar og árangursríkar til að hljóta styrki frá rannsóknarsjóðum hins opinbera eða atvinnulífinu? Einnig má spyrja sig hvort það sé ekki tilgangur í sjálfu sér að bjóða ekki upp á meistara og doktorsnám, heldur að leiðbeina og aðstoða nemendur til náms erlendis. Það eitt að hleypa heimdraganum og kynnast annarri menningu og tungumálum er afar dýrmæt í jafn litlu landi og Ísland er og sömuleiðis er sú víðsýni sem fólk fær og þau tengsl sem skapast erlendis ómetanleg landi og þjóð. Eins og hér hefur verið rakið að framan er margt sem þarf að ræða, mörgum spurningum ósvarað og þeim er Framsóknarflokkurinn óhræddur að leita að.

Það er hverju samfélagi nauðsyn að endurnýjast eigi það að þrífast til frambúðar. Það kann að hljóma hjákátlegt, en samfélaginu getur stafað raunveruleg ógn af barnafæð og einnig af því að börn fái ekki notið þess uppeldis sem nauðsynlegt er til að þau vaxi og verði virkir þjóðfélagsþegnar í sífellt flóknara samfélagi sem krefst meira af einstaklingnum.
Það er því nauðsynlegt að samfélagið verndi og bæti ramman um barneignir og uppeldi barna og telur að styrking fjölskyldunnar sé besta leiðin til þess.
Með setningu laga um fæðingar- og foreldraorlof var stigið stórt framfaraskref í styrkingu rammans um uppeldi barna. Báðir foreldrar geta nú notið samvista við barnið á fyrstu mánuðum ævi þess án þess að leggja fjárhag heimilisins í rúst. Er ljóst að þátttaka karla í uppeldi barna mun aukast til muna vegna þessa. Nauðsynlegt er að haldið verði áfram að tryggja framtíð þess kerfis, enda er hér er um fjölskylduvænustu aðgerð sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt, þrátt fyrir áköf mótmæli ungra sjálfstæðismanna á sínum tíma.
Af sömu ástæðu er það skylda samfélagsins að taka fjárhagslegan þátt í uppeldi barna og fyrsta skrefið í því hlýtur að vera að vera að minnsta kosti ekki að heimta skatt af þeim fjármunum sem til þeirra renna er því eðlilegt að barnabætur verði ótekjutengdar og taki mið af raunverulegum kostnaði við að ala önn fyrir hverju barni. Vinnutími Íslendingar vinna lang lengstan vinnudag meðal Norður-Evrópuþjóða. Langur vinnudagur fækkar samverustundum fjölskyldna og leggur uppeldi barna í ríkari mæli á herðar stofnanna, sem aldrei geta komið í stað heilbrigðrar fjölskyldu, hversu góðar sem stofnanirnar eru. Er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins eigi stóran hlut að máli með þeirri samsetningu launa sem hefur tíðkast hérlendis, þar sem greitt er 60-70% yfirvinnuálag.
Fólk er sem sagt verðlaunað til að vera fjarri fjölskyldum sínum og vinna langan vinnudag og sýna hagtölur að atvinnurekendur eru ekki að fá þá framleiðni fyrir vikið sem ætla mætti, enda er starfsorka manna takmörkuð. Launajafnrétti Fleiri atriði tengjast yfirvinnuálaginu og ber launajafnrétti þar hæst. Einstæðir foreldrar og annar makinn hafa ekki möguleika á að vinna yfirvinnu meðan börn eru á leikskólaaldri og í yngri bekkjum skóla, enda vistunartíminn sem betur fer takmarkaður. Hinn aðilinn, ef honum er til að dreifa og þeir sem barnlausir eru, hafa möguleika á að vinna yfirvinnu og gera það í ríkum mæli og njóta ríkulega fyrir. Ef marka má fréttafluting af kjaraviðræðum virðist lítið tillit vera tekið til þessa og yfirleitt rætt um heildarlaun og hafa aðilar vinnumarkaðarins brugðist hvað þetta áhrærir og skilið barnafólk og þá oftast konur og einstæða foreldra eftir með mun minni heildartekjur þrátt fyrir mikið vinnuframlag. Þessu þarf að breyta og er næsta stóra skrefið í jafnréttisbaráttunni.