Gestur Guðjónsson

28 október 2005

Áfengisauglýsingar

Í áfengislögum nr 75 frá árinu 1998 er í 20. grein blátt bann lagt við hverns konar auglýsingum á áfengi.

Það má hverjum sjáandi og heyrandi manni ljóst vera að áfengisheildsalar og framleiðendur áfengis eru ítrekað að brjóta þetta bann með því að auglýsa vöru sem ekki telst áfengi samkvæmt skilgreiningu laganna, en umbúðirnar eru nákvæmlega eins útlítandi eða í besta falli nánast eins. Sömuleiðis eru heilu og hálfu blöðin undirlögð af umfjöllun sem erfitt er að túlka sem annað en auglýsingar á áfengi.

Reynt hefur verið að kæra þessa aðila og í einhverjum tilfellum hafa þeir verið dæmdir til sekta, en greinilegt er að þau viðurlög eru allt of væg, enda eru heildsalarnir hæstánægðir með þá fjölmiðlaumfjöllun sem málið vekur og borga sektirnar oft með bros á vör samdægurs, enda um smánarlega lágar upphæðir að ræða, samanborið við þá veltu sem hér um ræðir.

Eru heilu og hálfu aukablöðin gefin út og dreift í öll hús þar sem fjallað er um áfengi auk þess sem ríkissjónvarpið og aðrir fjölmiðlar dreifa hiklaust þessum auglýsingum og virðist þetta sífellt vera að ágerast, núna síðast í Kastljósi í gær þegar eftir viðtal við Forseta Íslands um fíkniefnamál komu tvær gerviauglýsingar á bjór!

Er greinilegt að hér verður að bæta úr. Til að mega selja áfengi í heildsölu þarf viðkomandi aðili að hafa til þess leyfi og virðist ekki vera hægt að svipta hann því, gerist hann brotlegur við auglýsingabannið og eins eru sektarfjárhæðirnar greinilega það lágar að heildsölunum og framleiðendunum virðist vera slétt sama um að taka áhættuna af því að verða kærðir og sektaðir.

Framsóknarflokkurinn hefur til margra ára haft ábyrga stefnu í áfengis og fíkniefnamálum og voru fíkniefnamál eitt af helstu áherslumálum flokksins fyrir þar síðustu Alþingiskosningar og var því áfram haldið í síðustu kosningabaráttu, og er honum best treystandi til að taka á þessu máli.

Verður það helst gert með því að breyta áfengislögum í þá veru að við endurtekið brot á auglýsingabanni missi viðkomandi aðili heildsöluleyfi og sektir þarf greinilega að margfalda með pí eða jafnvel með pí í öðru veldi. Þannig sjái heildsalarnir og framleiðendurnir sér ekki hag í að taka áhættu í þessum efnum og hætti að fara á svig við lögin og ef þeir brjóti endurtekið af sér missi þeir einfaldlega leyfið til að versla með þessa vöru.

27 október 2005

Kaup ríkisins á þjónustu sérfræðilækna

Eins og stjórnmálin eru í dag virðast stjórnmálamenn mæra einkarekstur í heilbrigðiskerfinu í hástert. Ekki eru allir að tala um sama hlutinn í því sambandi. Sjálfstæðismenn virðast vilja hafa tvöfalt heilbrigðiskerfi, þeirra sem geta borgað og svo heilbrigðiskerfi okkar hinna. Hvað Samfylkingin vill veit ég ekki en orð eins og einkaframtak og einkarekstur virðast koma í belg og biðu upp úr þeim þessi misserin svo eitthvað eru þeir að gæla við slíkt.

Það er skýrt í stefnu Framsóknarflokksins og hefur Jón Kristjánsson Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðið eins og klettur í að verja okkur gegn þeirri vá að komið yrði á tvöföldu heilbrigðiskerfi hér á landi.

Einkarekstur getur vel átt við í mörgum tilfellum, samanber rekstur öldrunarþjónustu og í gangi eru tilraunir með einkarekna heilsugæslu, sem eru góðra gjalda verðar og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeim tilraunum. Þar hafa í einhverjum mæli farið fram útboð og lögmál markaðarins og heilbrigðrar samkeppni hvetja rekstraraðila til að gæta aðhalds og ráðdeildar í rekstri og er það vel. Þá er vel farið með skattpening almennings um leið og vel skilgreind þjónusta er veitt.

En algerlega óskylt lögmálum markaðarins er fyrirkomulag við kaup ríkisins á þjónustu sérfræðilækna. Samtök þeirra semja við Tryggingastofnun fyrir hönd þeirra allra um einingar og einingaverð fyrir vissar rannsóknir og aðgerðir, en svo virðast sérfræðilæknar hafa sjálfdæmi um það hvernig þeir framkvæma aðgerðirnar og rannsóknirnar og virðist hvergi vera til sparað og lítillar umhyggju fyrir takmörkuðum fjármunum ríkisins gætt, hvað þá okkar sem þurfum að borga komugjöldin.
Hægt væri að fylla þykkar bækur með dæmisögum, en bara það að fara í einfalda sýnatöku eða rannsókn kostar oftast undirbúningsviðtal, sem er ein heimsókn með tilheyrandi kostnaði fyrir sjúkling og Tryggingastofnun, sjálf sýnatakan eða myndatakan sem er önnur heimsókn og svo sú þriðja til að kynna niðurstöður rannsóknarinnar. Allt með tilheyrandi rukkun á sjúkling og skattgreiðendur í hvert skipti. Sömu greiningu er svo í mörgum tilfellum hægt að fá gerða á innanvið klukkutíma á spítala og er þá kynning á greiningunni og niðurstöðum hennar innifalin. Vandamálið er að maður þarf fyrst að leggjast inn á spítala til að fá þann aðgang.

Ómögulegt virðist vera að hafa eftirlit með þessum vinnubrögðum, að minnsta kosti verður maður sem almennur borgari ekki mikið var við umræðu um það.

Eðlilegra væri að Tryggingastofnun byði út þær rannsóknir og aðgerðir sem hægt væri að bjóða út, magn rannsókna og aðgerða er nokkuð fyrirsjáanlegt frá ári til árs og aðferðir og gæðamarkmið einnig. Ef halda á áfram að kaupa þjónustu af einkareknum sérfræðilæknum er illa farið með fjármuni ríkisins og beinlínis í andstöðu við lög um innkaup á vegum hins opinbera að bjóða ekki slíka kaup út, ef ríkið ætlar ekki sjálft að framkvæma verkin á sínum sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum.

19 október 2005

Sækja - sótti - sótt til saka

Mikið hefur farið fyrir umræðu um Baugsmálið undanfarið. Ekki ætla ég að gerast enn einn sjálfskipaði kverúlantinn og dylgjarinn í því máli, en í framhaldi af því er ljóst að fara þarf yfir það hvernig málum er háttað við rannsókn brotamála og saksókn í framhaldi af þeim og hvort breytinga sé þörf.

Verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra er rannsókn auðgunar- og fleiri brota, eða eins og segir á heimasíðu embættisins:
“Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans fer með rannsókn alvarlegra brota gegn ákvæðum auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Einnig fer deildin með rannsókn ákveðinna sérrefsilagabrota, þ.e. brota gegn skattalögum, tollalögum (tollsvik), lögum sem varða gjaldeyrismál, verðlagsmál, verðbréfa- og lánsviðskipti, umhverfísvernd, vinnuvernd og stjórn fiskveiða. Þá annast deildin rannsókn allra svokallaðra efnahagsbrota, en þau eru skilgreind sem refsiverð háttsemi í hagnaðarskyni, sem fer fram kerfisbundið og reglulega í annars löglegri atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklinga”
Á heimasíðu deildarinnar segir að á hinum Norðurlöndunum séu tilsvarandi sérhæfðar deildir varðandi efnahagsbrot, sem er góðra gjalda vert. Samt hlýtur það að stinga í stúf við annað skipulag um meðferð opinberra mála að rannsókn mála og saksókn er á sömu hendi, sem er ekki tilfellið í öðrum málum.

Er vísað til þess hversu sérhæfð málin eru í því sambandi, en í meðferð þessara mála eins og allra annarra opinberra refismála hlýtur að vera eðlileg krafa að rannsókn og ákvörðun um ákæru sé aðskilin. Enda er það að lenda saklaus í opinberri ákæru af þessu tagi það alvarlegt mál að það hlýtur að eiga að fara í gegnum hendur óháðs aðila eins og tilfellið er í öðrum málum, þar sem ríkissaksóknari fer yfir rannsóknargögn lögreglu og metur hvort ástæða er til ákæru.

Er því eðlilegt að skoðað verði með fullri alvöru að flytja ákæruvald efnahagsbrotadeildar til ríkissaksóknara og í rauninni rökrétt framhald af því að sýslumannsembættunum var breytt eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og yrði almennt til bóta við meðferð opinberra mála.

Það stingur einnig í augun að á meðan að efnahagsbrotadeildin sinnir þeim verkefnum sem ofan eru talin, skuli samhliða vera rekin embætti sem eru að fjalla um sömu eða sambærileg mál sem hafa aukreitis ígildi dómsvalds í málaflokkum sínum auk rannsóknarheimilda. Skattrannsóknastjóri rannsakar skattalagabrot, Tollstjóri rannsakar tollalagabrot og mýgrútur af eftirlitsstofnunum á sviði umhverfis-, vinnuverndar-, fiskveiða-, viðskipta- og fjármála hafa eftirlit með og rannsaka mál sem viðkomandi stofnanir verða svo líklegast að kæra til embættis ríkislögreglustjóra til að embættið aðhafist í málinu. Sömu stofnanir hafa að auki flestar heimildir til að beita stjórnvaldssektum og eru þar með í raun orðnir dómarar í þeim málum sem þau rannsaka.

Er þá ekki einfaldara að viðkomandi eftirlitsstofnanir rannsaki og leggi málin beint til saksóknara, enda hlýtur sérfræðiþekkingin hvort eð er meira og minna að vera innan viðkomandi embætta og stofnanna og rannsókn mála hlýtur þegar að hafa farið fram?

Nema að spilinu sé snúið við og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra yrði stórefld og um leið falið að rannsaka öll þau mál sem viðkomandi eftirlitsstofnanir telji að brjóti í bága við lög og reglur og vinni deildin svo málið í hendur ríkissaksóknara, sem getur lokið málum með dómssátt eða ákært?

Um þetta og annað þessu tengt verður sjálfsagt skeggrætt næstu misseri en eðlilegt er í tengslum við verkefnið “Einfaldara Ísland” sem forsætisráðherra hefur hleypt af stokkunum að farið yfir þessi mál samhliða öðrum.

12 október 2005

Bakarar og smiðir

Það dylst engum sem fylgist með þjóðmálaumræðunni þessa dagana að það er álag á efnahagskerfi þjóðarinnar. Mörgum er kennt um ástandið en helst beinist gagnrýnin að rekstri ríkissjóðs, íbúðalánasjóði og virkjanaframkvæmdum. En hvort eru þetta bakararnir eða smiðirnir?

Fyrst er rétt að spyrja sig hvort það sé eitthvað ástand?
Útflutningsatvinnuvegirnir kvarta sáran undan háu gengi og virðist vera sem háu gengi krónunnar sé kennt um allar lokanir og uppsagnir í sjávarútveginum. Megnið af þessum lokunum eru í rækjuvinnslunni og eitthvað virðist mönnum þar gleymast að olíuverð er hátt, það er sáralítil rækjuveiði sem eykur olíueyðslu á hvert veitt tonn og verðið á rækju er lágt vegna samkeppni við aðra rækju, jafnvel þó í erlendri mynt sé talið. Auðvitað hefur gengið mikið að segja um hversu mikið fæst fyrir hvert kíló í íslenskum krónum, en það hefur ekki allt að segja. Hinir þættirnir, þeas aflabresturinn og verðið á erlendu mörkuðunum hafa ekki minna að segja í því sambandi og því rétt að halda því til haga.

En hið háa gengi krónunnar samfara kaupmáttaraukningu undanfarinna ára og miklu lánsfé í umferð hefur það í för með sér að erlend vara flæðir nú inn sem aldrei fyrr. Hefur einkaneysla aukist svo um munar, þannig að vöruskiptajöfnuðurinn er afar óhagstæður og ástæður hans kannski verstar, þar sem aukningin er mest í eyðslu í forgengilega hluti en ekki framleiðslutækin álver og virkjanir eins og haldið er fram. Sést það best á hagtölum Hagstofunnar. Er aukningin í einkaneyslu slík að innflutningur vegna stóriðju- og virkjanaframkvæmda eru eins og dropi í hafið í því sambandi. Aukning í útgjöldum ríkisins er nánast einvörðungu launahækkanir og er frestun opinberra verkefna meðan á virkjunarframkvæmdum stendur til fyrirmyndar. Þannig að með hóflegri einföldun má segja að það sé ástand, en ástandið er neysla þjóðarinnar, eyðsla í forgengilega hluti sem ekki skila sér með saman hætti og fjárfestingar í framtíðinni.

Við því ástandi verður að bregðast. Það verður sem sagt að bregðast við því að lánsfé sé notað í neyslu forgengilegra hluta. Engin ástæða er til að hefta aðgengi að lánsfé til húsbygginga og slíkar hluta enda fjárfesting til framtíðar en með innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn, þvert ofan í yfirlýsingar þeirra þegar kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% lán Íbúðalánasjóðs voru gefin, ásamt almennri eflingu bankanna, hefur aðgengi almennings að lánsfé aukist svo að greinilegt er að mikið af neyslunni er tekin að láni. Það er ekki gott og við því verður að bregðast. Það er rétt að halda því til haga að útlán Íbúðalánasjóða hafa ekki aukist undanfarin misseri, svo ekki er hægt að kenna honum um peningamagnið sem er í umferð.

Seðlabankinn hefur beitt stýrivaxtatækinu til að reyna að hafa áhrif á verðbólguna, en það er greinilegt að það vopn er seinvirkt og hefur slæmar hliðarverkanir á gengi krónunnar og spurning hvort það dugi yfirhöfuð. Seðlabankinn hefur fleiri vopn til að minnka fé á peningamarkaðnum, en það er vald hans til að stjórna bindiskyldu bankanna. Með því að auka hana á tímum eins og þessum er hægt að taka mikið magn peninga af markaði og torvelda aðgengi að lánsfjármagni og eins hægt að auðvelda það þegar hægjast fer um í efnahagslífinu.

Spurning er hvort þessi vopn dugi til að minnka útlán viðskiptabankanna og peningamagnið í umferð til að slá á neysluna eða hvort bankarnir hafi leiðir til að komast framhjá þeim áhrifum, því það er alveg ljóst að það eru útlán bankanna sem eru að valda stærstum hluta þenslunnar ásamt kaupmáttaraukningunni og verða þeir að teljast smiðirnir í þessu dæmi, meðan íbúðalánasjóður, virkjanaframkvæmdir og stjóriðjuframkvæmdir eða rekstur ríkissjóðs eru bakarar.

En ljóst af öllu að ef Seðlabankinn hefur ekki vopn til að stjórna hagkerfinu verða menn að taka opna umræðu um framtíð íslensku krónunnar.