Í áfengislögum nr 75 frá árinu 1998 er í 20. grein blátt bann lagt við hverns konar auglýsingum á áfengi.
Það má hverjum sjáandi og heyrandi manni ljóst vera að áfengisheildsalar og framleiðendur áfengis eru ítrekað að brjóta þetta bann með því að auglýsa vöru sem ekki telst áfengi samkvæmt skilgreiningu laganna, en umbúðirnar eru nákvæmlega eins útlítandi eða í besta falli nánast eins. Sömuleiðis eru heilu og hálfu blöðin undirlögð af umfjöllun sem erfitt er að túlka sem annað en auglýsingar á áfengi.
Reynt hefur verið að kæra þessa aðila og í einhverjum tilfellum hafa þeir verið dæmdir til sekta, en greinilegt er að þau viðurlög eru allt of væg, enda eru heildsalarnir hæstánægðir með þá fjölmiðlaumfjöllun sem málið vekur og borga sektirnar oft með bros á vör samdægurs, enda um smánarlega lágar upphæðir að ræða, samanborið við þá veltu sem hér um ræðir.
Eru heilu og hálfu aukablöðin gefin út og dreift í öll hús þar sem fjallað er um áfengi auk þess sem ríkissjónvarpið og aðrir fjölmiðlar dreifa hiklaust þessum auglýsingum og virðist þetta sífellt vera að ágerast, núna síðast í Kastljósi í gær þegar eftir viðtal við Forseta Íslands um fíkniefnamál komu tvær gerviauglýsingar á bjór!
Er greinilegt að hér verður að bæta úr. Til að mega selja áfengi í heildsölu þarf viðkomandi aðili að hafa til þess leyfi og virðist ekki vera hægt að svipta hann því, gerist hann brotlegur við auglýsingabannið og eins eru sektarfjárhæðirnar greinilega það lágar að heildsölunum og framleiðendunum virðist vera slétt sama um að taka áhættuna af því að verða kærðir og sektaðir.
Framsóknarflokkurinn hefur til margra ára haft ábyrga stefnu í áfengis og fíkniefnamálum og voru fíkniefnamál eitt af helstu áherslumálum flokksins fyrir þar síðustu Alþingiskosningar og var því áfram haldið í síðustu kosningabaráttu, og er honum best treystandi til að taka á þessu máli.
Verður það helst gert með því að breyta áfengislögum í þá veru að við endurtekið brot á auglýsingabanni missi viðkomandi aðili heildsöluleyfi og sektir þarf greinilega að margfalda með pí eða jafnvel með pí í öðru veldi. Þannig sjái heildsalarnir og framleiðendurnir sér ekki hag í að taka áhættu í þessum efnum og hætti að fara á svig við lögin og ef þeir brjóti endurtekið af sér missi þeir einfaldlega leyfið til að versla með þessa vöru.