Það hefur talist eðlileg krafa og er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að allir eigi að hafa jafnan möguleika til náms. Er eilífðarverkefni að reyna að ná því markmiði, enda samfélagið síbreytilegt og aðstæður og kröfur námsmanna til námsins og samfélagsins til þeirra og námsins breytast frá degi til dags
Forsenda þessa eru tilvist lánasjóðs íslenskra námsmanna og sameiginlegur skilningur allra aðila á því að stúdentspróf sé ávallt nægjanlegur undirbúningur til hvaða háskólanáms sem er, útskrifist viðkomandi af réttri námsbraut í mennta- eða fjölbrautaskóla.
En er rétt að allir eigi að geta numið hvaða fag sem er óháð aðstæðum í viðkomandi fagi?
Það hlýtur að vera augljóst að hver einstaklingur menntast best og ætti þar með að þroskast mest ef hann hefur brennandi áhuga á því námi sem hann stundar. Lífsgæði hans eru meiri á meðan á námi stendur og slíkur einstaklingur hlýtur að vera sjálfum sér og samfélaginu nýtari en einstaklingur sem hefur gengið í gegnum nám sem hann hefur ekki mikinn áhuga á og leggur þar af leiðandi líklegast lagt síðri stund á en ella.
Þess vegna má leiða að því líkum að betra sé að mennta fleiri góða guðfræðinga og færri lélega viðskiptafræðinga sem dæmi, sem eru svo jafnvel færir um að taka að sér verkefni sem falla kannski ekki beint undir viðkomandi fag, enda hefur einstaklingurinn menntast og lært betur að tileinka sér nýja þekkingu en ef hann hefur ekki haft áhuga á því námi sem hann hefur stundað.
Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að hver á að fá að læra það sem hugur hans stendur til án þess að skólarnir hafi áhrif þar á, að því tilskyldu að námsárangur sé viðunandi. Aðstæður á vinnumarkaði hafa að sjálfsögðu áhrif á námsval fólks og hefur nokkurn vegin frjálst námsval séð til þess að í dag er yfirleitt nægt framboð af fólki með rétta menntun eða aðlögunarhæfni fyrir flest störf samfélagsins.
Nokkrar stéttir hafa í gegnum tíðina beitt sér á mismunandi hátt fyrir fjöldatakmörkunum í háskólanámi og eru lögfræðingar og læknar hvað nærtækustu dæmin hvað það varðar og hefur verið viðvarandi skortur á þessum stéttum, þá sérstaklega í læknastétt.
Hefur það valdið því að vinnuálag á lækna er oft yfirgengilegt og samningsaðstaða þeirra í launaviðræðum er afar sterk og munar um minna í rekstri heiðbrigðiskerfisins, þar sem laun eru um 70% af heildarútgjöldum.
Leiða má að því líkum að það væri því þjóðhagslega hagkvæmt að fjölga læknanemum með því að veita auknu fjármagni í menntun og starfsþjálfun, bæði til að bæta læknisþjónustuna með minna álagi á hvern lækni og eins til að lækka launakostnað heilbrigðisstofnana því flestum blöskra þær launatölur sem nefndar eru í fjölmiðlum og ekki síður það ómannlega vinnuálag sem er á sumum læknum.
Fleiri leiðir til læknanáms hafa þó opnast á síðustu árum og hefur fjöldi einstaklinga farið erlendis til læknanáms og er óskandi að læknasamfélagið taki þeim af sanngirni og víðsýni að loknu námi.