Gestur Guðjónsson

02 desember 2004

Fjölskyldan í íslensku samfélagi

Það er hverju samfélagi nauðsyn að endurnýjast eigi það að þrífast til frambúðar. Það kann að hljóma hjákátlegt, en samfélaginu getur stafað raunveruleg ógn af barnafæð og einnig af því að börn fái ekki notið þess uppeldis sem nauðsynlegt er til að þau vaxi og verði virkir þjóðfélagsþegnar í sífellt flóknara samfélagi sem krefst meira af einstaklingnum.
Það er því nauðsynlegt að samfélagið verndi og bæti ramman um barneignir og uppeldi barna og telur að styrking fjölskyldunnar sé besta leiðin til þess.
Með setningu laga um fæðingar- og foreldraorlof var stigið stórt framfaraskref í styrkingu rammans um uppeldi barna. Báðir foreldrar geta nú notið samvista við barnið á fyrstu mánuðum ævi þess án þess að leggja fjárhag heimilisins í rúst. Er ljóst að þátttaka karla í uppeldi barna mun aukast til muna vegna þessa. Nauðsynlegt er að haldið verði áfram að tryggja framtíð þess kerfis, enda er hér er um fjölskylduvænustu aðgerð sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt, þrátt fyrir áköf mótmæli ungra sjálfstæðismanna á sínum tíma.
Af sömu ástæðu er það skylda samfélagsins að taka fjárhagslegan þátt í uppeldi barna og fyrsta skrefið í því hlýtur að vera að vera að minnsta kosti ekki að heimta skatt af þeim fjármunum sem til þeirra renna er því eðlilegt að barnabætur verði ótekjutengdar og taki mið af raunverulegum kostnaði við að ala önn fyrir hverju barni. Vinnutími Íslendingar vinna lang lengstan vinnudag meðal Norður-Evrópuþjóða. Langur vinnudagur fækkar samverustundum fjölskyldna og leggur uppeldi barna í ríkari mæli á herðar stofnanna, sem aldrei geta komið í stað heilbrigðrar fjölskyldu, hversu góðar sem stofnanirnar eru. Er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins eigi stóran hlut að máli með þeirri samsetningu launa sem hefur tíðkast hérlendis, þar sem greitt er 60-70% yfirvinnuálag.
Fólk er sem sagt verðlaunað til að vera fjarri fjölskyldum sínum og vinna langan vinnudag og sýna hagtölur að atvinnurekendur eru ekki að fá þá framleiðni fyrir vikið sem ætla mætti, enda er starfsorka manna takmörkuð. Launajafnrétti Fleiri atriði tengjast yfirvinnuálaginu og ber launajafnrétti þar hæst. Einstæðir foreldrar og annar makinn hafa ekki möguleika á að vinna yfirvinnu meðan börn eru á leikskólaaldri og í yngri bekkjum skóla, enda vistunartíminn sem betur fer takmarkaður. Hinn aðilinn, ef honum er til að dreifa og þeir sem barnlausir eru, hafa möguleika á að vinna yfirvinnu og gera það í ríkum mæli og njóta ríkulega fyrir. Ef marka má fréttafluting af kjaraviðræðum virðist lítið tillit vera tekið til þessa og yfirleitt rætt um heildarlaun og hafa aðilar vinnumarkaðarins brugðist hvað þetta áhrærir og skilið barnafólk og þá oftast konur og einstæða foreldra eftir með mun minni heildartekjur þrátt fyrir mikið vinnuframlag. Þessu þarf að breyta og er næsta stóra skrefið í jafnréttisbaráttunni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home