Gestur Guðjónsson

02 desember 2004

Háskólanám á Íslandi í dag

Tíminn 25. nóvember 2004
Í þjóðfélagi nútímans, þar sem það eina sem helst óbreytt er breytileikinn, er stöðug þörf á að allar stofnanir samfélagsins aðlagist sífellt breyttum aðstæðum. Breyttar kröfur kalla þannig á breytta hugsun varðandi menntakerfið, forsendur þess, aðferðir og tilgang. Mikil þróun hefur átt sér stað á öllum stigum menntakerfisins í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar, sérstaklega á grunnskólastiginu, en greinilegt er á umræðum undanfarinna missera að gera þarf gangskör að því að skapa þjóðarsátt um menntakerfið allt og stuðningskerfi ríkisins í tengslum háskólastigið. Framsóknarflokkurinn tekur óhræddur þátt í þeirri umræðu sem fara þarf fram um málið og fer mikil og hispurslaus umræða fram innan hans um menntamál og eins og í öllum mikilvægum málum sýnist sitt hverjum. En grundvallaratriði í stefnu Framsóknarflokksins í menntamálum hefur alltaf verið að tryggja jafnrétti til náms. Mikil breyting varð á framhaldsskólastiginu þegar farið var að bjóða upp á fjölbreyttara námsform með tilkomu áfangaskóla og fjölgaði nemendum á framhaldsskólastigi verulega í kjölfarið. A seinni árum hefur einnig orðið bylting í fjölbreytileika á háskólastiginu, þar sem nýir valkostir hafa komið til og aukið námsframboð til mikilla muna og skapað samkeppni um nemendur auk þeirrar samkeppni sem hefur alltaf verið frá erlendum háskólum um stúdenta. Ber að fagna því, enda minnkar hætta á einstefnu og stöðnun þar sem samkeppni ríkir milli skóla, auk þess að aukin fjölbreytni hefur á sama hátt og á framhaldsskólastiginu fjölgað nemendum. En margar spurningar um skólakerfið hafa vaknað í kjölfarið sem samfélagið verður að svara. Er til dæmis eðlilegt að allir nemendur megi velja hvaða nám sem er óháð þörf samfélagsins fyrir viðkomandi nám og kostnað við námið? Umræða um það er viðamikil og er efni í sér grein, sem birtist innan tíðar. Umræðan um hækkun innritunargjalda við Háskóla Íslands hefur farið hátt undanfarna daga og sýnist sitt hverjum. Óskin um hækkuð innritunargjöld eru greinileg skilaboð frá háskólaráði um að það telur sig knúið til að fara fram á aukin fjárframlög og seilist það eins langt í því efni eins og það telur sig geta innan þeirra ramma sem þeim eru settir. Það er sjálfsögð krafa að háskólar fái greiddan eðlilegan kostnað við það nám sem boðið er upp á, en háskólanám er misdýrt og verður framlag ríkisins að vera í samræmi við kostnað og er nákvæmrar endurskoðunnar þörf í því efni. Ætli það sé tilviljun að það sé ekki samkeppni í menntun á t.d. efnafræðingum eða tannlæknum en einvörðungu á hreinræktuðum bóknámsbrautum? Einnig er mikilvægt að samfélagið svari því hvort eðlilegt sé að samfélagið sé að greiða fyrir háskólanám fólks sem er að mennta sig seint á lífsleiðinni eða með vinnu í dagskóla, meðan það þarf að greiða námið fullu verði í kvöldskóla eða námi sem er sérstaklega sniðið að vinnumarkaðinum. Grunnsteinn stuðningskerfis ríkisins við menntun á háskólastigi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN. Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um LÍN og barist fyrir vexti og viðgangi hans, enda er hann afar öflugt tæki til að tryggja jafnrétti til náms. Það að fjármunir séu teknir að láni og að gerð sé krafa um námsárangur til að fá lán eykur ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart náminu og skilar því samfélaginu meiru en ef tekið væri upp styrkjakerfi, enda sameiginlegur hagur nemenda og samfélagsins að námið sé stundað með viðundandi árangri. Lánin eiga að standa undir skynsamlegri framfærslu og er mikilvægt að framfærslugrunnurinn endurspegli raunverulegan kostnað, en endurskoðun hans hefur verið baráttumál Framsóknarflokksins um hríð. Hófleg endurgreiðsla, sem Framsóknarflokkurinn hefur nú með glæsilegum árangri barist fyrir að fá lækkaðan til að gera háskólanám eftirsóknarverðara, en spyrja má sig hvort það sé á kostnað annarrar menntunar. Væri hugsanlega rétt að rýmka aðgengi iðnnema til námslána til að hvetja fleiri til iðnnáms sem annars væru hugsanlega ófaglærðir? Þátttaka ríkis og nemenda í kostnaði við meistara- og doktorsnám hefur mikið verið til umræðu. Háskóli Íslands hefur gert stórátak í að bjóða upp á meistaranám og doktorsnám. En er það rétt stefna fyrir samfélagið að bjóða upp á meistara- og doktorsnám í ótakmörkuðum fjölda greina? Forsenda góðs meistara- og doktorsnáms er að það sé tengt rannsóknum. Á þann hátt einan er það tryggt að nemendur hljóti menntun á heimsmælikvarða hjá kennurum á heimsmælikvarða. Ef rannsóknir eru ekki stundaðar í einhverjum mæli í viðkomandi fagi verður að huga alvarlega að því að senda viðkomandi nemendur til náms erlendis. Er skynsamlegt að stunda rannsóknir í þeim tilgangi einum að geta boðið upp á meistara- eða doktorsnám, hlýtur þörfin ekki að þurfa að koma annarsstaðar frá og rannsóknirnar að vera nægjanlega vandaðar og árangursríkar til að hljóta styrki frá rannsóknarsjóðum hins opinbera eða atvinnulífinu? Einnig má spyrja sig hvort það sé ekki tilgangur í sjálfu sér að bjóða ekki upp á meistara og doktorsnám, heldur að leiðbeina og aðstoða nemendur til náms erlendis. Það eitt að hleypa heimdraganum og kynnast annarri menningu og tungumálum er afar dýrmæt í jafn litlu landi og Ísland er og sömuleiðis er sú víðsýni sem fólk fær og þau tengsl sem skapast erlendis ómetanleg landi og þjóð. Eins og hér hefur verið rakið að framan er margt sem þarf að ræða, mörgum spurningum ósvarað og þeim er Framsóknarflokkurinn óhræddur að leita að.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home