Gestur Guðjónsson

17 desember 2004

Kýrhausnum barið við vegg

17. desember 2004
Kýrhausnum barið við vegg
Það er margt skrítið í kýrhausnum. Í öðru orðinu er ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir að veita ekki nægu fjármagni í menntamál og má taka undir það að ekki sé til betri fjárfesting en í menntun þjóðarinnar, meðan í hinu orðinu er hún gagnrýnd fyrir að fylgja ekki skattastefnu sem tekur af hvatann til mennta.

Þverpólitísk samstaða er um að jafnrétti skuli vera til náms, með mismiklum áherslum þó og að ungmenni þjóðarinnar skuli menntast eins vel og hugur þeirra og geta stendur til. En þegar þessi sömu ungmenni eru að taka afstöðu til hvort og þá hvaða nám skuli valið; hvort farið skuli út á vinnumarkaðinn 16 ára og eiga þá uþb 51 ára starfsævi, hvort fara eigi eftir stúdentspróf eða iðnaðarmenntun og eiga þá uþb 47 ára starfsævi eða að ganga í háskóla og eiga 43 ára starfsævi eða skemmri, hljóta lífstekjurnar að hafa áhrif á það hvort fólki finnst það taka því að leggja á sig lengra nám.

Þannig að sá sem hefur hug um að ganga í háskóla þarf bara vegna styttri starfsævi að hafa 19% hærri tekjur en sá sem enga menntun hefur og rúmlega 9% hærri tekjur en sá sem hefur hlotið framhalds- eða iðnskólamenntun. Ef framfærsla á námstímanum er tekin með í reikninginn og afborganir á námslánum þar með, er munurinn meiri eða tæp 13% og 23%. Var munurinn enn meiri áður en endurgreiðsluhlutfall námslána var lækkað. Er þá ekki tekið tillit til ábyrgðar né annarra þátta hvað vinnulaun varðar.

Þegar fjallað er um skattkerfið sem jöfnunarkerfi, verið að mæla með hátekjuskatti og hækkun kaupmáttar þeirra sem eru með lægstu launin, vill þetta sjónarhorn gleymast. Það verður að vera raunverulegur arður af því að menntast og hann verulega meiri en rakið var hér að ofan til að ungmenni landsins sjái sér hag í því að menntast og mega þá jöfnunaráhrif skattkerfisins ekki verða til þess að fæla fólk frá námi.

Í danska kerfinu, sem stjórnarandstaðan mærir og þá Samfylkingin sérstaklega, liggur við að það taki því ekki að biðja um hærri laun þegar 300.000 ISK markinu er náð. Afgangurinn fer allur í skatt, en þar slagar hátekjuskatturinn upp í 70%.

Annað atriði sem vill ekki síður gleymast er að Ísland er ekki eyland í hagkerfi heimsins. Aðgangur að menntafólki er orðinn mun meiri en áður og eru fyrirtæki í síauknum mæli farin að sækja í þjónustu menntafólks af svæðum þar sem laun eru lægri, til Indlands sem dæmi. Einnig hefur alþjóðavæðingin það í för með sér að hægt er að selja þjónustu frítt á milli landa, t.d. ráðgjafaþjónustu og eru mörg dæmi þess á Norðurlöndunum að hálaunamenn stofni fyrirtæki í skattaparadísum og selji svo þjónustu sína til fyrirtækisins í heimalandinu, sem þarf þar með ekki að greiða nema brot af því sem það þyrfti annars til að viðkomandi starfsmaður fái sömu útborgun, sem er jú sú tala sem allir horfa í, ekki brúttólaunin.

Gagnvart starfsmanninum eru það útborguðu launin og jaðaráhrif skattkerfisins sem máli skipta og hafa áhrif á það hvaða starfsvettvangur er valinn og gagnvart fyrirtækinu eru það heildarlaunin og launatengdu gjöldin sem skipta máli þegar valið er hvar fyrirtækið er með starfsemi.

Hníga því öll rök gegn því að skattleggja hátekjufólk um of og skerða þar með samkeppnishæfi Íslands á alþjóðamarkaði hvað hámenntafólk varðar og einnig samkeppnishæfi menntunar hvað lífsgæði og lífstekjur fólks varðar. Um leið tryggir það einnig að ríkið fær þó þessar tekjur af fólki í stað þess að fá kannski engar.

Er því kristaltært að ríkisstjórnin er á réttri leið í skattamálum, sama hvað stjórnarandstaðan ber kýrhausnum við vegginn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home